Man City að undirbúa tilboð í Guehi - Man Utd hyggst ekki fá Rashford aftur - Gomez áfram hjá Liverpool
   þri 28. desember 2010 22:20
Magnús Már Einarsson
Eiður Smári fer frá Stoke í janúar
Eiður Smári Guðjohnsen mun yfirgefa herbúðir Stoke þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Eiður Smári kom til Stoke frá Monaco rétt áður en félagaskiptaglugginn lokaði í ágúst.

Hann hefur hins vegar ekki verið inni í myndinni hjá enska félaginu og nú er ljóst að hann er á förum.

Tony Pulis, stjóri Stoke, er samkvæmt heimildum Fótbolta.net búinn að gefa Eiði leyfi á að fara í janúar og hann ætlar að hjálpa honum að finna nýtt félag.

Eiður Smári hefur alls komið við sögu í fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni í vetur en í öllum leikjunum kom hann inn á sem varamaður.

Undanfarnar vikur hefur Eiður verið ónotaður varamaður hjá Stoke en síðasti leikur hans með liðinu var í lok október. Eiður var síðast á bekknum þegar Stoke tapaði 2-0 gegn Fulham í dag.

Eiður Smári, sem er 32 ára gamall hefur lengst af á sínum ferli leikið á Englandi. Eiður lék með Bolton frá 1998-2000 og síðan með Chelsea til ársins 2006.

Eftir þrjú tímabil með Barcelona fór Eiður til Monaco þar sem hann var ekki inni í myndinni en hann var á láni hjá Tottenham síðari hlutann á síðasta tímabili áður en hann gerði eins árs samning við Stoke í ágúst.
banner
banner