fös 14. október 2011 12:36
Elvar Geir Magnússon
Lars Lagerback tekur við landsliðinu (Staðfest)
Elvar Geir Magnússon skrifar frá höfuðstöðvum KSÍ
Lars Lagerback hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands til næstu tveggja ára. Frá þessu var greint á blaðamannafundi sem lauk fyrir skömmu í höfuðstöðvum KSÍ.

Lagerback verður búsettur í Svíþjóð áfram en verður á landinu eins og þarf. „Hann mun gefa sér þann tíma og dvelja hér eins og þarf. Hann mun nú einbeita sér að kortleggja sitt starf," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Hann segir að þær launatölursem hafi verið gefnar upp í fjölmiðlum séu alls ekki í takt við raunveruleikann. Sambandið hafi ákveðið að halda sig ákveðins launaramma og það hafi verið gert. Launatölur Lagerback sem gefnar hafa verið upp í fjölmiðlum séu því mjög ýktar.

„Það er mjög ánægjulegt að ná samningi við Lars um að taka við landsliðinu næstu árin. Það er mikill fengur fyrir íslenska knattspyrnu að fá hann til starfa. Svo höfum við fengið Heimi Hallgrímsson til að vera aðstoðarmaður hans. Hér höfum við ráðið mjög færa þjálfara til starfa," segir Geir Þorsteinsson.

Ráðningartími Lagerback er til loka árs 2013 en ef hann skilar liðinu á HM lengist samningur hans fram yfir keppnina.

Viðtal við Lagerback kemur hingað inn á síðuna innan skamms.



Fótbolti.net var með beina textalýsingu frá blaðamannafundinum:

12:30 Fundi hefur verið slitið og látum við þessari textalýsingu þar með lokið.

12:26 Lagerback segist vilja vera eins mikið á landinu og hann geti til að fylgjast með leikmönnum sem spila innanlands. Annars sé hann með Heimi sér við hlið sem sé sérfræðingur í íslenskum fótbolta. Lagerback mun vera búsettur í Svíþjóð og Heimir í Vestmannaeyjum.

12:23 Lagerback segist hafa átt viðræður við knattspyrnusambands Austurríkis en ekki vitað hversu nálægt hann hafi verið því að fá starfið.

12:16 Lagerback segist vonast til þess að geta unnið náið með yngri landsliðum og þjálfurum. Hann segir að það sé mjög mikilvægt í minni þjóðum.

12:12 Geir segir að það hafi verið ákveðið tveimur mánuðum innan KSÍ að ráða erlendan landsliðsþjálfara. Tími sé kominn á ferska vinda inn í íslenskan fótbolta. Ráðningartími Lagerback er til loka árs 2013 en ef hann skilar liðinu á HM lengist samningur hans fram yfir keppnina.

12:10 Geir vill ekki gefa það upp hvort Lagerback hafi verið fyrsti kostur. Hann segir að sambandið hafi rætt við nokkra þjálfara en nafn Lagerback hafi komist á blað mjög snemma í ferlinu.

12:08 Geir Þorsteinsson viðurkennir að hann og Þórir Hákonarson hafi fundað með Roy Keane.

12:07 Lagerback segist ekki líka vel við að tapa, hann sé að taka við þessu landsliði til að vinna. Heimir segir það mikinn heiður fyrir sig að vera ráðinn aðstoðarþjálfari og segir það gott skref á sínum þjálfaraferli.

Geir segir að Lagerback verði á landinu eins og þurfi. „Hann mun gefa sér þann tíma og dvelja hér eins og þarf. Hann mun nú einbeita sér að kortleggja sitt starf," segir Geir.

12:03 Geir segir að þær launatölur Lagerback sem hafi verið gefnar upp í fjölmiðlum séu alls ekki í takt við raunveruleikann. Sambandið hafi ákveðið að halda sig ákveðins launaramma og það hafi verið gert. Launatölur Lagerback séu því mjög ýktar.

12:01 „Það er mjög ánægjulegt að ná samningi við Lars um að taka við landsliðinu næstu árin. Það er mikill fengur fyrir íslenska knattspyrnu að fá hann til starfa. Svo höfum við fengið Heimi Hallgrímsson til að vera aðstoðarmaður hans. Hér höfum við ráðið mjög færa þjálfara til starfa," segir Geir Þorsteinsson.

Hann færir Lagerback og Heimi svo landsliðstreyjur að gjöf.

11:58 Menn keppast við að taka í höndina í Heimi Hallgrímssyni og Lars og óska þeim til hamingju með starfið. Verið er að gera allt klárt fyrir fundinn sem á að hefjast eftir tvær mínútur.

11:54 Lars Lagerback er mættur einnig. Það er orðið alveg ljóst að hann tekur við þessu liði.

11:53 Blaðamenn eru að mæta og ljóst að það verður fjölmenn meðal
fjölmiðlamanna. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, er mættur í salinn ásamt Geir Þorsteinssyni formanni.

11:45 Hér í höfuðstöðvum KSÍ er Heimir Hallgrímsson mættur og er að gæða sér á samlokum. Allt sem bendir til þess að hann taki við starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara.

11:30 Heil og sæl og velkomin í þessa beinu textalýsingu frá blaðamannafundi KSÍ. Búist er við því að á fundinum verði tilkynnt um ráðningu á hinum sænska Lars Lagerback sem nýjum landsliðsþjálfara Íslands.

Blaðamannafundurinn hefst klukkan 12:00.

Einnig eru sögusagnir um að við sama tilefni verði tilkynnt að Heimir Hallgrímsson verði aðstoðarþjálfari hans en það á allt eftir að koma betur í ljós.

Við færum ykkur fréttir af fundinum hér í þessari textalýsingu.
banner
banner
banner
banner
banner