Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 13. desember 2011 14:27
Hafliði Breiðfjörð
María Björg leggur fótboltaskóna á hilluna
María Björg fagnar eftir leikinn gegn Írum haustið 2008.
María Björg fagnar eftir leikinn gegn Írum haustið 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
María í leik með Val.
María í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
María Björg Ágústsdóttir sem varði mark KIF Örebro í sænsku úrvalsdeildinni þetta árið hefur tekið ákvörðun um að leggja fótboltaskóna á hilluna en þetta staðfesti hún í samtali við Fótbolta.net í morgun.

María hafði gengið til liðs við sænska félagið fyrir rétt tæpu ári síðan og var aðalmarkvörður liðsins.

Hún fékk slæman heilahristing eftir höfuðhögg í leik gegn Linköping 17. ágúst síðastliðinn og gat því ekki spilað meira með liðinu eftir það. Hún er nú búin að ná sama sem fullum bata.

,,Ég ætla mér ekki að spila á næsta ári. Þetta er í raun ákvörðun sem ég tók á meðan ég var enn að berjast við einkenni heilahristingsins, sem ég var rúma tvo mánuði að hrista af mér," sagði María Björg við Fótbolta.net í morgun.

,,En einkennin höfðu ekki bara áhrif á það að ég gæti ekki æft heldur líka á dagleg störf. Það var mjög óþægilegt að upplifa það að geta ekki klárað ýmis smáverkefni sem áður fyrr höfðu verið einföld í sniðum," hélt hún áfram.

,,Líklegast er ég heldur ekki ennþá alveg laus við þá hugsun að velta því fyrir mér hvað gæti gerst við annað högg þar sem það hefur liðið svo skammur tími frá því að einkennin hurfu."

María sem er 29 ára gömul hafði tekið sér frí frá fótbolta árin 2006 og 2007 en tók fram hanskana að nýju með KR árið 2008. Hún á að baki 170 meistaraflokksleiki hér á landi með Val, KR og Stjörnunni.

Hún var aðalmarkvörður íslenska landsliðsins haustið 2008 í gríðarlega mikilvægum leikjum gegn Írlandi í umspili um sæti á EM 2009 en þar tryggði liðið sér sæti á mótinu.

Eftir það ár fór hún í Val þar sem hún var í tvö ár þar til hún fór til Svíþjóðar. Hún hefur leikið 11 A-landsleiki.

,,Ég er í raun fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa náð sama sem fullum bata að söknuðurinn varðandi fótboltann hefur ekki enn komist að hjá mér, þó það verði kannski einhver breyting á því þegar ég heyri stelpurnar í vor tala um æfingarnar á nýslegnu grasinu!" sagði hún við Fótbolta.net í morgun.

,,En annars held ég að það sé bara best að vera ekki með neinar stórar yfirlýsingar varðandi fótboltann. Í mínum huga er þetta frekar einföld og afslöppuð ákvörðun eins og staðan er í dag. Hugsanlega set ég á mig hanskana aftur síðar ef hugurinn fylgir með en á meðan mun ég njóta Íslandsmótsins sem áhorfandi."
banner
banner
banner
banner