fim 05. janúar 2012 15:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Ouseley lávarður segir Liverpool hafa sýnt hræsni
Mynd: Getty Images
Ouseley lávarður, formaður samtakanna „Kick It Out" sem berjast gegn kynþáttafordómum segir í greinarskrifum í Guardian að Liverpool hafi sýnt hræsni í meðhöndlun sinni á máli Luis Suarez og Patrice Evra.

Þá segir hann að afsökunarbeiðni Suarez sé ekkert annað en skammarleg.

„Liverpool þarf að taka sig í algjöra endurskoðun," segir Ouseley. Hann segir að Suarez hegði sér eins og einstaklingur sem hafi ekki gert neitt rangt en afsökunarbeiðni hans er ekki beint að Evra.

„Ég á erfitt með að trúa því að Liverpool sem er á þessum stalli, og hefur áður verið í fararbroddi í málum gegn félagslegu óréttlæti og ójöfnuði, geri sig seka um svona léleg og vanhugsuð viðbrögð."

„Liverpool hefur sýnt hræsni í þessu máli. Þú getur ekki klæðst „Kick It Out" bolum í baráttunni gegn kynþáttafordómum þegar þetta er að gerast inni á vellinum. Það er hræsni. Leikmenn Liverpool klæddust bolum til stuðnings Luis Suarez, sama hver útkoman yrði á málinu. Þetta voru skítleg viðbrögð sem hristu í hlutunum," segir Ouseley.

Liverpool grafið undan rannsókninni
Piara Powar, stjórnarmaður samtakanna „Fótbolti gegn kynþáttafordómum" í Evrópu, telur að enska knattspyrnusambandið sé í rétti til að ákæra Liverpool og knattspyrnustjórann Kenny Dalglish fyrir viðbrögð þeirra við málinu.

„Liverpool hefur stöðugt verið að grafa undan rannsókninni og niðurstöðu hennar. Það hefur komið fram við FA af óvirðingu og efast um heiðarleika og hlutleysi sambandsins. Ef knattspyrnustjóri myndi gera það í viðtali eftir leik þá yrði hann ákærður," segir Powar við BBC.

Talið er að enska knattspyrnusambandið hafi hvorki í hyggju að ákæra Liverpool né Dalglish.
banner
banner
banner
banner