Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 11. janúar 2012 16:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: The Sun 
Tim Lovejoy: Setjið hljóðnema á dómarann
Ruðningsdómarinn Nigel Owens.
Ruðningsdómarinn Nigel Owens.
Mynd: Getty Images
Sjónvarpsmaðurinn Tim Lovejoy skrifaði athyglisverðan pistil sem birtist í The Sun í morgun. Þar tekur hann til umfjöllunar það virðingarleysi sem knattspyrnudómarar þurfa að starfa við.

Hér að neðan má sjá íslenska þýðingu á pistlinum:



Í gær fékk ég sent myndbrot af ruðningsdómaranum Nigel Owens að störfum í leik milli Munster og Treviso um síðustu helgi. Þar sést hann tala opinberlega við leikmann:

„Ég held að ég hafi ekki hitt þig áður en ég er dómarinn á vellinum, ekki þú. Haltu þér við þitt starf og ég geri mitt. Ef ég heyri þig aftur biðja um eitthvað þá mun ég refsa þér. Þetta er ekki knattspyrna."

Þetta er algjör snilld og hann hefur svo sannarlega rétt fyrir sér, þetta er ekki knattspyrna þar sem leikmenn kvarta og reyna að hafa áhrif á hverja einustu ákvörðun.

Í þessu myndbroti er aðeins einn maður sem ræður í leiknum. Áhorfendur sjá það glögglega og þetta lætur okkar íþrótt líta út fyrir að vera frumstæða. Eftir að hafa tekið þessa umræðu upp á Twitter var mér fljótlega bent á það að Nigel Owens dómari er með aðgang á Twitter þar sem hann er einnig fús til að svara spurningum áhugamanna. Stórmerkilegt.

Þetta er öfugt við það sem við þekkjum úr knattspyrnunni þar sem dómarar virðast svo fjarlægir okkur. Knattspyrnudómari gæti aldei haft aðgang á Twitter. Þeir þurfa að lifa við svo mikla fyrirlitningu að þeir myndi fá helling af skömmum frá stuðningsmönnum og leikmönnum.

Í spjalli mínu við Nigel á Twitter sagði hann mér að hann myndi ekki sætta sig við kvartanir frá leikmönnum, því vaknar upp sú spurning: Af hverju gera knattspyrnudómarar það? Hvernig komst íþróttin okkar í þessa hræðilegu stöðu að leikmenn geti rifið kjaft og komið fram við dómara með þessum hætti?

Hugarfar knattspyrnumanna er rangt og því þarf að breyta. Ég held að það myndi ekkert koma stuðningsmönnum í uppnám ef leikmenn verða einfaldlega spjaldaðir fyrir að mótmæla ákvörðunum dómarans. Ég veit að dómarar gera mistök en það er ekki eins og þeir muni skipta um skoðun.

Annað athyglisvert við þetta myndbrot er að Nigel er með hljóðnema. Ég held að þetta sé eitthvað sem verði að prófa í knattspyrnu. Ef dómarar eru með hljóðnema geta þeir útskýrt ákvörðun sína og við getum séð að þeir eru bara mannlegir.

Það myndi svipta hulunni af þessum dulda hluta fótboltadómarans og fær örugglega einhverja leikmenn til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir láta í sér heyra. Þetta var einu sinni reynt þegar falinn hljóðnemi var á David Elleray sem dæmdi leik Millwall og Arsenal á níunda áratug síðustu aldar.

Tony Adams kallaði þá til Elleray eftir að hann dæmdi mark af: "F*cking cheat" (Helvítis svindlari). Ótrúlegt en satt þá var hann ekki rekinn af velli og slapp með smá viðvörun. Ég get trúað því að æðstu menn séu of hræddir við að gera aðra tilraun með hljóðnema eftir þetta atvik.

Ég held að Brian Clough hafi verið síðasti knattspyrnustjóri sem lagði áherslu á það við leikmenn sína að þeir myndu virða dómarann. Við þurfum að breyta þessu. Við ættum að setja upp stefnu þar sem ekkert umburðarlyndi er. Ef þú blótar á vellinum og mótmælir ákvörðun dómarans færðu gult spjald.

Ég veit að þetta gæti orðið skrautlegt fyrstu mánuðina en það mun koma ykkur á óvart hversu fljótt leikmenn munu læra.



Nigel Owens að störfum í ruðningnum:


David Elleray með hljóðnema:

banner
banner
banner