Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 26. júlí 2012 14:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gerum ekki meiri kröfur til annarra en að við gerum til okkar sjálfra
Örn Gunnarsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Örn Gunnarsson (til vinstri).
Örn Gunnarsson (til vinstri).
Mynd: Heimasíða ÍA
Mark Doninger.
Mark Doninger.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Málefni knattspyrnumannsins Mark Doninger hafa verið nokkuð í umræðunni og hafa knattspyrnufélög verið gagnrýnd fyrir að hafa leikmann innan sinna raða sem grunaður er um ofbeldisverk. Svona mál eru auðvitað óþægileg fyrir íþróttahreyfinguna og geta sett blett á starf viðkomandi félaga. Flest íþróttafélög hafa sett sér siðareglur sem iðkenndum, þjálfurum og forráðamönnum ber að tileinka sér. Í þessum reglum kemur yfirleitt fram að þeir sem tengjast félögunum skuli haga sér til fyrirmyndar og stunda reglusamt líferni.

Mál Mark Doninger eru til meðferðar fyrir dómstólum. Í slíkum tilfellum geta íþróttafélög ekki rannsakað mál og fellt dóm um það hvað sé rétt eða rangt. Þessi mál eru oft flókin, framburður aðila stangast oft á og í réttarríkjum er málsmeðferð á vegum hins opinbera sem sker úr um það hvort að hegðun viðkomandi er ámælisverð eður ei. Þar til að endanleg niðurstaða liggur fyrir í slíkum málum geta íþróttafélög hvorki fordæmt hegðun viðkomandi einstaklings né veitt samþykki sitt fyrir henni. Íþróttamenn sem komast í slíka aðstöðu, njóta mannréttinda eins og aðrir og íþróttafélögum sem og öðrum ber að virða þau, þ.á.m. réttinn til atvinnu og réttlátrar málsmeðferðar. Það er því ekki tímabært hvorki fyrir mig né aðra að tjá sig um málefni Mark Doninger, sú umræða verður að bíða þar til að niðurstaða fæst í hans málum.

Á hverju ári koma upp atvik hjá íþróttafélögum þar sem að ungir einstaklingar villast af leið. Það kann að koma upp að þeir hafi sýnt af sér einelti, þeir lenda í áfengis- eða fíknaefnavandræðum eða annars konar vandræðum. Það er ekkert öðruvísi hjá íþróttafélögum en annars staðar í þjóðfélaginu að bakgrunnur þeirra sem tengjast félögunum er æði misjafn og því endurspegla íþróttafélög yfirleitt þá þjóðfélagsmynd sem við líði er á hverjum tíma.

Hjá þeim félögum sem að ég þekki til, að þá eru viðbrögð íþróttahreyfingarinnar yfirleitt þau sömu þegar að vandræði hjá félagsmönnum koma upp. Félögin reyna að hjálpa viðkomandi einstaklingum og oftar en ekki tekst það með miklum sóma. Hjá því félagi sem ég hef starfað fyrir hefur í yfirgnæfandi tilvika tekist vel til með að hjálpa þeim sem orðið hefur á. Ef að þessi mál eru sett í samhengi við venjulega fjölskyldu, að þá held ég að í yfirgnæfandi tilvikum að þá reyni fjölskyldur að hjálpa þeim sem orðið hefur á, en kasta þeim ekki í burtu og fordæma viðkomandi opinberlega. Af hverju skyldi íþróttafjölskyldan haga sér með öðrum hætti. Vilji viðkomandi einstaklingur hins vegar ekki þiggja hjálp eða sýni hann enga tilburði til þess að bæta líf sitt horfir málið hins vegar öðru vísi við og kann þá að þurfa að grípa til annarra aðgerða. En á meðan aðilar sína vilja til þess að bæta líf sitt og hegðun þeirra endurspeglar það, þá styðjum við þá og hjálpum þeim.

Það er orðið ansi algengt í þjóðfélaginu í dag, að kveðnir eru upp sleggjudómar án þess að sleggjudómarinn þekki til málsatvika. Sumir fjölmiðlar virðast nærast á þessu og slá slíkum sleggjudómum upp á forsíðu eða með áberandi hætti á vefmiðlum. Virðist engu skipta þó svo að við höfum að undanförnu séð mannorð fjölmargra einstaklinga lagt í rúst í fjölmiðlum, bæði hér heima sem erlendis, sem síðar hafa fengið uppreisn æru þegar að öll málsatvik hafa legið fyrir. Slík hegðun er ámælisverð og ekki til þess fallin að bæta það þjóðfélag sem að við lifum í.

Íþróttahreyfingin hefur tekið á sig þær skyldur að vera fordæmisgefandi fyrir ungt fólk. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga styður íþróttahreyfinguna og treystir til þeirra verka. Þetta traust hefur tekið áratugi að byggja upp með tugþúsundum sjálfboðaliða. Þegar einstaklingar innan íþróttahreyfingarinnar lenda í vandræðum sýnir íþróttahreyfingin gott fordæmi með því að hjálpa viðkomandi einstaklingum og virða þeirra grundvallar mannréttindi, þ.á.m. til réttlátrar málsmeðferðar. Sleggjudómar er ekki hluti af þeim skilaboðum sem íþróttahreyfingin á að taka þátt í. Það væri ekki gott fordæmi.

Örn Gunnarsson hdl.
Formaður Afrekssviðs Knattspyrnufélags ÍA
Athugasemdir
banner
banner