Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 06. júní 2007 10:03
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta af KV?
Mynd: KV
Úr leik hjá KV og Ægi síðastliðið sumar.
Úr leik hjá KV og Ægi síðastliðið sumar.
Mynd: Guðmundur Karl
Frá bikarleik KV og Selfyssinga þar sem að Scooby Doo mætti og gaf gestum og gangandi tópas.
Frá bikarleik KV og Selfyssinga þar sem að Scooby Doo mætti og gaf gestum og gangandi tópas.
Mynd: KV
Úr æfingaleik KV og KR síðastliðinn vetur.
Úr æfingaleik KV og KR síðastliðinn vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Gunnar Kristjánsson nýliði í íslenska landsliðshópnum er oft línuvörður á leikjum KV.
Gunnar Kristjánsson nýliði í íslenska landsliðshópnum er oft línuvörður á leikjum KV.
Mynd: KV
Handknattleikslið KV eftir tap gegn FH.
Handknattleikslið KV eftir tap gegn FH.
Mynd: KV
Þá er komið að liðnum hvað er að frétta þar sem að við fáum menn úr liðum í fyrstu, annarri og þriðju til að svara nokkrum spurningum.

Í þessari viku förum við í Vesturbæinn og kíkjum á stemminguna hjá 3.deildarliðinu KV. Við fengum Björn Berg Gunnarsson og Pál Kristjánsson stjórnarmenn liðsins til að svara spurningum.
Eldra úr liðnum: Hvað er að frétta?


Hvernig er stemmingin hjá KV í upphafi tímabils? Hún er til fyrirmyndar. Við höfum fengið marga nýja leikmenn, flesta úr KR og þeir smellpassa inn í þetta. Leikmenn eru góðir vinir og hittast mikið utan æfinga. Það hefur hjálpað okkur mikið hvað menn þekkjast vel í félaginu. Eins hefur það auðveldað okkur að fá nýja stráka inn í liðið því menn vita að hverju þeir ganga og nýir leikmenn aðlagast vel. Það er ekki alltaf auðvelt því það verður seint sagt að Vesturbæingar séu þeir umburðarlindustu.

Eruð þið ánægðir með upphaf tímabilsins, fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjunum í A-riðlinum? Annar leikurinn hefur reyndar verið kærður vegna alvalegra brota á framkvæmd leiksins og ólöglegra leikmanna þannig að sennilega verða þau sex þegar upp er staðið. Vegna prófa og meiðsla var erfitt að manna leikina en við sjáum margt jákvætt í spilamennsku liðsins og sumt sem þarf að bæta. En það er óhætt að segja að við ætluðum okkur að vera með sex stig eftir tvo leiki og því eru þetta ákveðin vonbrigði. En við erum ekki hættir.

Hvernig líst ykkur á A-riðilinn? Þetta er sterkur riðill en skemmtilegur að sama skapi. Víðismenn virka fyrirfram sterkastir en þeir hafa unnið sinn riðil undanfarin tvö ár. Augnablik, Kári og BÍ/Bolungarvík eru með sterk lið og svo virðast GG vera að styrkja sig. Útileikirnir verða erfiðir en að okkar mati erum við með nógu öflugt lið til að standa í hverjum sem er. Við teljum okkur vera með eitt af tveimur sterkustu liðinum í þessum riðli. Annars er oft erfitt að tjá sig um andstæðinginn í þriðju deild þar sem hóparnir breytast mikið á milli tímabila og jafnvel á milli leikja.

Hvert er markmið liðsins fyrir sumarið? Markmið KV er að hafa gaman af félagsskapnum og af því að spila fótbolta. Það er okkar helsta markmið að sumarið verði skemmtilegt, en það verður það óneitanlega helst ef árangur næst á vellinum. Í sumar fara fimm lið upp í 2. deild og við teljum okkur vera nógu sterka til að komast þangað, þó liðið sé ungt og óreynt. Við erum nær ósigrandi á heimavelli og stefnum á að halda því áfram, en bæta jafnframt árangur okkar á útvelli, en félagið hefur ekki aldeilis riðið feitum hesti frá kappleikjum á grasi.

Þið duttuð út úr VISA-bikarnum eftir 3-2 tap gegn Selfyssingum en stemmingin á vellinum var góð var það ekki? Það var mögnuð stemning á KV Park og mikið fjör. Áhorfendur troðfylltu leikvanginn og Scooby Doo mætti og gaf Tópas. Leikmönnum beggja liða og dómurum var boðið upp á orkudrykki fyrir leik og í veislu í félagsheimilið að honum loknum. Leikurinn var góður af okkar hálfu, en slæm byrjun varð okkur að falli. Kannski ákveðin reynsluleysi. Strákarnir lögðu sig alla í leikinn og við vorum stoltir af þeim, sérstaklega í síðari hálfleik þar sem við vorum klaufar að jafna ekki. En við teljum samt sigur Selfyssinga hafi verið sanngjarn.

Er beint samstarf hjá KV við KR? Langflestir leikmenn KV eru KR-ingar. Liðsmenn þjálfa marga yngri flokka félagsins, eru í stjórn KR-klúbbsins og dæma leiki. Samstarf félagana hefur falist í því að KV dæmir leiki gegn því að fá afnot af KV Park, gervigrasvelli KR-inga. Enginn annar samningur er á milli klúbbanna. Samskipti milli félaganna eru afar góð og samstarfið verður sífellt meira. Seinna meir væri gaman að auka samstarfið og við erum opnir fyrir því. Við værum tilbúnir að ræða þau mál við KR því það er ljóst að ef KR ætlar að lána leikmenn til annarra liða, þ.e. í tveimur neðstu deildunum, þá ættu þeir leikmenn ekki að fara neitt annað en í KV. Leikmenn KV er þjálfa hjá KR eru duglegir að minna yngri leikmenn KR á það að KV er málið ásamt KR.

Er stuðningur áhorfenda við liðið góður? Eins og gefur að skilja fer hann nokkuð eftir leikjum. Það hefur ekki verið vel mætt þegar lið eins og Afríka mæta í heimsókn en á leiki félagsins við erkifjendurna í Gróttu hefur völlurinn verið pakkaður. Allt í allt erum við mjög ánægðir með stuðningsmenn félagsins, sem fjölgar með hverju árinu sem líður. Ákveðinn kjarni mætir samt á alla leiki og það skiptir okkur miklu máli. Það er gaman þegar maður sér að fólk sýnir þessu áhuga.

Hvernig var æfingum hjá ykkur verið háttað hjá ykkur í vetur? Það er léttur andi í liðinu og æfingar endurspegla það. Við æfðum þrisvar í viku í vetur, en bættum einni við í vor. Ef það er leikur í vikunni þá æfum við þrisvar sinnum. Þetta er samt ekki heilög tala og ræðst þetta oft eftir aðstæðum. Knattspyrnudeild KR kemur vel til móts við okkar þarfir. Á æfingum er mikið spilað og gripið í reitabolta en minna um þrek og lyftingar. Menn bera ábyrgð á slíku sjálfir en sumir hafa verið duglegri en aðrir.

Hverjar eru helstu breytingar á liði ykkar síðan í fyrra? Við höfum fengið 11 nýja leikmenn frá því í fyrra, þar af átta úr KR, tvo úr Gróttu og einn Hornfirðing. Helst ber kannski að nefna að við fengum hinn gífurlega efnilega varnarmann Erik Chaillot sem var í meistaraflokki KR í fyrra og aðalmarkvörð Gróttu, Stefán Friðriksson. Flestir eru þessir strákar um tvítugt og við erum mjög ánægðir með að hafa fengið þá. Við reyndum hvað við gátum að fá Gunnar Kristjánsson og Kjartan Henry Finnbogason, en ekkert gekk. Hafa samt báðir komið á "trial" hjá okkur enda liggja ræturnar í Vesturbænum. Svo hafa skiptinemar verið ansi duglegir að villast á æfingar hjá okkur og hafa þeir vægast sagt verið misgóðir.

Er bara karlafótbolti hjá KV? Ekki aldeilis. Félagið skráði sig til leiks í bikarkeppni HSÍ í fyrra og fékk til liðs við sig fyrrum landsliðsþjálfarann Þorberg Aðalsteinsson til að kenna mönnum helstu hreyfingar. Það var mikið ævintýri þó liðið hafi því miður tapað fyrir FH-ingum í fyrstu umferð. Stefnan er að halda handknattleiksiðkun áfram auk þess sem skákdeild var stofnuð síðastliðið haust og áhugi er fyrir því að skrá til leiks körfuknattleikslið. Hópur drengja úr Vesturbænum og nágrenni hafa verið að æfa körfubolta undanfarið og höfum við rætt við þá um samstarf. Það er því líklegt að KV verði með í körfunni.

Meistaraflokkur kvenna sigraði auk þess 3. deild Íslandsmótsins innanhúss í vetur. Sú hugmynd hefur verið könnuð að skrá til leiks lið í Íslandsmótinu á næsta ári og er það allt eins líklegt. Fjöldi stúlkna sem klárar KR hafa verið að leita í önnur lið. Við vonumst til þess að geta komið í veg fyrir þann flótta með því að skrá lið til leiks. En það er ljóst að bæta þarf aðstöðuna í Vesturbænum, því ekki er endalaust æfingasvæði til staðar.

Hver eru framtíðarplön félagsins? Stefnan hjá Knattspyrnufélagi Vesturbæjar er að bjóða ungum vesturbæingum upp á ókeypis eða ódýra íþróttaiðkun í sínu hverfi. Við tökum þeim fagnandi sem klára 2. flokk en fara ekki í meistaraflokk KR og leggjum mikið upp úr góðum félagsskap og öflugum stuðningi við KR. Iðkendafjöldi hefur farið ört vaxandi og félagið vex með, býður upp á nýjar íþróttagreinar og meira félagslíf. Við hugsum þetta ekki of langt fram í tímann, reynum að hafa gaman af þessu hverju sinni og vera Vesturbæingum til sóma. Við erum ekkert að tapa okkur í framtíðarplönum en það er ljóst að efniviðurinn er til staðar og félagið stefnir bara upp á við.

Hvernig er leikmannahópurinn uppbyggður? Eins og áður segir eru þetta mest megnis Vesturbæingar. Einnig eru nokkrir Seltirningar (allt KR-ingar) í liðinu, Framari, Valsari og allra þjóða kvikindi af þeim toga. Allt eru þetta Íslendingar, semsagt ekki einn Serbi, þó ótrúlegt megi virðast af liði í þriðju deild. Yngsti liðsmaður KV og jafnframt stærsti er fæddur 1989 og sá elsti 1980. Gaman er svo frá því að segja að 10 leikmenn eru yfir 190 cm á hæð og því höldum við því fram að við eigum hæsta lið utan bandarísku NBA deildarinnar.

Eitthvað að lokum? Opinber heimasíða er www.fckv.com. Þökkum kærlega fyrir spjallið og óskum landsmönnum gæfu og gengis.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner