Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 17. október 2007 20:42
Magnús Már Einarsson
Heimild: Sýn 
Eyjólfur Sverrisson: Við vorum niðurlægðir
Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari.
Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við vorum niðurlægðir og erum hrikalega daprir yfir þessu. Þetta er með ólíkindum," sagði Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari Íslendinga í viðtali við Sýn eftir 3-0 tapið gegn Liechtenstein í kvöld.

,,Við fáum á okkur þrjú mörk hérna á móti Liechtenstein, við fengum sjálfir fjögur dauðafæri og erum ekki að nýta þau en við vorum ekki að spila nógu vel í dag. Við vorum ekki nógu þéttir og að spila saman sem lið, það þarftu náttúrulega að gera ef þú ætlar að ná árangri."

,,Við vorum mjög vel undirbúnir en það hefur sýnt sig að í þeim leikjum sem að við þurfum að stjórna leiknum og teljum okkur þurfa að sækja þá fer allt í lás hjá okkur. Það gerði það í dag, um leið og við fáum á okkur mark fer allt í handaskol. Þetta er í rauninni það sem við erum búnir að berjast við undanfarin fimm árin, við eigum tvo góða leiki og svo eigum við tvo slæma leiki," sagði Eyjólfur.

Eftir jafntefli gegn Spánverjum og sigur á Norður-Írum í síðasta mánuði fylgdi 4-1 tap gegn Lettum á laugardag og 3-0 tap gegn Liechtenstein í dag, samtals sjö mörk í síðustu tveimur leikjum.

,,Þessi vörn stóð sig frábærlega á móti Spáni og Norður-Írum en við verðum að finna stöðugleika, það hefur ekki gerst undanfarin fimm árin."

,,Á móti Lettum fengum við mörk á okkur úr föstum leikatriðum og þar voru menn ekki einbeittir. Það er visst agaleysi, menn verða að vera á tánum þar. Í dag erum við að fá skyndisóknir á okkur sem þeir skora úr. Við verðum að hindra þetta. Þegar að við erum að verjast allir á okkar vallarhelmingi þá náum við góðum úrslitum. Um leið og við verðum að færa okkur framar á völlinn erum við yfirleitt rasskelltir."


Íslendingar mæta Dönum í lokaumferðinni í undankeppni EM þann 21.nóvember næstkomandi en leikið verður á Parken í Kaupmannahöfn. Eyjólfur segir að áhersla verði lögð á varnarleikinn þar.

,,Það verður þéttur varnarleikur eins og á móti Spánverjum og Norður-Írum. Við verðum að vera gríðarlega þéttir þar svo að það verði ekki niðurlægt okkur þar líka. Við höfum yfirleitt staðið okkur vel á móti þessum stóru þjóðum og við ætlum að gera það á Parken líka," sagði Eyjólfur í viðtalinu á Sýn en hann segist ekki vera kominn í þrot með liðið.

,,Nei ég er ekki kominn í þrot með þetta lið. Við þurfum náttúrulega að fá stöðuleika í liðið. Þetta er liðið sem spilaði frábærlega á móti Spánverjum og Norður-Írum. Það fór allt í baklás í dag, það er
með ólíkindum og það verður að stoppa það,"
sagði Eyjólfur að
lokum í viðtali á Sýn.
Athugasemdir
banner
banner