Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mið 27. febrúar 2008 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán Flóventsson: Við Gústi komumst ekki í sjöuna
Líf Óla Stefáns virðist byggt í kringum sjöuna sem hann óttast að missa
Óli Stefán óttast nú að missa af því að spila í treyju með númer 7 á bakinu.
Óli Stefán óttast nú að missa af því að spila í treyju með númer 7 á bakinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán í sjöunni eftir leik með Grindavík í fyrrasumar.
Óli Stefán í sjöunni eftir leik með Grindavík í fyrrasumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán Flóventsson gekk til liðs við Fjölni í vetur frá Grindavík þar sem hann hafði verið allan sinn feril en er nú kominn í vandræði hjá sínu nýja félagi sem margir myndu telja smávægileg en í hans tilfelli eru þau líklega rosaleg stór. Líf hans virðist allt byggt í kringum töluna 7 en nú berst hann fyrir því að fá það númer á keppnistreyju sína hjá Fjölni í sumar og baráttan er hörð.

Pétur Georg Markan hefur leikið í búningi númer 7 hjá Fjölni undanfarin ár og auk Óla Stefáns hefur félagið einnig fengið til liðs við sig Ágúst Gylfason sem hefur allan sinn feril leikið í treyju númer 7, síðast hjá KR og þar áður hjá Fram.

,,Þetta hefur meira verið rætt okkar á milli í gríni en vissulega er einhver alvara á bakvið það líka," sagði Óli Stefán við Fótbolta.net. ,,Það er einna helst að Pétur gefi sig, hann segir að þetta sé ekkert svakalegt mál fyrir sér. Hann er öðlingsdrengur."

Fjölnir hefur leikið nokkra leiki á undirbúningstímabilinu, jafnt æfingaleiki sem leiki í Reykjavíkurmóti og Lengjubikarnum en þrátt fyrir það hafa Óli Stefán og Ágúst Gylfason ekki enn fengið að prófa að spila í búningnum og ástæðan er einföld, þeir passa ekki í hann.

,,Staðan er svolítið flókin núna því hann er svolítið lítill hann Pétur að sjöan er því extra small eins og staðan er núna svo ég og Gústi komumst ekkert í hana. Það er von á nýju búningasetti og þá fær sá sem nær sjöunni að ráða stærðinni," sagði Óli Stefán.

Óli Stefán heldur úti bloggsíðu sem heitir 7-an.blog.is, hann hefur fengið 7 í síðustu prófum í skólanum, er búinn að missa 7 kíló síðan um áramót auk ýmissa annarra tenginga við töluna en hann er þó tilbúinn til að láta númerið af hendi með einu skilyrði.

,,Ég er búinn að segja Gústa að ég skuli gefa hana eftir ef hann sýnir ást sína á númerinu með því að setja á sig tattú með sjöunni. Ég er með tattú sjálfur með 7. Hann er að íhuga málið og við sjáum hvernig það fer ef hann gerir það ekki."

,,Ég hef alltaf verið í sjöunni, þetta hefur alltaf verið mín tala. Ég á afmæli 7. desember, strákurinn minn á afmæli sjöunda sjöunda, ég og konan mín áttum fyrsta deitið sjöunda janúar, þegar konan sótti mig á fyrsta deitið sá ég að bílnúmerið hennar var 777."

En hvað gerist ef Óli Stefán þarf að sætta sig við að leika í öðru númeri á næstu leiktíð, veit það á gott? ,,Þá ætla ég bara að reyna að fara í treyju númer 17, það er þó 7 í henni. Við leysum það alveg," sagði hann. ,,Svo er Gústi að spá í hvort þetta verði hans síðasta tímabil, það er spurning hvort maður eigi að reyna að gera góðverk og leyfa honum að klára í 7."

Ekki er endanlega ljóst hvaða aðferð verði farin til að ráða úrslitum í þessu stóra máli í lífi Óla Stefáns en þó hafa einhverjar hugmyndir komið upp. ,,Jón Þorbjörnsson formaður Fjölnis vildi setja upp keppni í skvassi eða einhverju sem við höfum ekkert verið í áður, það yrði bara keppt um þetta og sigurvegarinn fengi sjöuna. Það yrði stemmning," sagði Óli Stefán að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner