Rashford lækkar launakröfur til að komast til Barcelona - Napoli vill Kiwior - Aston Villa í leit að markverði
   mán 12. maí 2008 21:45
Hörður Snævar Jónsson
1. deild umfjallanir: Selfoss vann toppkandídatana
Selfyssingar syngja
Selfyssingar syngja "Bahama" og fagna sigri sínum á Víkingi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sævar Þór Gíslason og Þorvaldur Sveinn Sveinsson í baráttunni í leiknum.
Sævar Þór Gíslason og Þorvaldur Sveinn Sveinsson í baráttunni í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar Kale og Sævar Þór Gíslason lenda saman en ekkert var dæmt.
Ingvar Kale og Sævar Þór Gíslason lenda saman en ekkert var dæmt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Zoran Miljkovic þjálfari Selfyssinga í Fossvoginum í dag.
Zoran Miljkovic þjálfari Selfyssinga í Fossvoginum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Heimisson fagnar öðru marki sínu í dag.
Atli Heimisson fagnar öðru marki sínu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Ingi Rafn Ingibergsson og Steinarr Guðmundsson eigast við.
Ingi Rafn Ingibergsson og Steinarr Guðmundsson eigast við.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Valur Gunnarsson markvörður Leiknis, Atli fagnar marki í bakgrunninum.
Valur Gunnarsson markvörður Leiknis, Atli fagnar marki í bakgrunninum.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Dean Martin á sprettinum í leik KA og Fjarðabyggðar.
Dean Martin á sprettinum í leik KA og Fjarðabyggðar.
Mynd: Pedromyndir - Þórir Tryggvason
Hilmar Geir Eiðsson fagnar glæsilegu marki sínu.
Hilmar Geir Eiðsson fagnar glæsilegu marki sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Jón Pétur Pétursson fær að líta rauða spjaldið.
Jón Pétur Pétursson fær að líta rauða spjaldið.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Ásgeir Þór Ingólfsson í leiknum í dag.
Ásgeir Þór Ingólfsson í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Úr leik Njarðvíkinga og Stjörnunnar.
Úr leik Njarðvíkinga og Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Gestur Gylfason fyrirliði Njarðvíkur kemur sólbrúnn og sællegur undan vetri.
Gestur Gylfason fyrirliði Njarðvíkur kemur sólbrúnn og sællegur undan vetri.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Fyrsta deild karla hófst af krafti í dag þegar að fimm leikir voru á dagskrá. Selfyssingar unnu góðan og óvæntan sigur á Víkingi Reykjavík og ÍBV lagði Leikni í Eyjum þar sem Atli Heimisson skoraði tvívegis.

KA og Fjarðabyggð gerðu 2-2 jafntefli í hörkuleik, Brynjar Víðisson skoraði jöfnunarmark Víkings Ólafsvíkur gegn Haukum og Njarðvík og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli í bragðdaufum leik. Kíkjum á umfjöllun um leiki dagsins, ummæli og myndir.


Fyrsti sigur Selfyssinga í fyrstu deild eftir 15 ára fjarveru
Víkingur R. 2 – 3 Selfoss
0-1 Agnar Bragi Magnússon (’12)
1-1 Þórhallur Hinriksson (’36)
2-1 Jón Guðbrandsson (’40)
2-2 Sævar Þór Gíslason (’71)
2-3 Sævar Þór Gíslason ('84, víti)
Rautt spjald: Pétur Örn Svansson (Víkingur R.) (’63)

Selfyssingar léku í dag sinn fyrsta leik í fyrstu deild í fimmtán ár en liðið sótti þá Víking Reykjavík heim. Víkingum er spáð sigri í fyrstu deildinni og flestir bjuggust við sigri þeirra í dag en annað kom á daginn.

Víkingar áttu stórsókn snemma leiks þar sem boltinn endaði í markslánni og skömmu síðar björguðu Selfyssingar síðan á línu.

Á tólftu mínútu komust Selfyssingar hins vegar yfir. Aukaspyrna Boban Jovic frá hægri sigldi yfir alla í teignum og fjærstöng þar sem varnarmaðurinn Agnar Bragi Magnússon var mættur og þrumaði boltanum í netið við mikinn fögnuð gestanna.

Eftir hálftíma vidlu Selfyssingar fá eitthvað fyrir sinn snúð. Sævar Þór Gíslason var sloppinn í gegn og Ingvar Þór Kale markvörður Víkings braut á honum. Þóroddur Hjaltalín Jr dæmdi hins vegar ekkert við litla hrifningu Selfyssinga.

Tíu mínútum fyrir leikhlé jöfnuðu Víkingar. Hörður Sigurjón Bjarnason tók hornspyrnu inn á teiginn og Þórhallur Hinriksson stangaði boltann í netið.

Víkingar skoruðu einnig úr hornspyrnu fjórum mínútum síðar þegar Jón Guðbrandsson skoraði með skalla gegn sínum gömlu félögum og staðan 2-1 í leikhléi.

Selfyssingar hófu síðari hálfleikinn af krafti og Gunnar Rafn Borgþórsson átti skot sem Ingvar Þór Kale varði í horn. Þá vildu Selfyssingar einnig fá vítaspyrnu eftir að Ingólfur Þórarinsson féll eftir viðskipti sín við Milos Glogovac.

Þegar um klukkutími var liðinn af leiknum fékk Pétur Örn Svansson sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir hendi. Fyrra gula spjaldið hafið Pétur fengið skömmu áður en þá braut hann á Sævari.

Þrátt fyrir að Víkingar væru manni færri fengu þeir fín tækifæri til að bæta við marki en Gunnar Kristjánsson vinstri kantmaður Víkinga var þrívegis ágengur við mark Selfyssinga. Fyrst átti hann frábæran sprett og skot en Elías Örn Einarsson varði. Í næstu sókn slapp Gunnar einn í gegn, Elías varði út í teiginn þar sem Gunnar skaut í stöngina.

Þetta átti eftir að koma í bakið á Víkingum því Selfyssingar náðu að jafna metin á 71.mínútu. Viðar Örn Kjartansson skallaði fyrirgjöf áfram á fjærstöng á markamaskínuna Sævar Þór Gíslason sem skoraði.

Sævar Þór skoraði síðan sigurmark Selfyssinga úr vítaspyrnu á 84.mínútu. Vítaspyrnan var dæmd á Milos Glogovac sem togaði í treyju Viðars Arnar Kjartanssonar. Sævar Þór steig á punktinn og tryggði Selfyssingum sætan 3-2 sigur á Víkingi og fögnuðu leikmenn liðsins sigrinum vel eftir leik með því að taka lagið og syngja "Bahama" sem Ingólfur Þórarinsson leikmaður liðsins hefur gert vinsælt á íslenskum útvarpsstöðvum.

Ummæli eftir leik:

Ingvar Þór Kale markvörður Víkings:
,,Mér fannst við ekki vera tilbúnir frá fyrstu mínútu en þegar leið á fyrri hálfleik komum við til baka eftir byrjendamistök. Í síðari hálfleik finnst mér við vera með tökin framan af en þegar við missum Pétur út af er þetta orðið erfiðara og þá fannst mér trúin detta niður á að við gætum klárað leikinn."

Zoran Miljkovic þjálfari Selfyssinga:
,,Ég er ánægður af því við unnum en ég er ekki ánægður með fyrstu 45 mínúturnar. Við verðskulduðum að vinna miðað við síðari hálfleikinn, við spiluðum mun betur í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Ég talaði við strákana í búningsklefanum og við löguðum mistökin sem við vorum búnir að vera að gera."

,,Sigurinn er auðvitað góður en við vitum markmið okkar. Markmið okkar er að halda sæti okkar í deildinni. Fyrsta skrefið er að halda okkur í deildinni, ef við náum að tryggja sæti okkar í deildinni getum við reynt að gera betur en við verðum að bíða fyrst."


Fótbolti.net - Fossvogi - Magnús Már Einarsson.


Atli Heimisson tryggði Eyjamönnum sigur
ÍBV 2 – 0 Leiknir R.
1-0 Atli Heimisson (30)
2-0 Atli Heimisson (65)

Eyjamenn tóku á móti Leiknir Reykjavík á Hásteinsvelli nú í kvöld en vallaraðstæður voru ekki uppá sitt besta en völlurinn var laus í sér.

Eyjamenn voru töluvert sterkari og skoraði Atli Heimisson mark sem var dæmt af vegna rangstæðu. Atli kom svo Eyjamönnum yfir þegar hann fékk boltann á fjær og setti knöttinn framhjá Val Gunnarssyni í marki Leiknis.

Atli setti svo boltann í þriðja skiptið í netið en var aftur dæmdur af vegna rangstæðu. Þór Ólafsson fékk ágætis færi eftir hálftíma leik þegar Albert Sævarsson átti misheppnað úthlaup.

Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir heimamenn sem hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik var það sama uppá teningnum, Eyjamenn sóttu meira en þó var örlítið meira líf í gestunum frá Reykjavík.

Atli Heimisson skoraði sitt annað mark í leiknum um miðbik síðari hálfleik þegar skot hans fór í varnarmann Leiknis og í netið. Staðan 2-0 fyrir heimamenn.

Gestirnir fengu svo vítaspyrnu þegar varnarmaður Eyjamanna tók boltann með hendi fyrir innan teig. Á punktinn steig Vigfús Arnar Jósepsson en Albert Sævarsson varði frá honum.

Eftir þetta sóttu Eyjamenn og fékk Þórarinn Ingi Valdimarsson gullið tækifæri til að skora en honum mistókst það. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og 2-0 sigur Eyjamanna því staðreynd.

Ummæli eftir leik:

Atli Heimisson leikmaður ÍBV
,,Mér fannst við eiga góðan leik og liðið small vel saman miðað við það hvað við höfum leikið lítið saman. Ég var ánægður með Agustine Nsumba og varamennirnir komu sterkir inn.
Fótbolti.net, Vestmannaeyjar - Hörður Snævar Jónsson.


Jafntefli í hörkuleik í Boganum
KA 2 – 2 Fjarðabyggð
0-1 Guðmundur Atli Steinþórsson (´3)
1-1 Arnar Már Guðjónsson (´13)
2-1 Steinn Gunnarsson (´57)
2-2 Vilberg Marinó Jónasson (´79)

Mikil stemning var á leik KA og Fjarðabyggðar sem var leikinn í Boganum í dag og fóru stuðningsmenn heimaliðsins mikinn á pöllunum.

Leikmenn Fjarðabyggðar mættu hinsvegar ákveðnir til leiks og fyrsta markið kom á 3. mínútu eftir að Guðmundur Atli Steinþórsson framherji Fjarðabyggðar slapp einn í gegn og afgreiddi boltann af miklu öruggi framhjá Matus Sandor markverði KA.

En KA-menn voru ekki lengi að jafna metin, það gerði Arnar Már Guðjónsson á 13. mínútu eftir að KA-menn höfðu tekið aukaspyrnu stutt og Dean Martin gaf góða fyrirgjöf á Arnar Má sem skallaði boltann af harðfylgi í netið. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik þó heimamenn hafi talist líklegri í sínum aðgerðum.

Seinni hálfleikur byrjaði heldur rólega en mikið fjör átti eftir að færast í leikinn. Á 55. mínútu slapp Guðmundur Atli aftur einn í gegn en Matus Sandor markvörður KA sá við honum í þetta skiptið.

Aðeins tveimur mínútum seinna, áttu KA góða sókn. Dean Martin komst einn inn fyrir vörn gestanna en markvörður Fjarðabyggðar Srdjan Rajkovic var kominn langt út og skaut Dean bogabolta yfir hann og varnarmaður Fjarðabyggðar bjargaði naumlega á línu. Andri Fannar Stefánsson var sneggstur að ná til knattarins og renndi honum á Stein Gunnarsson sem var svolítið fyrir utan vítateiginn og hann skaut fallegu skoti upp í fjærhornið og markvörður Fjarðabyggðar kom engum vörnum við. Staðan orðin 2-1 KA mönnum í vil.

Eftir markið óx KA mönnum ásmegin og voru virkilega hættulegir fyrir framan mark Fjarðabyggðar. En á 79. mínútu jafnaði Fjarðarbyggð metinn eftir að varnarmenn KA misreiknuðu fyrirgjöf utan af kanti, markið gerði Vilberg Marinó Jónasson en hann hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður.

Eftir markið sóttu Fjarðarbyggð mikið að marki heimamanna. Undir lokin voru bæði lið líkleg til að skora en allt kom fyrir ekki og lokatölur urðu því 2-2 bráðskemmtilegum fótboltaleik.

Ummæli eftir leik:

Almar Ormarsson fyrirliði KA:
,,Við vorum að spila fínan bolta á köflum en við vorum rosalegir klaufar að fá þessi mörk á okkur og eins að skora ekki fleiri. Þetta hefði svo sem getað dottið báðum megin en það var dagsformið sem réði úrslitum."

Fótbolti.net, Akureyri - Aðalsteinn Halldórsson


Brynjar tryggði Víkingi stig í viðbótartíma
Haukar 1 – 1 Víkingur Ó.
1-0 Hilmar Geir Eiðsson
1-1 Brynjar Víðisson (Víti)
Rautt spjald: Jón Pétur Pétursson (Víkingur Ó.)

Leikurinn byrjað frekar rólega. Fyrsta færið fengu hinsvegar heimamenn er Denis Curic átti hörkuskot en Einar Hjörleifsson í marki Ólafsvíkinga varði í horn, Philip Fritschmann átti síðan skot eftir hornspyrnuna, en skotið framhjá.

Fyrsta færi gestanna var síðan á 13.mínútu er Eyþór Guðnason átti skalla framhjá Atla Jónassyni í marki Hauka, sem var kominn ansi framarlega en Haukar náðu að bjarga. Stuttu síðar átti Brynjar Víðisson sendingu á Eyþór en skot hans beint á Atla.

Eftir þetta héldu heimamenn boltanum sín á milli á meðan gestirnir reyndu að sækja með löngum boltum. Staðan í hálfleik var 0-0.

Eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik fékk Jón Pétur Pétursson sem hafði verið inná í nokkrar mínútur beint rautt eftir tilgangslausa tæklingu á Ásgeiri Ingólfssyni. Eftir þetta sóttu Haukamenn af krafti, Denis Curic átti skalla að marki eftir fyrirgjöf frá Jónasi Bjarnasyni, en Einar varði vel.

Í næstu sókn fengu Víkingar besti færi leiksins, en það fékk Eyþór Guðnason, en hann var einn á móti Atla en skot hans framhjá. Haukar fengu svo gott færi í næstu sókn, Curic átti skot inn í teig en skotið afar máttlaust og Einar var í engum erfiðleikum að handsama boltann.

Á 67.mínútu var síðan brotið á Hilmari Geir Eiðssyni fimm metrum fyrir framan vítateig Víkings, hann tók spyrnuna sjálfa, skotið í slánna og inn, óverjandi fyrir Einar. Eftir markið héldu Haukar áfram að sækja, fyrst átti Ásgeir skot langt fyrir utan teig, það virtist vera engin hætta á ferðum en skot hans fór rétt yfir markið. Stuttu síðar gerði Goran Lukic það sama nema skot hans var mjög gott og varði Einar það ævintýralega, án efa markvarsla dagsins.

Eftir þetta tóku Víkingar flest öll völd á vellinum og fengu nokkur afbragðsfæri til að jafna leikinn. Það var síðan á 92.mínútu sem Örvar Sær Gíslason, dómari leiksins dæmdi afar umdeilda vítaspyrnu. Á punktinn fór Brynjar Víðisson og skoraði hann úr öryggi. Haukar fengu síðan síðasta tækifæri leiksins til að skora siguramrkið, er Hilmar Geir tók aukaspyrnu á svipuðum stað og hann skoraði úr, fyrr í leiknum. En skot hans rétt yfir og þar við sat, jafntefli á Ásvöllum í dag.

Ummæli eftir leik:

Andri Marteinsson, þjálfari Hauka:
,,Þetta eru töpuð stig, algjörlega. Við skoruðum gott mark en eftir það, þá virtist eins og menn hafi misst sjálfstraustið að halda bolta innan liðsins. Eins og ‘panic’ hafi komið yfir liðið, einu marki yfir og einum manni fleiri þá gátum við ekki haldið boltanum og spilað saman."

,,Fyrir leikinn vissi ég lítið um Víkingsliðið en þeir voru sterkir og þéttir. En Ejub hefur versnað sem þjálfari finnst mér, hann hélt að hann væri kominn hingað til að stjórna dómaranum og leiknum í 90.mínútur."


Aðspurður um vítið sagið Andri: „ Þar sem ég stóð þá virtist þetta vera hárréttur dómur, þetta var bara klaufaskapur.“

Fótbolti.net, Hafnarfirði - Arnar Daði Arnarson.


Bragðdauft og markalaust í Njarðvík
Njarðvík 0 - 0 Stjarnan

Njarðvík tók á móti Stjörnunni í ágætu veðri. Mikil stemming var fyrir leikinn og miklar væntingar í garð beggja liða. Leikur fór rólega af stað og dró ekki til tíðinda fyrr en á 10.mínútu þegar Ísak Örn Þórðarson, sóknarmaður Njarðvíkur, slapp einn í gegnum vörn Stjörnunnar en skaut framhjá.

Sex mínútum síðar fékk Frans Elvarsson, leikmaður Njarðvíkur, gult spjald fyrir harkalega tæklingu á einum leikmanni Stjörnunnar og fjórum mínútum síðar eða á 20.mínútu fékk Kári Ársælsson úr Stjörnunni einnig að líta gula spjaldið. Lítið gerðist í fyrri hálfleik og var sá síðari eigi skárri.

Í síðari hálfleik var sóknarleikur Njarðvíkur í molum og einkenndist hann af lélegum sendingum. Á 70.mínútu gerðu bæði lið skiptingar. Hjá Njarðvík þurfti Ísak Örn Þórðarson að víkja fyrir nýliðanum Dalibor Lazic og hjá Stjörnunni kom Bjarki Páll Eysteinsson inn fyrir Magnús Björgvinsson.

Um fimm mínútum síðar var varamaðurinn Bjarki Páll nálægt því að koma Stjörnunni yfir en frábær varnarleikur Njarðvíkur kom í veg fyrir það.

Á 80.mínútu gerði Stjarnan skiptingu og inn kom Sigurbjörn Ingimundarson fyrir Kára Ársælsson og eftir það lá Stjarnan í sókn. Þremur mínútum síðar kom Einar Valur Árnason, í Njarðvík, inn fyrir Alexander Magnússon en eigi varð það til góðs og pressaði Stjarnan stíft og á 90. Mínútu kom hættulegasta skot leiksins sem Ingvar Jónsson, markmaður Njarðvíkur, hefði ekki náð að verja ef boltinn hefði ratað á markið.

Á loka mínútunum fékk Gestur Gylfason, fyrirliði Njarðvíkur, að líta gula spjaldið og skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka.

Ummæli eftir leik:

Gestur Gylfason fyrirliði Njarðvíkur:
,,Við vörum bara þungir, það sást bara á leiknum okkar, þeir voru yfir í öllu og við áttum tvær til þrjár skyndisóknir sem runnu út í sandinn, meira áttum við ekki, við áttum ekkert skilið í þessum leik.“

Hvernig er stemmingin fyrir leikinn geng Víking Ólafsvík?
„Þetta lofar góðu, þetta var lélegt í dag, eitt stig allt í lagi, en ekki á heimavelli, við viljum að sjálfsögðu ná í öll stigin, en við vorum bara lélegir. Við tökum bara stigin í næsta leik.“
Fótbolti.net, Reykjanesbæ - Jónas Bergsteinsson.


Athugasemdir
banner
banner