Eyjamenn eru komnir með fjögurra stiga forskot á toppi fyrstu deildar karla eftir sjöttu umferðina sem fór fram í kvöld. Eyjamenn hafa fullt hús stiga en Selfoss og Stjarnan sem koma í næstu sætum gerðu jafntefli í kvöld. Kíkjum á umfjallanir um alla leikina.
Eyjamenn áfram á sigurbraut
Víkingur 1 – 4 ÍBV
1-0 Þórhallur Hinriksson (4)
1-1 Pétur Runólfsson (24)
1-2 Atli Heimisson (54)
1-3 Matt Garner (86)
1-4 Ingi Rafn Ingibergsson (90)
Eyjamenn sóttu Víkinga heim í kvöld en fyrir leikinn höfðu Eyjamenn unnið alla sína leiki og ekki fengið á sig mark
Leikurinn var ekki langlífur þegar Eyjamenn fengu á sitt fyrsta mark í sumar, eftir þrjár mínútur fengu Víkingar vítaspyrnu og það var Þórhallur Hinriksson sem skoraði markið en það var Pétur Runólfsson sem braut á Chris Vorenkamp.
Eftir rúmar fimmtán mínútur vildu Eyjamenn fá vítaspyrnu þegar Agustine Nsumba lék á Jimmy Hoyer sem tók hann niður og líklega var um vítaspyrnu að ræða en dómari leiksins Gunnar Sverrir Gunnarsson var ekki á sama máli.
Eftir 18. Mínútna leik fékk Þórhallur Hinriksson rautt spjald en þetta var hans annað gula spjald en bæði spjöldin voru af ódýrari gerð. Þórhallur var ekki sáttur með spjaldið og lét dómarann heyra, þegar hann var gengin af velli grýtti hann vatnsbrúsa í auglýsingaskilti og sparkaði í það.
Þegar 24. mínútur voru búnar af leiknum skoraði Pétur Runólfsson glæsilegt mark. Eftir nokkrar tilraunir Eyjamanna til að skjóta fékk Pétur boltann fyrir utan teig og skoraði glæsilegt mark upp í vinstra hornið.
Í uppbótartíma í fyrri hálfleik átti Pétur Runólfsson ágætis skot að marki Víkinga en Ingvar Kale náði tökum á boltanum þrátt fyrir smá erfiðleika. Staðan var 1-1 í hálfleik.
Eftir fimm mínútna leik átti Agustine Nsumba gott skot að marki Víkinga en Ingvar Kale varði boltann út við stöng.
Eyjamenn komust svo eftir þegar 54. mínútur voru búnar af leiknum, Jimmy Hoyer átti slaka sendingu sem Agustine Nsumba komst inn í sendinguna, hann gaf inn fyrir á Egil Jóhannsson sem sendi fyrir markið, þar kom Atli Heimisson sem skoraði með góðu skoti.
Þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum átti Agustine Nsumba gott skot að marki Víkings en besti leikmaður Víkings á vellinum Ingvar Kale varði. Runólfur Sveinn Sigmundsson fékk svo rautt spjald eftir að boltinn hafði farið úr leik en hann hafði brotið af sér stuttu áður.
Stuttu síðar átti Þorvaldur Sveinsson gott skot að marki Eyjamanna en skot hans fór rétt framhjá stönginni.
Þegar fjórar mínútur voru svo til leiksloka skoraði fyrirliðinn Matt Garner þriðja mark Eyjamanna í leiknum, hann fékk boltann inn í teig eftir að Agustine Nsumba hafði gefið fyrir markið.
Í uppbótartíma skoraði Ingi Rafn Ingibergsson fjórða mark Eyjamanna. Hann fékk sendingu inn fyrir vörn Víkinga og setti boltann snyrtilega yfir Ingvar Kale sem var of framarlega í markinu.
Eftir þetta mark rann leikurinn út en sjötti sigur Eyjamanna í sex leikjum staðreynd og liðið á toppi deildarinnar.
Fótbolti.net, Fossvogi - Hörður Snævar Jónsson.
Selfoss og Stjarnan skildu jöfn
Selfoss 1-1 Stjarnan:
1-0 Viðar Kjartansson
1-1 Ellert Hreinsson
Selfyssingar tóku á móti Stjörnunni í blíðsakapar veðri á Selfossvelli í kvöld. Fyrir leikinn voru Selfyssingar í öðru sæti og Stjarnan í því þriðja. Liðin skildu jöfn í skemmtilegum leik þar sem bæði lið spiluðu fótbolta og er staða þeirra í deildinni óbreytt.
Leikurinn var í jafnvægi fyrstu 15 mínútur, en eftir það tóku Selfyssingar öll völd á vellinum. Fyrsta færi leiksins kom á 7. mínútu er Elías í marki Selfoss varði vel skalla frá Ellert Hreinssyni. Á 16. mínútu komst Sævar Þór upp hægra megin og gaf boltan fyrir, þar var mættur Einar Ottó en skot hans fór framhjá.
Á 17. mínútu gerðist mjög umdeilt atvik þegar Sævar Þór slap einn í gegnum flata vörn Stjörnunar og var við það að komast framhjá Bjarna í markinu, en Bjarni braut klaufalega á honum og aukaspyrna réttilega dæmd. En Bjarni slapp með gula spjaldið, mjög furðulegur dómur að flestra mati.
Fimm mínútum seinna slapp Sævar aftur í gegn, en Kári Ársælsson togaði hann niður rétt fyrir utan teig. Og enn var dómarinn ragur og gaf Kára aðeins gula spjaldið og aukaspyrna dæmd. En um augljóst ásetningsbrot var að ræða og Sævar sloppinn einn í gegn. Athyglisvert að á 23. mínútu voru þrír leikmenn Stjörnunar komnir með gult fyrir að stöðva Sævar Þór, þegar hann var sloppinn í gegn.
Á 29. mínútu varði Bjarni vel skot frá Sævari Þór. Hennig Eyþór átti svo gull af sendingu inn á Viðar Örn á 33. mínútu en skot hans fór framhjá. Á 39. mínútu gerði BjarniJóhannsson þjálfari Stjörnunar skiptingu, setti Daníel Laxdal inn fyrir Kára Ársælsson, en fram að því hafði vörn Stjörnunar verið mjög flöt og hvað eftir annað sköpuðu Selfyssingar hættu með stungu sendingum.
Fyrsta færi seinni hálfleiks kom eftir fimm mínútur þegar Jón Sveins átti hörku skot af 35 metra færi sem Bjarni varði vel. Á 56. mínútu varði Bjarni aukaspyrnu frá Henning. Tveimur mínútum sienna vildu Selfyssingar fá víti er þeir töldu boltann fara í hendina á Birni Pálssyni.
Á 60. mínútu átti Bjarni markvörslu á heimsmælikvarða eftir skot frá Henning og Selfyssingar fengu hornspyrnu. Úr hornspyrnunni skaut Viðar Örn framhjá.
Á 70. mínútu átti Sævar Þór skot, en Tryggvi varnarmaður Stjörnunar bjargaði á línu. Fimm mínútum seinna átti Jóhann Laxdal þrumuskot fyrir utan teig en Elías varði vel.
Á 80. mínútu átti Sævar Þór sendingu inn fyrir vörn Stjörnunar og Viðar kom á hárréttum tíma í hlaupið, Viðar Örn lek á Bjarna Þórð í marki Stjörnunar og setti boltan í tómt markið. Flott afgreiðsla hjá Viðari Erni og staðan orðin 1-0 fyrir Selfoss.
Aðeins tveimur mínútum seinna fekk Stjarnan aukaspyrnu fyrir utan teig, Jóhann Laxdal tók góða spyrnu á fjær, þar var mættur Ellert Hreinsson og skallaði boltan í netið. Virkilega flott mark hjá Stjörnunni
Bæði lið leku vel, Stjarnan varðist og eftir harða atlögu Selfyssinga í fyrri hálfleik náðu Stjörnumenn að loka flestum leiðum að marki sínu. Selfyssingar áttu nokkrar mjög góðar sóknir og voru betri aðilinn mest allan leikinn, með hraða sínum náðu þeir að sprengja upp vörn Stjörnunar nokkrum sinnum. Dómari leiksins komst aldrei í takt við leikinn og tók vægast sagt mjög vafasamar ákvarðanir. En þegar upp er staðið voru bæði lið nokkuð sátt við stigið sem þau fengu.
Byrjunarlið Selfoss 4-4-2 Elías Einarsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Dusan, Jón Sveinsson, Agnar Bragi, Einar Ottó Antonsson (Ingþór Guðmundsson 52), Gunnar Borgþórsson (Ingólfur Þórarinsson 88), Henning Eyþór Jónasson, Guðmundur Þórarinsson (Arilíus Marteinsson 82), Viðar Kjartansson, Sævar Þór Gíslason.
Byrjunarlið Stjörnunar 4-5-1 Bjarni Þórður Halldórsson, Jóhann Laxdal, Kári Ársælsson (Daníel Laxdal 39), Tryggvi S. Bjarnason, Hafsteinn Rúnar Helgason, Björn Pálsson, Halldór Orri Björnsson, Bjarki P. Eysteinsson, Ellert Hreinsson (Elvar Freyr Arnþórsson 90), Þorvaldur Árnason (Grétar Atli Grétarsson 75), Zoran Stojanovic.
Ummæli eftir leik
Bjarni Þórður Halldórsson markmaður Stjörnunar.
,,Ég héfði ekkert geta sagt þótt dómarinn hefði gefið mér rauða spjaldið á 15. mínútu. Þetta var svipað atvik og hjá Lehman í úrslitaleiknum gegn Barcelona”
Henning Eyþór Jónasson leikmaður Selfoss
,,Ég spjallaði við Bjarni Þórð markmann Stjörnunar eftir leikinn og hann vildi meina að hann væri maður leiksins. Hann tók boltann gjörsamlega úr samskeytunum frá mér, en svona er þetta stundum í fótbolta. Við vorum auðvitað líklegri allan leikinn, en fyrir mót hefðum við verið sáttir við eitt stig gegn Stjörnunni, en í dag vorum við það ekki."
Haukar glopruðu niður forystu
Haukar 2-2 Njarðvík:
1-0 Denis Curic
2-0 Denis Curic
2-1 Kristinn Björnsson
2-2 Aron Már Smárason
Það var blíðviðri í kvöld á Ásvöllum þegar Haukar og Njarðvík öttu kappi en leikurinn byrjaði nokkuð rólega en bæði lið voru þá að þreifa fyrir sér og áttu nokkur skot utan af velli sem markmenn liðana áttu ekki í vandræðum með að verja.
Fyrsta almennilega færi leiksins kom á 25. mínútu en þá fékk Haukamaðurinn Garðar Ingvar Geirsson boltann á miðjum vallarhelmingi Njarðvíkur og tók boltann með sér en gaf síðan boltann inn fyrir á Denis Curic sem skaut í fyrsta og skoraði örugglega og kom þar með Haukum í 1 – 0.
Þremur mínútum síðar fékk Denis boltann á hægri vægnum og óð inn í teig þar sem hann lék á Gest Gylfason varnarmann Njarðvíkur og skaut síðan en Ingvar Jónsson markvörður Njarðvíkinga varði vel. Aftur voru Haukar komnir í sókn á 30. mínútu en þá vann Guðmundur Kristjánsson boltann á miðjum vallarhelmingi Njarðvíkur og gaf á Denis sem lék aftur á Gest og skaut að marki en boltin fór lítilega í Gest, snertingin var greinilega nóg til þess að slá Ingvar markvörð út af laginu sem hreyfði sig ekki á línunni og boltinn fór í netið. Markið var skráð á Denis Curic og staðan orðin 2 – 0.
Eftir seinna mark Hauka hresstust Njarðvíkingar við og á 36. mínútu fékk Kristinn Örn Agnarsson boltann út til hægri og geystist upp vænginn og inn í teig þar sem hann lék á Pétur Örn Gíslason varnarmann Hauka og gaf boltann inn í teig þar sem Kristinn Björnsson bakvörður mættur og náði að skjótast fram fyrir varnarmenn Hauka og potaði boltanum inn fyrir línuna og staðan orðin 2 – 1. Njarðvíkingar voru mikið betri í síðari hluta fyrri hálfleiks og áttu þeir síðasta færi hálfleiksins en þá átti Árni Þór Ármannsson skalla rétt yfir eftir hornspyrnu.
Byrjun seinni hálfleiks lofaði góðu því strax á 47. mínútu átti Davíð Ellertsson stungusendingu á Denis Curic sem lék upp hægri vænginn og inn í teig en þá lagði hann boltann út á Ásgeir Þór Ingólfsson en hann skaut boltanum yfir eftir glæsilega sókn.
Eftir þetta náðu liðin lítið að skapa sér hættuleg færi en Haukar voru mikið í því að láta dæma á sig rangstöðu og þá aðallega Denis Curic. Njarðvíkingar áttu nokkur hálffæri en voru ekki mikið að ógna að marki en svo á 77. mínútu gaf Gestur Gylfason háan bolta sem fór yfir Philip Richard Fritschmann og boltinn fór beint á Aron Már Smárason sem tók boltann vel niður og skoraði og þar með jafnaði hann leikinn 2 – 2.
Þremur mínútum síðar átti varamaðurinn Edilon Hreinsson glæsilega skiptingu yfir til hægri á Hilmar Geir Eiðsson sem komst einn á móti Ingvari markverði Njarðvíkur en Ingvar bjargaði glæsilega í horn. Hilmar Trausti Arnarsson tók hornið og gaf boltann út fyrir utan teig og beint á Denis sem skaut í fyrsta föstu skauti sem Ingvar varði vel.
Síðasta færi leiksins áttu Njarðvíkingar en það átti varamaðurinn Albert Högni Arason sem var skalli eftir hornspyrnu en Armir Mehica varði glæsilega. Jafntefli þar með niðurstaðan en Haukar geta nagað sig í handabökin þar sem þeir áttu helling að góðum færum og eftir að hafa misst niður 2 – 0 forystu. Njarðvíkingar áttu líka sín færi og gátu einnig farið heim með öll 3 stigin en 1 stig eru ásættanleg úrslit fyrir þá eftir framvindu leiksins.
Fótbolti.net, Hafnarfirði - Herbert Ingi Sigfússon.
Fjarðarbyggð kom til baka og náði stigi
Fjarðarbyggð 2-2 Leiknir
0-1 Halldór Kristinn Halldórsson
0-2 Jakob Spangsberg
1-2 Sveinbjörn Jónasson
2-2 Sveinbjörn Jónasson
Fyrri hálfleikur var frekar daufur og lítið um færi. Fjarðabyggð var aðeins sterkari aðilinn fyrstu 10 mínúturnar en eftir það voru liðin jöfn.
Fyrsta alvöru skotið kom á tólftu mínútu en það kemur eftir hornspyrnu frá Fjrðabyggð og eftir smá klafs í teignum fær Grétar Örn Ómarsson boltann og skýtur rétt yfir.
Leiknismenn fengu tvær ágætis skyndisóknir á 23 mínútu og aftur á 26 mínútu en þær runnu út í sandinn þegar nær dró teignum hjá Fjarðabyggð. Eftir þetta fór leikurinn mest fram á miðjunni og var frekar daufur.
Á 31 mínútu kemur fín fyrirgjöf frá vinstri kanti inn í teig Fjarðabyggðar þar sem markmaður þeirra grípur boltann en missir hann aftur. Nokkuð klafs var í teignum en Fjarðabyggð nær að hreinsa.
Á 33 mínútu fékk Steinarr Guðmundsson leikmaður Leiknis gult spjald fyrir að fella
Stefán Þór leikmann Fjarðabyggðar.
Á 39 mínútu kemst Sveinbjörn Jónasson framhjá vinstri bakverði Leiknis og kemst upp að markinu og nær fínu skoti sem markmaður Leiknis ver í horn.
Í seinni hálfleik varð leikurinn aðeins skemmtilegri á að horfa en ekki mikið þó. Leiknis menn voru betri aðilinn mest allan seinni hálfleikinn. Fjarðabyggð átti þó fyrsta færi seinni hálfleiksins á 51 mínútu þegar Jóhann Benediktsson tekur hornspyrnu sem ratar beint á kollinn á Guðmundi Atla Steinþórssyni sem skallar boltann í slá.
Stuttu seinna fær Leiknir aukaspyrnu við miðjuhringinn. Leiknismenn koma boltanum inn í teiginn og þar skallar Jakob Spangsberg rétt yfir markið.
Á 59 mínútu kom fyrsta mark leiksins en það kemur upp úr hornspyrnu sem Leiknir fékk. Fyrirgjöfin lendir beint á hausnum á Halldóri Kristni Halldórssyni sem skallar hann fram hjá Rajko markmanni Fjarðabyggðar í netið.
Aðeins þremur mínútum seinna fékk Jakob Spangsberg boltann við teig Fjarðabyggðar og neglir að marki. Boltinn fer inn með viðkomu í Guðmundi Bjarnasyni varnarmanni Fjarðabyggðar.
Leiknismenn voru mun betri aðilinn þar til um tíu mínútur voru eftir. Þá breytti Magni Fannberg þjálfari Fjarðabyggðar um leikkerfi sem reyndist lyfta leik heimamanna aðeins upp.
Á 80 mínútu fær Sveinbjörn Jónasson langa sendingu fram völlinn og hann kemst framhjá einum varnarmanni Leiknis og setur boltann fast undir markmann Leiknis, Val Gunnarsson.
Fimm mínútum seinna fær Fjarðabyggð innkast sem Jóhann Benediktsson tekur. Hann kastar boltanum langt inn í teig Leiknis á Guðmund Atla. Hann kemur boltanum til Sveinbjörns sem kemur boltanum í annað skiptið í mark Leiknis og jafnar 2-2.
Eftir að Fjarðabyggð jafnaði pressuðu þeir mikið á Leikni og mikill hiti var í leiknum. Á 92. mínútu fær leikmaður Fjarðabyggðar Aleksander Konjanovski gult spjald fyrir að standa of nálægt boltanum þegar Leiknismenn tóku aukaspyrnu. Í kjölfarið fékk Jóhann Benediktsson gult spjald fyrir að mótmæla þeim dómi. Jóhann hélt áfram að tuða í dómaranum og uppskar þá annað gula spjaldið og fékk því rautt spjald. Lokatölur 2-2
Ummæli eftir leik
Garðar Gunnar Ásgeirsson - Þjálfari Leiknis
,,Mér fannst við vera töluvert sterkari aðilinn allan tímann í og bara aular að klára þetta ekki. Það var ekkert í gangi hjá þeim og þetta var mjög svekkjandi. Við fengum á okkur tvö skítamörk og það er það sem telur."
Fótbolti.net, Eskifirði - Höskuldur Björgúlfsson.
Víkingur Ólafsvík með góðan sigur
Víkingur Ólafsvík 2-1 Þór Akureyri:
0-1 Hreinn Hringsson ('48)
1-1 Brynjar Víðisson ('73)
2-1 Eyþór Guðnason ('81)
Víkingar sigruðu í kvöld Þór frá Akureyri með 2 mörkum gegn 1 marki gestanna. Fyrri hálfleikur fór rólega af stað þar sem bæði lið háðu harða stöðubaráttu á miðjum vellinum.
Fyrsta tækifæri leiksins átti Brynjar Gauti Guðjónsson á 18. mínútu þegar hann átti gott skot að marki Þórsara en boltinn fór rétt framhjá marki gestanna. Fyrri hálfleikur var í rólegri kantinum en hvorugu liðinu tókst að skapa sér teljandi marktækifæri en mikið jafnræði var með liðunum.
Seinni hálfleikur fór mun betur af stað heldur en sá fyrri og Alfreð átti strax hörku færi á 46. mínútu en skot hans var ekki nógu hnitmiðað og fór framhjá.
2 mínútum síðar dróg til tíðinda. Hreinn Hringsson fékk þá frábæra sendingu, frá hægri kanti, sem hann skallaði með miklum tilþrifum í netið framhjá Einari. 0-1 og gestirnir komnir með forystu.
Þórsarar höfðu verið sprækir fram að markinu og það sama er að segja um Víkingana en líkt og í fyrri leikjum voru þeir ekki á skotskónum. Strax eftir mark Þórsara fékk Gísli Freyr Brynjarsson úrvalstækifæri sem Árni Skaptason varði vel í marki Þórsara. Þegar leið á leikinn féllu Þórsarar aftar völlinn og sóknarþungi Víkinga eftir því.
Á 54. mínútu átti Brynjar Gauti svo aftur skot sem fór af varnarmanni og rétt framhjá Árna og marki Þórsara. Brynjar var svo aftur á ferðinni þremur mínútum síðar. Hann átti þá viðstöðulaust skot, eftir góðan undirbúning frá Pile og Alfreði, sem Árni í markinu þurfti að hafa fyrir.
Á 73. mínútu leiksins skoraði Brynjar Víðisson svo glæsilegt mark. Víkingar áttu þá aukaspyrnu vinstra megin. Gísli sendi boltann snöggt inn á miðjuna á Brynjar, sem lagði boltann svo fyrir sig og lét vaða af 30 metra færi í stöng inn.
Á 81. mínútu komust Víkingar svo yfir. Há sending kom inn í teiginn á Alfreð sem flikkaði boltanum aftur fyrir sig, fyrir fætur Eyþórs Guðnasonar sem lagði boltann laglega undir Árna í marki gestanna.maranum af einhverju ástæðum.
Á lokamínútunum skall hurð nærri hælum Víkinga, er Þórsarar fengu hornspyrnu. Hana tóku þeir stutt og sendu boltann svo fyrir á markteig, þar sem einn Þórsarinn var einn á auðum sjó, en skalli hans strauk fjærstöngina.
Sannarlega keimlíkur leikur er liðin áttust við hér í fyrra í sólskini og logni, en þá höfðu einmitt Víkingar betur, 2-1, eftir að hafa lent marki undir.
KA með góðan sigur á KS/Leiftur
KA 2 - 1 KS/Leiftur
0-1 Ede Visinka (Víti) ('22)
1-1 Ingi Freyr Hilmarsson ('60)
2-1 Magnús Blöndal Gunnarsson ('82)
KA menn fengu sameiginlegt lið KS/Leiftur í heimsókn á Akureyri í kvöld. Leikurinn byrjaði rólega og voru bæði lið lítið að sækja. Það var ekki fyrr en á 21. mínútu sem KS/Leiftur eiga fyrirgjöf frá vinstri sem boppaði upp í hendina á Inga Frey Hilmarssyni og gat dómari leiksins, Ólafur Ragnarsson, ekkert annað en dæmt víti og úr því skoraði Ede Visinka.
Milos Tanasic átti fínt færi á 39. mínútu eftir góðan undirbúning frá þjálfar sínum, Ragnari Haukssyni, en skot hans fór í varnarmann. Eftir þetta gerðist ekki margt og staðan í hálfleik 0-1.
Síðari hálfleikur var öllu fjörlegri og það voru KA menn byrjuðu betur. KA fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og Steinn Gunnarsson rúllar boltanum til hliðar á Norbert Farkas sem á skot í varnarmannm, boltinn berst til fyrirliði KA, Almarr Ormarsson, en skot hans fer rétt yfir. Stuttu seinna á svo Ede Visinka gott skot úr aukaspyrnu hinu megin á vellinum en Sandor Matus blakar boltan yfir þverslánna.
Á 60. mínútu er Almarr með boltann í teig KS/Leiftursmanna, rúllar honum út á Inga Frey sem leggur boltan fyrir sig og á gott skot niður í fjærhornið og Þorvaldur Þorsteinsson markvörður KS/Leifturs á enga möguleika og staðan orðin 1-1.
Eftir markið róaðist leikurinn aðeins en á 73. mínútu á KS/leiftur álitlega sókn en Sandor ver og KA ná frákastinu og bjarga í horn. Úr horninu kemur ekkert og KA keyra upp í sókn þar sem Steinn Gunnarsson á sendingu fyrir á Orra Gústafsson, sem hafði komið inn á rétt áður, sem skallar boltann rétt framhjá úr fínu færi.
Magnús Blöndal kom einnig inn á sem varamaður og eftir aðeins nokkar sekúndur var hann búinn að skora. Haukur Heiðar Hauksson átti þá góða fyrirgjöf frá hægri og Magnús náði að smeygja sér framfyrir varnarmann KS/Leiftus og skallaði boltann í netið í sinni fyrstu snertingu.
Eftir markið reyndu KS/Leifturs menn að sækja en þeirra besta færi fékk Ragnar Hauksson þegar hann skallaði aukaspyrnu Sandor Zoltan framhjá.
Stuttu seinna flautaði Ólafur til leiksloka og niðurstaðan 2-1 sigur KA.
Ummæli eftir leik
Steingrímur Örn Eiðsson aðstoðarþjálfari KA
,,Þetta var frábær karakter hjá strákunum, flottur seinni hálfleikur. En enn einusinni erum við að gera okkur erfitt fyrir með því að gefa mörk. Við komum til baka og náðum að klára. Þeir strákar sem komu inná komu inn af krafti og það var gaman að sjá.”
Næsti leikur KA-manna er gegn ÍBV í Eyjum sem tróna á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og segir Steingrímur það vera verðugt verkefni. ,,Það verður án efa erfiður leikur og við verðum að vera mjög agaðir og skipulagðir allan leikinn en við höfum alveg sýnt það að við getum alveg gert mjög góða hluti. Ég hef trú á að strákarnir verði klárir og einbeittir á laugardaginn þá getum við náð góðum úrslitum.”
Fótbolti.net, Akureyri - Davíð Rúnar Bjarnason.
Athugasemdir