Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   sun 22. júní 2008 22:07
Fótbolti.net
1. deild umfjallanir: Selfoss saxar á forskot ÍBV
Boban Jovic fagnaði marki sínu með Sævar Þór Gíslasyni sem var í leikbanni.
Boban Jovic fagnaði marki sínu með Sævar Þór Gíslasyni sem var í leikbanni.
Mynd: Guðmundur Karl
Einar Ottó Antonsson fellur eftir að Einar Hjörleifsson braut á honum á annarri mínútur.
Einar Ottó Antonsson fellur eftir að Einar Hjörleifsson braut á honum á annarri mínútur.
Mynd: Guðmundur Karl
Bakvörðurinn Miroslav Pilipovic varð að fara í markið eftir að Einar Hjörleifsson fékk rauða spjaldið.  Hér skorar Dusan Ivkovic auðveldlega framhjá honum.
Bakvörðurinn Miroslav Pilipovic varð að fara í markið eftir að Einar Hjörleifsson fékk rauða spjaldið. Hér skorar Dusan Ivkovic auðveldlega framhjá honum.
Mynd: Guðmundur Karl
Stuðningsmannafélagið Skjálfti lét þrumuveðrið ekki á sig fá.
Stuðningsmannafélagið Skjálfti lét þrumuveðrið ekki á sig fá.
Mynd: Guðmundur Karl
Dusan Ivkovic og Jón St. Sveinsson sáttir í leikslok.
Dusan Ivkovic og Jón St. Sveinsson sáttir í leikslok.
Mynd: Guðmundur Karl
Almarr skoraði tvívegis í sigri KA á Leikni R.
Almarr skoraði tvívegis í sigri KA á Leikni R.
Mynd: Pedromyndir
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Brynjar Orri Bjarnason fagnar sigurmarki sínu fyrir Víking gegn Þór.
Brynjar Orri Bjarnason fagnar sigurmarki sínu fyrir Víking gegn Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Gunnlaugur Júlíusson
Jimmy Hoyer í baráttunni við Jóhann Helga Hannesson.
Jimmy Hoyer í baráttunni við Jóhann Helga Hannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Smári Sigurðsson leikmaður Víkings með knöttinn.
Halldór Smári Sigurðsson leikmaður Víkings með knöttinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Njarðvíkur og KS/Leifturs.
Úr leik Njarðvíkur og KS/Leifturs.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Oliver Jaeger skorar fyrir KS/Leiftur gegn Njarðvík.
Oliver Jaeger skorar fyrir KS/Leiftur gegn Njarðvík.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Leikmenn KS/Leifturs fagna.
Leikmenn KS/Leifturs fagna.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Vignir Benediktsson skýtur að marki.
Vignir Benediktsson skýtur að marki.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Heil umferð fór fram í 1. deild karla nú í dag. Tveir leikir voru á dagskránni klukkan tvö, en fjórir klukkan fjögur. Selfyssingar unnu góðan sigur á Víkingum frá Ólafsvík, Hitt Víkingsliðið úr Reykjavík vann sigur á Þór, KS Leiftur marði sigur á Njarðvík og KA rótburstaði Leiknismenn úr Breiðholti.

Hér að neðan má sjá umfjallanir úr seinni leikjum dagsins.


Útispilari í markinu í 88 mínútur:
Selfoss 4 - 0 Víkingur Ó.
1-0 Agnar Bragi Magnússon ('13)
2-0 Boban Jovic ('17)
3-0 Dusan Ivkovic ('65)
4-0 Andri Freyr Björnsson ('78)

Selfyssingar tóku á móti Víking Ólafsvík á Selfossvelli í dag. Fyrir leikinn voru Selfyssingar í öðru sæti með 15 stig en Víkingar með 9 stig í sjötta sæti. Leikurinn byrjaði í bongóblíðu, sól og logni, en í byrjun seinni hálfleiks kom ausandi rigning, þrumur og svo haglél, sem stóð yfir í 10 mínútur. Selfyssingar sem voru án þeirra Sævars Þórs, Arnar Þórs og Ingþórs létu það ekki á sig fá og unnu sannfærandi sigur 4-0.

Fyrsta færi leiksins kom eftir aðeins 1 mínútu, en þá stakk Boban Jovic boltanum inn á Einar Ottó og Einar Hjörleifsson kom aðeins of hratt út á móti Einari og klippti hann niður. Dómari leiksins Kristinn Jakobsson átti ekki annan kost en að reka Einar af velli. Miroslav Pilipovic bakvörður Víkinga þurfti að fara í markið þar sem liðið var ekki með neinn varamarkvörð á bekknum.

Á 12. mínútu stal Viðar Örn Kjartansson boltanum af varnarmanni Víkings, gaf á Boban, en skot hans var bjargað í horn. Upp úr horninu gaf Gunnar Borgþórsson boltann á Agnar Braga sem setti boltann snyrtilega í netið, staðan orðin 1-0 fyrir Selfoss.

Tveimur mínútum seinna átti Eyþór Guðnason gott skot sem fór rétt framhjá. Á 18. mínútu stakk Viðar Örn boltanum inn á Boban og hann átti ekki í vandræðum með að skora og staðan orðin 2-0 fyrir heimamenn.

Selfyssingar róuðu leikinn eftir annað markið, heldu bolta vel, án þess þó að vera skapa sér færi. Næsta færi leiksins kom ekki fyrr en á 43. mínútu, þá stakk Viðar Örn boltanum inn á Sigðurð Eyberg Guðlaugsson, en skot hans for í hliðarnetið. Mínútu seinna prjónaði Einar Ottó sig í gegn um vörn Víkinga, en á síðustu stundu björguðu þeir í horn. Hornið var tekið djúpt og upp úr því stakk Boban boltanum inn á Einar Ottó en skot hans varið. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Lítið markvert gerðist fyrstu 15 mínútur seinni hálfleiks, þá voru leikmenn aðallega að standa af sér veðrið. Á 60. mínútu skoraði svo Dusan Ivkovic mark eftir horn, en mark hans dæmt af vegna rangstöðu. Hans þriðja mark í sumar, en öll hafa þau verið dæmd af. Aðeins fimm mínútum seinna skoraði Dusan aftur og nú var markið dæmt gilt. Boban átti sendingu inn á Ingólf Þórarinsson sem kom með góðan kross fyrir á Dusan og hann átti ekki í vandræðum með að setja boltann yfir línuna. Staðan orðin 3-0.

Á 67. mínútu átti Henning skot sem naumlega var bjargað í horn af varnarmanni. Upp úr horninu átti Henning hörku skalla rétt framhjá. Á 72. mínútu áttu Selfyssingar frábæra sókn, en eftir fallegt spil hjá Ingó, Viðari og Sigurði, átti Jón Sveinsson skot rétt framhjá. Tveimur mínútum seinna fékk Viðar sendingu rétt fyrir utan teig, hann sneri á varnarmann og smelti boltanum í innanverða stöngina.

Á 78. mínútu átti Boban góða sendingu upp vinstri kant á Andra og hann let vaða í fyrsta og boltinn söng í netinu, staðan orðinn 4-0 fyrir Selfoss. Tveimur mínútum fyrir leikslok komst Boban í gegn varnarmaður Víkinga bjargaði frábærlega. Á síðustu mínútu leiksins stakk Viðar Örn sér í gegnum vörn Víkinga, en skot hans fór í hliðarnetið.

Lokastaðan því 4-0 fyrir Selfoss og örugg þrjú stig í höfn. Selfyssingar halda því öðru sæti, en Ólafsvíkingar duttu niður í það níunda við þetta tap. Víkingar voru bara búnir að fá á sig sjö mörk fyrir þennan leik, en fengu nú á sig fjögur í viðbót.

Ummæli eftir leik:

Einar Hjörleifsson fyrirliði Víkings:
,,Já rauða spjaldið var sanngjarnt, ég fór of hratt í manninn. Kiddi (Kristinn Jakobsson) veit alveg hvað hann er að gera. Við eigum ekki möguleika í leiknum, því útileikmaður þurfti að fara í markið, en hann stóð sig reyndar vel. Það er bara of erfitt að vera einum færri allan leikinn gegn Selfoss. Ég verð í banni í næsta leik, en við munum leysa markmannsmálin fyrir þann leik. Það er mikið af efnilegum strákum að koma upp hjá okkur sem vert er að fylgjast með” sagði Einar Hjörleifsson markmaður Víkinga sem fékk að líta rauða spjaldið á fyrstu mínútu leiksins.

Einar Ottó Antonsson leikmaður Selfyssinga:
,,Við skoruðum fjögur mörk og söknuð Sævars Gísla alls ekki. Leikurinn kláraðist snemma, því við vorum búnir að skora tvö eftir tuttugu mínútur. Við lentum í eins atviki á móti Stjörnunni þegar markmaðurinn klippti Sævar niður í byrjun leiks, en þar slapp Bjarni Þórður við rautt spjald af einhveri óútskýranlegri ástæðu. Eftir að við vorum orðnir einum fleiri var bara spurning hvort við myndum skora snemma því þá gátum við ráðið leiknum eins og raunin varð. Boban skoraði loksins fyrir okkur en hann ætti að vera búinn að skora 20 mörk í sumar og er gott að ná honum loks af stað í markaskorun. Markmiðið okkar fyrir leikinn var að halda hreinu í fyrsta sinn í sumar og það tókst.” sagði Einar Ottó Antonsson sem átti mjög góðan leik fyrir Selfoss.


KA kafsigldi Leikni í síðari hálfleik:
KA 6 - 0 Leiknir R.
1-0 Guðmundur Óli Steingrímsson (´41)
2-0 Andri Fannar Stefánsson (´64)
3-0 Dean Martin (´66)
4-0 Dean Martin (´72)
5-0 Almarr Ormarsson (´88)
6-0 Almarr Ormarsson (´90)

Það var ágætis veður þegar KA menn tóku á móti Leikni frá Reykjavík á Akureyrarvelli nú í dag.

Leiknismenn hófu leikinn betur og fyrirliði þeirra Vigfús Arnar Jósepsson átti fyrsta færið en Sandor Matus varði vel. Á 28. mínútu komust Leiknismenn nálægt því að komast yfir þegar þeir tóku aukaspyrnu stutt út á miðjum velli og boltinn gekk til Fannars Þórs Arnarssonar sem átti hörkuskot í stöng.

Á 41. mínútu kom fyrsta markið. Dean Martin átti fyrirgjöf utan af kanti og varnarmaður Leiknis missti af knettinum og Guðmundur Óli Steingrímsson nýtti sér það og kom heimamönnum yfir. Lítið var um marktilraunir það sem eftir lifði hálfleiksins og staðan því 1 - 0 í leikhléi.

Seinni hálfleikur hófst fremur rólega og var frekar daufur en það átti heldur betur eftir að breytast. Á 64. mínútu komust KA menn í 2 - 0. Andri Fannar Stefánsson fékk boltann á miðjunni og lék sér að varnarmönnum Leiknis og sendi til Almarrs Ormarssonar sem gaf hann aftur og Andri lék á einn varnarmann og Val Gunnarsson markmann Leiknismanna og lagði boltann í markið. Hreint út sagt stórglæsilegt mark hjá Andra Fannari sem kom sem vítamínsprauta í lið KA þegar hann kom inn á.

Eftir markið efldust KA menn til muna og það var algjör einstefna að marki Leiknis. Strax í næstu sókn fékk Ingi Freyr Hilmarsson sendingu inn fyrir frá Almarri og var kominn einn á móti Val Gunnarssyni sem sá við honum að þessu sinni. Mínútu síðar átti Steinn Gunnarsson góðan sprett upp að endamörkum og náði að senda fyrir þar sem Dean Martin var réttur maður á réttum stað og skaut fallegu skoti í nær hornið frá teigslínu, óverjandi fyrir Val Gunnarsson í markinu.

KA menn voru aldeilis ekki hættir og á 72. mínútu átti Dean Martin góðan sprett upp kantinn og virtist ætla að gefa fyrir en úr varð skot sem fór yfir Val Gunnarsson og í netið. Eftir markið voru Leiknismenn búnir að játa sig sigraða og það var algjör einstefna að marki þeirra.

Fyrirliðinn Almarr Ormarsson bætti síðan við fimmta marki KA manna á 88. mínútu þegar hann komst einn á móti Val Gunnarssyni eftir að hafa fengið góða sendingu frá Andra Fannari. Almarr var síðan aftur á ferðinni á 90. mínútu þegar hann komst einn í gegn eftir mistök hjá varnarmanni Leiknis og afgreiddi boltann í netið.

Lokatölur því 6 - 0 en KA menn kafsigldu Leiknismönnum í síðari hálfleik og fóru oft á tíðum illa með varnarmenn þeirra.

Ummæli eftir leik:

Arnar Már Guðjónsson miðvallarleikmaður KA-manna var hress eftir sigurinn. ,,Þetta var frekar jafn leikur í fyrri hálfleik og var mikil stöðubarátta á vellinum en við náðum góðu marki þar, svo í seinni hálfleik var þetta bara einstefna, Var mjög ánægður með það að við héldum loksins hreinu og gefur það okkur mikið sjálfstraust fyrir næsta leik á móti Þór."

Andri Fannar Stefánsson var einnig glaðbeittur í leikslok en hann átti virkilega góða innkomu í lið KA að mati fréttaritara og skoraði glæsilegt mark. ,,Þetta var flottur sigur hjá okkur þó að við höfum verið seinir í gang. Náðum þremur dýrmætum stigum í hús og ekki leiðinlegt að hafa svona snillinga eins og Vini Sagga að styðja okkur."

Fótbolti.net, Akureyri - Aðalsteinn Halldórsson.


Brynjar Orri tryggði Víkingum sigur undir lokin gegn Þór

Víkingur Reykjavík 2-1 Þór
1-0 Gunnar Kristjánsson ('9)
1-1 Hreinn Hringsson ('34)
2-1 Brynjar Orri Bjarnason ('86)

Víkingur úr Reykjvaík og Þór frá Akureyri mættust í Víkinni núna fyrr í dag. Heimamenn voru í níunda sæti deildarinnar með sjö stig fyrir leikinn og Þórsarar í sjöunda sæti með níu stig.

Á níundu mínútu leiksins fékk Pétur Örn Svansson boltann á vallarhelmingi Þórsara og gaf hann stungusendingu inn fyrir og þar var Gunnar Kristjánsson á undan Árna Kristinni Skaftasyni, markverði Þórsara í kapphlaupi um knöttinn, sem lá í markinu og heimamenn komnir í 1-0.

Víkingar héldu áfram að sækja og Valur Adolf Úlfarsson fyrirliði fékk prýðis færi til að bæta forystuna, en boltinn fór framhjá. Þá vildu þeir fá vítaspyrnu þegar að Pétur Örn Svansson átti sendingu inn í markteig þar sem að Gunnar Kristjánsson átti skot í þverslá og hann ætlaði að ná frákastinu og var að fara að skalla boltann þegar að varnarmaður Þór keyrði hann niður, en ekkert dæmt.

Egill Atlason var nálægt því að bæta við marki fyrir Víking, er Árni Kristinn sSkaftason, markvörður Þórsara fékk boltann og ætlaði að hreinsa frá og það heppnaðist ekki etur en að boltinn fór í Egil og framhjá stögninni.

Þórsarar jöfnuðu metin þegar að tíu mínútur voru í hálfleikinn, en þá átti Milos Glogovac misheppnaða sendingu á Ibra Jagne, leikmann Þór sem að gaf boltann inn fyrir vörn Víkinga og þar var Hreinn Hringsson og hann nýtti tækifærið og setti boltann milli fóta Ingvars Kale í marki Víkinga og jafnaði metin í 1-1. Þetta var þó þvert gegn gangi leiksins því Víkingar höfðu yfirspilað gestina fram að þessu, en ein sókn og eitt mark hjá Þórsurum.

Engin færi sköpuðust fram að hálfleik og því jafnt, 1-1 er liðin gengu af vellinum í leikhéi.

Ekkert sem má kallast marktækifæri kom í seinni hálfleiknum fyrr en á 73. mínútu þegar að Pétur Örn Svansson átti skot sem að fór rétt framhjá marki Þórsara. Stuttu seinna ætlaði Halldór Smári Sigurðsson að gefa boltann inn í teig úr aukaspyrnu af hægri kantinum. Boltinn rataði á Árna Kristinn Skaftason í marki Þór og hann blakaði boltanum rétt framhjá stönginni. Þórsarar voru stálheppnir þarna.

Þegar að fimm mínútur voru eftir af leiknum áttu Víkingar hornspyrnu hægra megin og hana tók Halldór Smári Sigurðsson. Halldór Smári kom með sendingu inn í teiginn, sem rataði á kollinn á Þórhalli Hinrikssyni. Þórhallur skallaði knöttinn á Brynjar Orra Bjarnason, sem að tók við honum í markteig og setti síðan boltann í netið.

Í næstu sókn Þórsara fengu þeir aukaspyrnu langt utan af velli og hana tók Matthías Örn Friðriksson. Hann kom með langan bolta inn í teiginn og þar var Sigurður Marinó Kristjánsson, sem skallaði rétt framhjá.

Ekkert markvert ggerðist eftir þetta í leiknum og því 2-1 langþráður sigur heimamana í höfn.

Ummæli eftir leik:

Brynjar Orri Bjarnason, bjargvættur Víkinga:

,,Við spiluðum þokkalega á köflum, en duttum niður á tímabili. Þegar að við duttum í gírinn vorum við mjög góðir."

,,Ég er ekki búinn að skora núna í næstum því tvö ár í alvöru fótboltaleik. Þannig að þetta er alveg æðislegt."

Jesper Tollefsen þjálfari Víkinga:
,,Við vorum svolítið stressaðir fyrstu mínúturnar eftir markið. Leikurinn var samt algjörlega áfram í okkar höndum en spilamennskan náði aldrei sömu gæðum og fyrir jöfnunarmarkið.“

,,Ég sagði við strákana í hálfleik að halda áfram og hafa trú á verkefninu. Við höfðum einn dag meira í hvíld eftir bikarinn og Þór lék töluvert erfiðari leik gegn Val. Ég sagði að ef við héldum áfram að pressa myndi Þór bogna undan álaginu. Ég hélt þó ekki að það yrði svo seint í leiknum."


Fótbolti.net, Fossvogi - Davíð Atlason.


KS/Leftur kom til baka og krækti í fyrsta sigurinn:
Njarðvík 2 - 3 KS/Leiftur
1-0 Vignir Benediktsson
2-0 Kristinn Örn Agnarsson
2-1 Oliver Jaeger
2-2 Ede Visinka
2-3 Þórður Birgisson

Njarðvíkingar fengu norðanmenn úr KS/leiftri í heimsókn kl 16 í dag á Njarðtaksvelli í blíðskaparveðri. Bæði lið fóru rólega af stað en gestirnir fengu þó tvö hættulegustu færin í fyrri hálfleik.

Þórður Birgisson slapp einn innfyrir vörn Njarðvíkinga en Ingvar Jónsson í marki heimamanna gerði vel og varði.

Stuttu síðar slap Oliver Jaeger inn fyrir og framhjá Ingvari en Vignir Benediktsson náði að hreinsa boltann í burtu og koma í veg fyrir að gestirnir kæmust yfir.

Njarðvíkingar fengu dæmda aukaspyrnu þegar brotið var á Guðna Erlendssyni á miðjum velli á 44 mín. Gestur Gylfason tók aukaspyrnuna og þar var Vignir Benediktsson réttur maður á réttum stað og setti boltann inn eftir að hafa farið í gegnum þvöguna.

Njarðvík 1 – 0 KS/Leiftur í hálfleik. Síðari hálfleikur var þó öllu fjörugri en sá fyrri og 4 mörk litu dagsins ljós.

Njarðvíkingar mættu mun ákveðnari til leiks og var sóknarþunginn töluverður á gestina til að byrja með. Einar Valur Árnason átti góða fyrirgjöf á Sigurð Karlsson sem rétt missti af knettinum og varnarmenn hreinsuðu í innkast.

Njarðvíkingar fengu svo aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Guðna Erlendssyni rétt fyrir utan teig. Sigurður Karlsson tók spyrnuna en markvörður gestana Þorvaldur Þorsteinsson greip knöttinn örugglega.

Kristinn Björnsson bakvörður Njarðvíkinga sótti upp hægri kantinn og inn á miðsvæðið, kappinn gerði sér lítið fyrir og átti bylmingsskot sem stefndi í fjær vinkilinn en boltinn small í þverslánni og inn í vítateig þar sem Kristinn Agnarson hitti boltann illa og renndi knettinum framhjá marki gestanna.

Síðara mark heimamanna lá í loftinu og það kom á 58 mín. Jón Haukur Haraldsson sótti upp hægra megin, Sigurður Karlsson sóknarmaður tók hlaup inn fyrir vörn gestanna og opnaði frísvæði fyrir Kristinn Örn Agnarsson vinstra megin sem fékk góða sendingu frá Jón Hauki og setti boltann snyrtilega í hornið fjær. Staðan 2–0 fyrir heimamenn og allt stefndi í að öruggur sigur.

Gestirnir vöknuðu loks til lífsins og settu allt á fullt. Sóknarþunginn var farinn að færast yfir á Njarðvíkinga sem gerðust full kærulausir og minnkuðu gestirnir muninn með marki frá Oliver Jaeger á 63 mín eftir góða stungu sendingu innfyrir vörn heimamanna frá Þórði Birgissyni.

Hver sóknin á eftir annarri dundi á Njarðvíkingum sem virtust ætla að halda fengnum hlut, á 75 mín jöfnuðu gestirnir svo leikinn þegar að Njarðvíkingar brutu á gestunum vinstra megin við vítateiginn. Ede Visinka var mættur úr vörninni og skallaði frábæra fyrirgjöf framhjá Ingvari í markinu og jafnaði leikinn 2 – 2.

Sigurmarkið kom fimm mínútum fyrir leikslok þegar að Þórður Birgisson fékk háa sendingu innfyrir vörn heimamanna sem reyndu að spila rangstöðutaktík, Ingvar Jónsson kom út á móti en Þórður gerði vel í að klára færið og lyfti boltanum yfir Ingvar og inn.

KS/Leiftur innbyrti þrjú stig og fyrsti sigurleikur þeirra á sumrinu staðreynd. Þeir náðu að lyfta sér upp af botninum og upp fyrir Leiknir R sem tapaði gegn KA fyrir norðan. Miðað við spilamennskuna í síðari hálfleik þá geta þeir strítt hvaða liði sem er í sumar og eiga ábyggilega eftir að innbyrða fleiri sigra þegar líður á mótið.

Njarðvíkingar sem sitja í 3ja neðsta sæti deildarinnar voru óheppnir með sín færi og væri ekki á neinn hallað að segja að þeir hefðu átt skilið allavega eitt stig úr þessari viðureign. Með tvo framherja meidda vantaði smá bit fram á við en Ísak Þórðarsson og Aron Smárason voru frá vegna meiðsla.

Lið Njarðvíkur; Ingvar Jónsson (m), Árni Þór Ármannsson, Kristinn Björnsson, Gestur Arnar Gylfason, Einar Valur Árnason, Sigurður Karlsson (Albert Högni Arason 76 mín) Guðni Erlendsson, Kristinn Örn Agnarsson, Vignir Benediktsson, Frans Elvarsson, Jón Haukur Haraldsson.
Ónotaðir varamenn, Þorsteinn Atli Georgsson, Almar Elí Færseth, Alexander Magnússon, Bjarni Steinar Sveinbjörnsson.

Lið KS/Leifturs; Þorvaldur Þorsteinsson, Ede Visinka, Jóhann Örn Guðbrandsson (Gabríel Reynisson 63 mín) Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson, Sandor Zoltan Forizs, Heiðar Gunnólfsson, Ragnar Haukur Hauksson, Agnar Þór Sveinsson, Þórður Birgisson, Hrafn Ingason (Orri Rúnarsson 37 mín) Oliver Jaeger (Milos Tanasic 83 mín)
Ónotaðir varamenn; Róbert örn Óskarsson, Sigurbjörn Hafþórsson.


Fótbolti.net, Reykjanesbæ - Gísli Þór Þórarinsson.
Athugasemdir
banner
banner