Eyjamenn auka forskot sitt - Góður útisigur Hauka í Breiðholti
Níunda umferðin í fyrstu deild karla hófst í kvöld með tveimur leikjum. KA lagði Þór í Akureyrarslagnum, topplið ÍBV lagði Njarðvík 2-1 í Eyjum þar sem Andri Ólafsson skoraði sigurmarkið. Varamaðurinn Brynjar Orri Bjarnason tryggði Víkingi góðan útisigur á Stjörnunni með marki undir lokin og Haukar unnu Leikni 3-2 á útivelli. Kíkjum á umfjallanir um leikina.
Dramatískur sigur KA manna á grönnum sínum:
Þór 0 - 1 KA
0-1 Arnar Már Guðjónsson ('92)
Í kvöld tóku Þórsarar á móti grönnum sínum úr KA í 9. umferð í 1. deild karla í knattspyrnu. Þrátt fyrir leiðindarveður fyrir norðan náðu bæði lið að sýna fína takta og skiptust á að sækja. Það var hins vegar ekki fyrr en að tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leik tíma þegar fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós þegar Arnar Már Guðjónsson tryggði KA-mönnum öll þrjú stigin með laglegum skalla.
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega, liðin báru greinilega nokkra virðingu fyrir hvort öðru og fóru sér engu að voða í sóknarleiknum. Á 5. mínútu leiksins fengu KA menn aukaspyrnu á u.þ.b. 20 metra færi. Aukaspyrnuna tók Dean Martin, ágætis spyrna en því miður fyrir KA menn var skotið hjá Dean beint á Árna Skaptason markmann Þórs sem greip knöttinn auðveldlega.
Þórsarar voru óheppnir að ná ekki forystu á 11. mínútu þegar Gísli Páll átti mjög góðan skalla eftir aukaspyrnu frá Matthíasi Erni, en lukkudísirnar voru ekki með Þórsurum og knötturinn small í þverslá KA marksins.
Þórsarar gerðu sig aftur líklega til að skora á 18. mínútu og aftur voru það föstu leikatriðin sem voru að valda vörn KA erfiðleikum. Alexander Linta tók aukaspyrnu fyrir Þór, góð aukaspyrna og Lárus Orri var óvaldaður inn í teig, náði ágætum skalla en því miður fyrir Þór fór knötturinn yfir mark KA. Á 22. mínútu gerði Hreinn Hringsson sig líklega til að skora er hann átti ágætis skot að marki KA manna en Sandor Matus var vel á verði og varði vel í horn.
KA menn áttu einnig sín færi í fyrri hálfleik. Á 26. mínútu pressaði Dean Martin, Atla Jens varnarmann Þórs mjög vel. Atli reyndi að snúa á Dean en missti boltann til Dean sem renndi boltanum til Guðmund Óla sem átti gott skot að marki Þórs en Árni Skaptason gerði vel og varði. Síðasta færi fyrri hálfleiks áttu KA menn þegar Arnar Már átti mjög góðan skalla að marki Þórs eftir góða fyrirgjöf frá hægri en því miður fyrir KA menn fór boltinn beint á Árna Skaptason markmann Þórs. Fátt gerðist eftir færi Arnars og ágæti dómari leiksins, Kristinn Jakobsson flautaði hálfleikinn af þegar ein mínúta var kominn fram yfir venjulegan leiktíma og því staðan enn 0-0.
KA menn byrjuðu seinni hálfleikinn af meiri krafti en í fyrri hálfleik. Á 58. mínútu áttu KA menn gott færi þegar Almarr Ormarsson átti skot inn í teig Þórsara en skotið hans fór hátt yfir mark Þórsara. Þegar líða tók á seinni hálfleik fór veður að versna mjög, mikil rigning og hvassviðri settu sinn svip á leikinn. Leikmenn liðanna létu þó veðrið ekki aftra sér í að spila knattspyrnu. Á 64 mínútu tók Alexander Linta góða aukaspyrnu á 25. metra færi, yfir veginn, en Sandor Matus gerði það eina rétta í stöðunni og sló boltann örugglega frá. Þórsarar voru óheppnir að ná ekki forystu á 66. mínút þegar þeir áttu fallega sókn. Atli Sigurjónsson átti góða sendingu á Sigurð Marínó Kristjánsson sem virtist hafa nægan tíma til að leggja boltann betur fyrir sig, engu að síður náði hann fínu skoti að marki KA en enn og aftur varði Sandor Matus vel.
Eftir því sem leið á leikinn og veðrið versnaði náðu KA að pressa Þórsara enn frekar og náðu að skapa sér nokkur hálffæri. Áhorfendur og jafnvel einhverjir leikmenn liðanna virtust vera búnir að sætta sig við markalaust jafntefli, en Arnar Már Guðjónsson var þó á öðru máli.
Á 91 mínútu áttu KA menn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Þórsara. Góð spyrna sem einn leikmaður KA náði að skalla boltanum í átt að Arnari Má sem náði góðum skalla og boltinn fór yfir Árna Skaptason og í markið. 0-1 fyrir KA menn sem hreinlega trylltust úr fögnuði. Eftir mark KA manna gerðis fátt merkilegt og þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma flautaði Kristinn Jakobsson leikinn af og því 0-1 sigur KA manna staðreynd.
Ummæli eftir leik:
Almarr Ormarsson fyrirliði KA manna var að vonum ánægður með sigurinn á grönnunum. ,,Ég gæti ekki verið mikið ánægðari. Þetta er alveg frábært, markið kom á síðustu stundu sem gerir þetta dálítið sætt. Við áttum að vera búnir að skora fyrr en sigur er sigur og þrjú stig eru þrjú stig. Þá má eiginlega segja það að leikurinn hafi spilast eins og við vildum. Við lögðum upp með að halda hreinu í fyrri hálfleik og okkur tókst það."
,,Svo sóttum við aðeins í seinni hálfleik, þannig að þetta var nokkuð flott hjá okkur. Maður fékk aðeins rigningu í augun og alveg svakalegur vindur við vorum heppnir að vera með vindinn með okkur í seinni hálfleik. Þetta var frekar slæmt en ég held þó að það hafi ekki verið veðrinu að þakka að við unnum, við vorum bara betri í seinni hálfleik," sagði Almarr Ormarsson kampakátur í leikslok.
Lárus Orri Sigurðsson þjálfari Þórs var að vonum svekktur með úrslit leiksins. ,,Það skiptir kannski ekki öllu máli hvenær við fengum markið á okkur. Það er bara hrikalega svekkjandi að tapa á móti KA. Það er sárt, mjög sárt. Þetta er annar leikurinn í röð sem við fáum mark á okkur undir lok leiks. Þetta er kjaftshögg en við höldum áfram."
,,Ég er kannski ekki alveg sammála um að við höfum spilað mjög vel í fyrri hálfleik. en jú, þetta gekk ágætlega í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik bætti mjög í vindinn og við fáum rigninguna í andlitið. Menn voru að berjast fyrir þessu og við vorum að reyna að spila boltanum, en það gekk ekki að þessu sinni. Þessi dagur, næstu dagar og vikur eru KA manna og á meðan munum við bara draga okkur til hlés og vinna að okkar málum. Við erum alls ekkert að fara gefast upp, þetta var bara kjaftshög," sagði Lárus Orri í viðtali við Fótbolti.net í leikslok..
Fótbolti.net, Akureyri - Sölmundur Karl Pálsson.
Brynjar Orri aftur hetja Víkinga:
Stjarnan 1 - 2 Víkingur R.
1-0 Ellert Hreinsson ('15)
1-1 Þórhallur Örn Hinriksson ('32)
1-2 Brynjar Orri Bjarnason ('85)
Stjörnumenn tóku á móti Víkingum í 1.deild karla á gervigrasinu í Garðabæ fyrr í kvöld. Stjarnan var í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn og Víkingar í því sjötta.
Leikurinn fór frekar hægt af stað og voru liðin mikið að kýla boltanum fram án árangurs. Hafsteinn Rúnar Helgason átti ágætis skot fyrir Stjörnumenn, en Ingvar Þór Kale, markvörður Víkinga sá við honum.
Heimamenn í Stjörnunni náðu forystunni eftir stundarfjórðung þegar að Hafsteinn Rúnar Helgason tók hornspyrnu sem að rataði á kollinn á Tryggva Sveini Bjarnasyni. Tryggvi skallaði boltann fyrir framan fætur Ellerts Hreinssonar, sem að setti boltann í markið.
Víkingar voru heppnir að forysta Stjörnunnar var ekki meiri rúmum tíu mínútum síðar þegar að Hafsteinn Rúnar Helgason átti fasta aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig, sem að Ingvar Kale varði vel.
Víkingar náðu að jafna metin þegar að rúmur hálftími var liðinn af leiknum, er Pétur Örn Svansson tók hornspyrnu. Knötturinn fór inn í teig og beint á hausinn á Þórhalli Hinrikssyni, sem að skallaði boltann að marki og skoraði. Mikill vafi var um hvort að boltinn hafi farið inn fyrir línuna, en línuvörður gaf merki um að hann hafi farið yfir línuna.
Ekkert markvert gerðist eftir þetta í fyrri hálfleiknum og staðan því 1-1 í leikhléi.
Síðari hálfleikur leiksins var frekar bragðdaufur og engin alvöru færi komu. Halldór Smári Sigurðsson átti fínt skot sem að endaði framhjá marki Stjörnunnar, en annars var ekkert merkilegt fyrr en á 83. mínútu þegar að Halldór Smári Sigurðsson átti hornspyrnu inn í vítateig Stjörnumanna og Kristján Vilhjálmsson var frír og skallaði boltann rétt framhjá.
Víkingar náðu hinsvegar að skora mark þremur mínútum síðar þegar að Christopher Vorenkamp fékk boltann í vítateignum og gaf fyrir á Brynjar Orra Bjarnason, sem að skoraði og tryggði Víkingum þar með sigur. Þetta var annar leikurinn í röð sem að Brynjar Orri skorar sigurmarkið í, en hann gerði það gegn Þór í síðustu umferð.
Með sigrinum lyftast Víkingar upp í fimmta sætið, en Stjarnan heldur þriðja sætinu.
Fótbolti.net, Garðabæ - Davíð Atlason.
Leiknismenn vöknuðu of seint
Leiknir R. 2 - 3 Haukar
0-1 Denis Curic ('14)
0-2 Ásgeir Ingólfsson ('37 )
0-3 Denis Curic ('52)
1-3 Fannar Arnarson ('86)
2-3 Kári Einarsson ('87)
Haukar komust nær toppi 1. deildarinnar þegar þeir sigruðu Leikni 3-2 á Leiknisvellinum í kvöld. Haukar komust þremur mörkum yfir, höfðu algjöra yfirburði í fyrri hluta leiksins og Leiknismenn voru vart mættir til leiks. Í seinni hálfleik vöknuðu Breiðhyltingar hinsvegar af værum blundi og komu sér aftur í leikinn en svefn þeirra hafði staðið of lengi yfir og þeir fengu því ekkert úr leiknum.
Það var vel mætt á leikinn og Breiðhyltingar ákváðu að sýna sínu liði stuðning eftir að það beið afhroð gegn KA í síðustu umferð. Í fyrri hálfleik virtust leikmenn Leiknis hinsvegar vera ennþá á Akureyri á meðan Haukar voru fullir sjálfstrausts eftir góðan sigur á ÍBV. Það gerðist reyndar fátt markvert þar til eftir stundarfjórðung þegar Leiknismenn hreinlega gáfu Haukum mark.
Elínbergur Sveinsson, varnarmaður Leiknis, átti sendingu til baka á Eyjólf Tómasson. Sendingin var alltof laus og Denis Curic, sóknarmaður Hauka, náði til boltans og skoraði. Sannkölluð gjöf til Hauka sem efldust mjög við þetta mark. Þeir náðu miklum tökum á leiknum, voru mun hreyfanlegri en heimamenn og boltinn flaut vel á milli manna. Hjá Leikni rataði boltinn hinsvegar vart á samherja.
Á 37. mínútu bættu Haukar verðskuldað við öðru marki. Þá var það Goran Lukic sem sá við rangstöðugildru Leiknis, renndi knettinum á Ásgeir Þór Ingólfsson sem skoraði í autt markið. Skömmu síðar komst Curic í virkilega fína stöðu en skot hans hitti ekki rammann. Haukar voru svo nálægt því að skora þriðja mark sitt þegar Ásgeir Þór átti hörkuskot eftir vel útfærða aukaspyrnu en Eyjólfur í marki Leiknis varði frábærlega.
Rétt fyrir hálfleik átti Elínbergur skalla í stöng en það var í eina skiptið í fyrri hálfleik sem Leiknir ógnaði marki Hauka. Staðan 2-0 fyrir Hafnarfjarðarliðið í hálfleik. Athygli vakti hve rosalega fækkaði í stúkunni í hálfleik en margir stuðningsmenn Leiknis voru greinilega komnir með nóg og héldu heim á leið.
Í upphafi seinni hálfleiks átti Jakob Spangsberg fínan skalla sem Amir Mehica varði vel í horn. Eftir sex mínútna leik í seinni hálfleiknum kom síðan þriðja markið. Hilmar Geir Eiðsson, sem átti mjög góðan leik, náði góðri fyrirgjöf sem rataði beint á skallann á Denis Curic sem skoraði sitt annað mark með óverjandi skalla.
Eftir þetta mark slökuðu Haukar aðeins á og þá vöknuðu heimamenn svo sannarlega úr þessum djúpa blundi. Munar þar mestu um innkomu Fannars Þórs Arnarssonar sem hleypti auknum krafti í leik Leiknis. Þór Ólafsson og Fannar fengu virkilega góð færi sem ekki nýttust og Vigfús Arnar Jósepsson átti aukaspyrnu naumlega yfir áður en Leiknir náði loks að minnka muninn.
Vigfús átti skot sem varnarmenn Hauka náðu að komast fyrir en eftir klafs náði Fannar Þór til boltans og skoraði sitt fyrsta mark í sumar. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Kári Einarsson sitt fyrsta mark fyrir Leikni og staðan skyndilega orðin 2-3. Kári skoraði með stórglæsilegum skalla eftir hornspyrnu. Leiknismenn pressuðu nokkuð stíft undir lokin en jöfnunarmarkið fannst ekki og Haukar fóru með öll stigin þrjú heim á leið.
Haukar eru nú þremur stigum á eftir Selfyssingum sem sitja í öðru sæti en eiga leik inni. Leiknismenn eru hinsvegar enn í botnsætinu og ljóst að ekkert annað en úrslitaleikir um líf þeirra í deildinni eru á næsta leyti. Þeir hafa fengið á sig 22 mörk í níu leikjum og ljóst að varnarleikinn þarf að endurskoða.
Fótbolti.net, Breiðholti - Gísli Þorkelsson.
Þrumuskot Andra kláraði Njarðvíkinga:
ÍBV 2 - 1 Njarðvík
1-0 Bjarni Rúnar Einarsson ('43)
1-1 Kristinn Örn Agnarsson ('83)
2-1 Andri Ólafsson ('84)
Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti. Strax á 3 mínútu átti Kristinn Baldursson, sem ný kallaður hafði verið til baka úr láni, langa sendingu upp á Atla Heimisson sem átti fínt skot að marki en boltinn rétt framhjá.
Augustine Nsumba átti svo skot að marki eftir flott samspil hans og Arnórs Eyvars Ólafssonar en skot hans beint á Ingvar Jónsson í marki Njarðvíkur.
Gestirnir áttu svo ágætt skot að marki þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Guðni Erlendsson lét þá vaða fyrir utan teig en skot hans vel framhjá.
Njarðvíkurmenn áttu svo annað fínt skot stuttu seinna en Albert vel á verði og greip boltann. Kristinn Örn Agnarsson átti skotið en það ekki nægilega fast né nákvæmt til að valda Alberti Sævarssyni einhverjum vandræðum. Þess má geta að Albert var þarna að leika gegn sínum gömlu félögum.
Heimamenn voru svo óheppnir að komast ekki yfir þegar um 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Eyjamenn fengu þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Andra Ólafssyni inni í teig Njarðvíkur en boltinn í stöngina.
Það var svo ekki nema örfáum mínútum seinna þegar Bjarni Rúnar fékk boltann inn í teig eftir sendingu frá Nsumba og afgreiddi boltann vel með vinstri fæti yfir Ingvar í markinu. Eyjamenn komnir verðskuldað í 1-0.
Þetta reyndist það síðasta markverða sem gerðist í frekar slöppum fyrri hálfleik.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti af sama krafti og Eyjamenn byrjuðu þann fyrri og fengu kjörið tækifæri til að jafna leikinn snemma í hálfleiknum.
Ísak Örn Þórðarsson fékk þá boltann einn inn fyrir vörn ÍBV og var kominn einn á móti Albert en slappt skot hans framhjá. Kjörið tækifæri til að jafna fór þarna í súginn.
Heimamenn héldu því fram að Ísak hefði verið rangstæður en aðstoðardómarinn var ekki á sama máli.
Gestirnir virtust mun einbeittari og ákveðnari og var nánast einstefna að marki ÍBV á upphafsmínútum seinni hálfleiks.
Þeir urðu þó fyrir nettu áfalli þegar Ísak Örn þurfti að fara af velli eftir baráttu við Andra Ólafsson. Eftir það virtist leikur Njarðvíkinga dvína og heimamenn byrjaðir að sækja af krafti á ný.
Eftir vægast sagt leiðinlegan kafla í leiknum fór loksins eitthvað að gerast þegar um 7 mínútur eftir lifðu leiks.
Njarðvíkingar tóku þá hornspyrnu inn í teig Eyjamanna sem náðu ekki að hreinsa og eftir mikinn vandræðagang og aulaskap í vörninni barst boltinn til Kristins Arnar Agnarssonar sem átti ekki auðvelt með að setja hann í markið.
Það tók ÍBV þó ekki langan tíma að komast aftur yfir en strax í sókninni á eftir fengu þeir hornspyrnu sem Anton Bjarnason tók og rataði boltinn beint á Andra Ólafsson sem var einn og óvaldaður og hamraði boltann í fyrsta á lofti með frábæru skoti. Glæsilegt mark og heimamenn aftur komnir yfir.
Loksins komið fjör í leikinn eftir um 85 mínútna leik. Eftir markið reyndu Eyjamenn eins og þeir gátu að halda boltanum innan liðsins til að varna því að gestirnir gætu skapað sér færi.
Egill Jóhannsson, sem hafði komið inn sem varamaður í lið ÍBV, var svo nálægt því að bæta við þriðja markinu þegar hann komst aleinn í gegn eftir sendingu frá Nsumba en skot hans framhjá.
Þetta reyndist síðasta færið í leiknum og ÍBV aftur komnir á sigurbraut eftir tap í Hafnarfirðinum í síðustu umferð.
Fótbolti.net, Vestmannaeyjum - Einar Kristinn Kárason.
Athugasemdir