Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 08. ágúst 2008 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Ísbað ópraktískt: Sindrastúlkur synda í firðinum eftir æfingar
Kvennalið Sindra vekur skemmtilega á sér athygli
Stúlkurnar rétt fyrri brottför á traktornum. Við stýrið situr 17 ára gamall fyrirliði liðsins, Heba Björg Þórhallsdóttir.
Stúlkurnar rétt fyrri brottför á traktornum. Við stýrið situr 17 ára gamall fyrirliði liðsins, Heba Björg Þórhallsdóttir.
Mynd: Sindri
Halarófan keyrir í bæinn á eftir traktornum.
Halarófan keyrir í bæinn á eftir traktornum.
Mynd: Sindri
Mikill fjöldi áhorfenda á fyrsta heimaleik Sindra í sumar.
Mikill fjöldi áhorfenda á fyrsta heimaleik Sindra í sumar.
Mynd: Sindri
Þjálfararnir Jóna Benný og Sandra í leik með Sindra.
Þjálfararnir Jóna Benný og Sandra í leik með Sindra.
Mynd: Sindri
Kvennalið Sindra á Hornafirði hefur vakið mikla athygli í sumar fyrir nýstárlegar aðferðir við að kynna leiki sína í 1. deild kvenna en þó líklega sjaldan eins mikið og í fyrradag þegar liðið lék sinn síðasta heimaleik þetta árið.

Þá keyrði liðið í halarófu í gegnum bæinn með traktor í fararbroddi og kynnti leikinn sem áður hafði verið kynntur með athyglisverðri auglýsingu. Í auglýsingunni lýstu stúlkurnar því yfir að ísbað að hætti Gaua Þórðar væri ópraktískt enda kæmist aðeins einn fyrir í einu, þess í stað syndi þær í firðinum eftir æfingar.

Jóna Benný Kristjánsdóttir þjálfar lið Sindra ásamt Söndru Sigmundsdóttur en þær gengu í raðir félagsins frá Hömrunum fyrir tímabilið. Jóna Benný þekkir vel til hjá Sindra þar sem hún lék í 15 ár en er nú komin heim eftir stutta dvöl fyrir norðan.

Nýjasta auglýsingin til heiður Gaua Þórðar
,,Við fórum á traktor um bæinn með sindrafána og gjallarhorn og auglýstum leikinn. Á eftir traktornum kom svo bílalest og við flautuðum um allan bæinn. Fólk kom út á götu og veifaði okkur og við fylltum stúkuna á leiknum," sagði Jóna Benný í viðtali við Fótbolta.net í gær.

,,Við vorum með svipaðar auglýsingar 2003 og 2004. Þetta er rosalega gaman og gerir mikið fyrir liðið að hittast svona og gera eitthvað saman. Svo fáum við miklu fleiri áhorfendur á völlinn og það bíða allir eftir því að sjá hvað við gerum næst," sagði Jóna Benný.

Nýjasta auglýsingin fyrir leik liðsins gegn Hetta í fyrrakvöld var til heiðurs Guðjóni Þórðarsyni fyrrverandi þjálfara ÍA þar sem bæði var vísað í ísböð hans og ummæli hans um ÍA liðið þar sem hann sagði að ekki væri hægt að gera kjúklingasalat úr kjúklingaskít en auglýsinguna má sjá neðst í þessari frétt.

,,Við erum bara að hrósa honum," sagði Jóna Benný. ,,Þetta var svo tilvalið eftir ummælin hans með kjúklingana því við áttum þennan fína kjúklingabúning. Það var mjög gaman að gera þessa auglýsingu, það var líka ansi kalt í sjónum og þó við segjum það í textanum, þá er þetta ekki eitthvað sem við gerum eftir hverja æfingu."

Humarveisla fyrir leik
Auglýsingaherferðin hefur haft góð áhrif því lið Sindra er að fá um 100 áhorfendur á heimaleiki sína þegar best lætur sem verður að teljast mjög gott í 1.deild kvenna og þætti meira að segja gott í Landsbankadeild kvenna. Jóna Benný segir auglýsingaherferðirnar gera mikið móralslega fyrir liðið

,,Já, það er mjög stórt atriði í þessu. Það er mjög gaman hjá okkur meðan við erum að undirbúa þetta og svo bíða allir spenntir eftir að sjá útkomuna. Svo er mikil spenna í kringum það þegar við erum að ákveða hvað við ætlum að gera. Við ákveðum þetta með eins eða tveggja daga fyrirvara og þá fara allir að útvega sér þann útbúnað sem þeir ætla að vera með."

,,Fyrst vorum við sjóarar, með sjóhatta og í sjóbuxum um borð í bát. Eftir að við höfum fundið til útbúnaðinn sem við ætlum að vera í tekur þetta einn og hálfan tíma. Við tökum myndirnar sjálfar og gerum auglýsingarnar sjálfar, það fer hvorki mikill kostnaður né tími í þetta"


,,Við erum með svo ungt lið og við teljum betra að þjappa hópnum saman í einhverju svona frekar heldur en í skemmtunum sem er kannski ekki við allra hæfi. Svo borðum við saman fyrir hvern einasta leik, skiptumst á að bjóða heim. Það er mjög gaman. Það fá allir að reyna að gera betur en síðasti, það hafa verið humarveislur og allskonar fínerí."

Rauð rós fyrir alla leikmenn
Það eru líklega fáir íbúar á Höfn í Hornafirði sem hafa ekki séð auglýsingarnar frá Sindrastúlkum enda fer auglýsingin víða, jafnt í netheimum sem á helstu stöðum bæjarins.

,, Við birtum hana á síðunni okkar, bloggsíðum, sendum til vina og vandamanna og prentum svo út nokkur eintök og förum með í fyrirtæki í bænum," sagði Jóna. ,,Þetta á að ná til flestra, svo er skjávarp hér í bænum sem er auglýsingasjónvarp sem margir fylgjast með, það eru skjáir í öllum verslunum bæjarins sem fólk sér þegar það bíður á kassa og svo framvegis."

Sindraliið er mjög ungt að árum og flestir leikmenn liðsins eru annað hvort í 3. flokki félagsins eða nýkomnar upp í annan flokkinn. Allt að fimm leikmenn úr 3. flokki hafa verið í byrjunarliðinu hjá Sindra í 1. deildinni og tvær þeirra, sem eru á yngra ári í þriðja flokki eru fastamenn í byrjunarliði. Elstu leikmennirnir eru hinsvegar þjálfararnir Jóna Benný og Sandra sem eru 28 og 29 ára. Þær gera fleira óvenjulegt því fyrir leiki liðsins gera þær eitthvað óvænt fyrir leikmennina.

,,Við þjálfararnir erum alltaf með eitthvað með eitthvað óvænt fyrir heimaleikina sem við gerum fyrir leikmennina," sagði Jóna. ,,Í leiknum í fyrrakvöld lágu rauðar rósir í klefanum hjá þeim og það var búið að vefja um þær persónulegum skilaboðum frá okkur þjálfurunum til hvers og eins leikmanns um þeirra ágæti, til að peppa þær upp fyrir leikinn. Þetta virkar rosalega vel, í stað þess að vera með ægilegar ræður höfum við talað við hvern og einn og það hefur komið mjög vel út og hefur gengið ágætlega," sagði Jóna Benný að lokum í samtali við Fótbolta.net í gær.

Hér að neðan má sjá allar auglýsingar liðsins í ár auk mynda sem prýddu auglýsingar liðsins 2003 og 2004.


















Athugasemdir
banner
banner