Heil umferð fór fram í fyrstu deild karla í kvöld. ÍBV og Selfoss unnu bæði og færðust nær sæti í Landsbankadeildinni en Stjarnan gerði jafntefli við Þór á heimavelli. ÍBV hefur nú 40 stig á toppnum, Selfyssingar eru með 37 stig og Stjarnan 31 stig.
Víkingur Ólafsvík og Leiknir gerðu jafntelfi, KA lagði Njarðvík og Víkingur Reykjavík og KS/Leiftur skildu einnig jöfn. Hér að neðan má sjá umfjallanir um leikina
Smellið hér til að skoða stöðuna
Stjarnan 1 - 1 Þór:
1-0 Daníel Laxdal (30)
1-1 Hreinn Hringsson (69)
Það voru fínar aðstæður í Garðabænum í dag, gervigrasið slétt og sígrænt að vanda og sólin skein glatt. Guðni Rúnar Helgason lék sinn fyrsta leik í Stjörnutreyjunni og tók stöðu miðvarðar í fjarveru Kára Ársælssonar sem er farinn út til náms í Bandaríkjunum.
Leikurinn byrjaði mjög rólega en leikurinn fór þó meira fram á helmingi Þórsara fyrstu 20. mínúturnar. Fyrsta marktækifæri kvöldsins leit ljós á 22.mínútu þegar Björn Pálsson átti frábæra fyrirgjöf á Þorvald Árnason, sem skallaði yfir frá markteig. Stjörnumenn sóttu áfram og voru aðgangsharðir upp við mark Þórsara og þeirra næsta færi kom á 26.mínútu þegar Ellert Hreinsson átti frábæran skalla að markinu. Spartverjar, stuðningsmenn Stjörnunnar, sáu boltann nánast inni og voru byrjaðir að fagna en Árni Kristinn Skaftason markvörður Þórs var þó ekki á þeim buxunum að leyfa þeim að fagna of mikið og varð frábærlega á línu. Árni átti nokkrar stórkostlegar markvörslur í leiknum í dag og hélt Þórsurum oft á tíð á floti.
Fyrsta mark dagsins leit svo ljós á 30.mínútu og það var ekki af ódýrari gerðinni. Fyrirliði Stjörnunnar, Daníel Laxdal lék sem miðvörður í dag en skellti sér þó í sóknina af og til. Það bar árangur, þegar Birgir Hrafn Birgisson fékk boltann í horninu, sendi hann út við teiginn þar sem Daníel var mættur og hann smellti boltanum í fjærhornið yfir Árna Kristinn, gjörsamlega óverjandi fyrir hann. Frábært mark og Stjörnumenn verðskuldað komnir með forystuna.
Daníel og bróðir hans Jóhann Laxdal, bakvörður Stjörnunnar, fögnuðu markinu vel og tóku stórkostlegt fagn en sögur herma að það hafi verið æft á Þjóðhátíð í eyjum.
Þórsarar virtust vakna aðeins til lífsins en það dugði ekki lengi og því var staðan í hálfleik 1-0 fyrir heimamenn.
Á 51. mínútu komst Þorvaldur Árnason í dauðafæri. Hann fékk þá sendingu utan af kanti frá Ellerti Hreinssyni en skalli hans fór beint á markmanninn. Þórsarar gerðu í kjölfarið breytingu á sínu liði þegar Lárus Orri þjálfari Þórs ákvað að hækka meðalaldur sinna leikmanna á vellinum og tók hinn unga Atla Sigurjónsson út af og setti gamla brýnið Hlyn Birgisson inná. Sú breyting skilaði sér þó ekki strax því á 59. mínútu átti Andri Sigurjónsson frábært skot að marki. Boltinn barst til hans eftir barning í teignum og Andri lyfti boltanum, tók hann svo á lofti og skaut baneitruðu skoti en hann hafnaði í slánni og staðan því áfram óbreytt.
Lárus Þór ákvað að setja annan reynslumikinn leikmann inná, Ibra Jagne sem kom inn fyrir Sigurð Marinó Kristjánsson á 64. mínútu og sú breyting skilaði sér fimm mínútum seinna. Þórsarar fóru þá í sókn, það kom hár bolti inn á teiginn þar sem Gísli Páll Helgason skallaði boltann fyrir fætur Hreins Hringssonar. Hann var þar nánast óvaldaður og lét ekki bjóða sér það tvisvar heldur skaut góðu skoti á markið af stuttu færi og Bjarni Þórður í marki Stjörnunnar gat ekkert við því gert. Báðir fyrirliðarnir því búnir að skora fyrir sín lið og staðan jöfn, 1-1.
Árni Kristinn hélt áfram að verja eins og berserkur og hann varði frábærlega á 72. mínútu þegar Halldór Orri átti skot að marki eftir fyrirgjöf frá Andra Sigurjónssyni. Stjörnumenn gerðu svo tvær breytingar á sínu liði þegar Baldvin Sturluson og Zoran Stojanovic komu inn á fyrir þá Þorvald Árnason og Andra Sigurjónsson.
Á 82. mínútu átti sér stað skondið atvik. Boltinn barst í átt að marki Þórsara og Árni kom út úr markinu og þurfti að fara út fyrir teig til að hreinsa. Hann varð á undan Halldóri Orra sem hljóp áfram í átt að markinu og var þar með kominn inn fyrir vörn Þórsara. Árni sendi boltann hinsvegar beint á Baldvin Sturluson sem sendi boltann í háum boga í átt að marki Þórs og virtist boltinn á leiðinni inn. Halldór var ennþá fyrir innan vörn Þórs en áttaði sig á því og stóð því grafkyrr og var því ekki rangstæður. Hann hefur þó horft grátlega á eftir boltanum sem rúllaði áfram rétt framhjá markinu og Þórsarar mega teljast stálheppnir með að hafa sloppið þarna.
Síðustu mínútur leiksins voru fjörlegar þar sem Stjörnumenn voru í aðalhlutverki. Fyrst slapp Zoran Stojanovic inn fyrir vörn Þórs en Árni Kristinn átti frábært úthlaup og kom boltanum í burtu. Halldór Orri Björnsson átti svo frábært skot á 90. mínútu en Árni Kristinn var vandanum vaxinn líkt og áður og sá við honum. Á 92.mínútu átti sér svo stað umdeilt atvik, þar sem Stjörnumenn vildu fá vítaspyrnu. Halldór Orri var við það að sleppa í gegnum vörnina og tók á rás í átt að marki Þórs. Varnarmaður Þórsara hélt í við hann og virtist toga þónkkuð duglega í Halldór, sem féll ekki við en vildi fá vítaspyrnu þar sem hann taldi sig hafa verið rændan marktækifæri. Dómari leiksins, Guðmundur Ársæll Guðmundsson var þó ekki á sama máli og Þórsarar sluppu með skrekkinn.
Guðmundur flautaði svo til leiksloka nokkrum andartökum síðar og leikurinn endaði því með jafntefli 1-1. Á stuðningsmönnum Þórs mátti heyra að þeir hefðu verið sáttir með jafnteflið og töldu sig jafnvel hafa stolið stiginu á meðan Stjörnumenn horfðu sáran á eftir tveimur stigum í toppbaráttunni við ÍBV og Selfoss. Það er því ljóst að það stefnir í hörkuleik á föstudaginn í Garðabæ þar sem toppliðin Selfoss og Stjarnan mætast.
Fótbolti.net, Garðabær - Rögnvaldur Már Helgason.
Víkingur 1 - 1 KS/Leiftur
0-1 Agnar Þór Sveinsson
1-1 Egill Atlason
Rautt spjald Skúli Jónsson (Víkingur) (93)
Víkingar og KS/Leiftur gerðu 1-1 jafntefli í Víkinni í kvöld. Agnar Þór Sveinsson kom KS/Leiftri yfir áður en að Egill Atlason jafnaði metin fyrir heimaenn.
Skúli Jónsson spilaði sinn fyrsta heimaleik fyrir Víkinga í kvöld og hann fékk að líta rauða spjaldið á síðustu mínútu leiksins.
Víkingar voru meira með boltann fyrsta stundarfjórðunginn og gestirnir að norðan beittu skyndisóknum.
Það gerðist voða lítið fyrir framan markið fyrr en eftir 20 mínútur þegar að Grétar Örn Sveinsson, leikmaður KS/Leifturs átti skot sem að Ingvar Kale varði í horn.
Úr horninu barst boltinn út fyrir teig og Agnar Þór Sveinsson skoraði með viðstöðulausu skoti í samskeytin, Ingvar Kale markvörur varði boltann inn.
Leikurinn þróaðist áfram á sama hátt og hann hafði þróast og Þorvaldur Sveinn Sveinsson leikmaður Víkinga átti ágætis skalla sem fór rétt framhjá.
Fjórum mínútum síðar lék Pétur Svansson á varnarmann norðanmanna og kom með sendingu á Egil Atlason í vítateignum og Egill skallaði knöttinn í netið, 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.
KS/Leiftur voru betri aðilinn í seinni hálfleiknum og Christian Hemberg var nærri því að koma þeim yfir á ný þegar að hann komst í gegn og ætlaði að lyfta boltanum yfir Ingvar Kale í marki Víkinga og tókst það, en knötturinn endaði í þverslánni.
Víkingar lágu afar aftarlega á vellinum og voru alls ekki beittir fram á við. Þeir vildu fá vítaspyrnu þegar að tæpar 25 mínútur voru til leiksloka, en varnarmaður gestanna virtist frá knöttinn í höndina.
Skúli Jónsson, sem að hafði átt góða innkomu í Víkingsliðið átti fínan sprett sem endaði með skoti sem að Þorvaldur Þorsteinsson markvörður KS/Leifturs varði. Á lokamínútu uppbótartíma fékk Skúli síðan reisupassann fyrir tæklingu á Þorvaldi.
Eftir leikinn eru Víkingar ennþá í sjöunda sæti 1.deildarinnar og KS/Leiftur ennþá á botninum.
Fótbolti.net, Fossvogur - Davíð Atlason.
Fjarðarbyggð 0 - 1 ÍBV:
0-1 Agustine Nsumba
Logn, skýjað og um tíu stiga hiti var þegar ÍBV kom í heimsókn til Fjarðabyggðar. Leikurinn byrjaði rólega og ekki mikið um færi en mikil barátta var í báðum liðum og ætluðu leikmenn greinilega að leggja sig alla fram í leiknum.
Á 22. mínútu var brotið á Antoni Bjarnasyni leikmanni ÍBV rétt fyrir utan vítateigshorn Fjarðabyggðar. Anton tók spyrnuna sjálfur sem var slök og fór beint í varnarvegg Fjarðabyggðar.
Á 27. mínútu fékk Viktor Jónasson, nýjasti meðlimur Fjarðabyggðarliðsins, boltann við miðjuna og sendi svo flotta stungusendingu inn fyrir vörn ÍBV á Pétur Geir Svavarsson. Pétur missti boltann hins vegar of langt frá sér og Albert Sævarsson hinn gamalreyndi markmaður ÍBV náði boltanum.
Tíu mínútum síðar braut Guðmundur Bjarnason leikmaður Fjarðabyggðar á Augustine Nsumba rétt fyrir utan teig. Guðmundur fékk gult spjald fyrir vikið. Spyrnan sem fylgdi í kjölfarið var mjög slök.
Á 39. mínútu fékk Atli Heimisson sóknarmaður ÍBV boltann nálægt miðju. Hann rak boltann óáreittur í átt að marki Fjarðabyggðar og náði fínu skoti vel fyrir utan teig en Srdjan Rajkovic, sem var valinn leikmaður seinustu umferðar, varði vel.
Á 41. mínútu komst Stefán Þór Eysteinsson kantmaður Fjarðabyggðar upp vinstri kantinn og fór létt framhjá Bjarna Hólm varnarmanni ÍBV. Stefán náði fínu skoti í fjærhornið en Albert Sævarsson náði til boltans og blakaði honum í horn.
ÍBVbyjaði seinni hálfleikinn betur og fyrsta alvöru færi þeirra kom á 52. mínútu en þá kom sending frá vinstri inn í teig Fjarabyggðar sem David Hannah skallaði í burtu en boltinn fór beint til Augustine Nsumba sem setti boltann snyrtilega framjá Rajko í markinu ofarlega í fjærhornið. Staðan orðin 0-1.
Augustine Nsumba var aftur á ferðinni á 58. mínútu þegar hann snéri af sér tvo miðjumenn Fjarðabyggðar og lét vaða á markið af löngu færi. Boltinn lenti í utanverðri stönginni og útaf.
Á 68. mínútu kom fyirgjöf inn í teig Fjarðabyggðar sem Rajkovic blakaði í burtu en hann var tekinn niður í leiðinni af einum leikmanni ÍBV. Rajko fékk aukaspyrnu en Fjarðabyggðarmenn vildu fá gult spjald á leikmann ÍBV en það endaði bara með því að Haukur Ingvar, fyrirliði Fjarðabyggðar, fékk gult spjald fyrir mótmæli.
Á þessum tíma var Fjarðabyggð búið að gefa í og komist inn í leikinn aftur. Seinustu 20 mínútur leiksins pressuðu Fjarðabyggðarmenn vel á ÍBV. Á 86. mínútu komust Fjarðabyggðarmenn í skyndisókn. Stefán Þór fékk boltann við miðjuna og gaf upp kantinn á Jóhann Inga Jóhannsson sem kom boltanum fyrir mark ÍBV en fyrirliði þeirra bjargaði á síðustu stundu.
Á 88. mínútu kom Atli Heimisson sóknarmaður ÍBV allt of seint í tæklingu og tók niður leikmann Fjarðabyggðar og Atli fékk gult fyrir vikið. Fjarðabyggð hélt áfram að pressa á ÍBV en allt kom fyrir ekki og leikmenn ÍBV uppskáru 0-1 sigur á liðið Fjarðabyggðar.
Fótbolti.net, Eskifirði - Höskuldur Björgúlfsson.
Víkingur Ó. 1 - 1 Leiknir:
0-1 Jakob Spangsberg (11)
1-1 Josip Marosevic (67)
Fyrsta færi leiksins kom á sjöttu mínútu þegar Leiknismenn áttu skot, fór það af varnarmanni Víkings og var á leið í netið en Snæbjörn Aðalsteinsson blakaði boltanum vel yfir.
Á elleftu mínútu misstu Víkingar boltann klaufalega í vörninni, boltinn barst til Jakobs Spansberg sem lagði hann örugglega í hornið hægra meginn óverjandi fyrir Snæbjörn.
Á 35. mínútu fengu Víkingar hornspyrnu, úr henni átti Alfreð Elías Jóhannssonh hörkuskalla að marki Leiknis en Valur Gunnarsson varði meistaralega. Víkingur fékk aðra hornspyrnu og þá björguðu leiknismenn á línu.
Ekki var mikið um opin færi í seinni hálfleik sem einkenndist að mikilli baráttu milli liðanna.
Á 68. mínútu fengu Víkingar hornspyrnu þar sem boltinn datt niður í markteiginn þar sem Josip Marosevic er fyrstur að átta sig og kom boltanum yfir línunna. Staðan orðinn 1-1 og allt í járnum.
Á 83.mínútu fengu Leiknismenn aukaspyrnu af 20 metra færi, Vigfús Jósepsson tók hana yfir vegginn en beint á Snæbjörn sem var vel staðsettur.
Marínó Þorsteinsson flautaði leikinn af og geta bæði lið verið sátt með jafntefli.
Selfoss 2 -0 Haukar:
1-0 Sævar Þór Gíslason (27)
2-0 Viðar Örn Kjartanson (83)
Selfyssingar tóku á móti Haukum á Selfossvelli í kvöld. Aðstæður til að spila fótbolta voru frábærar, logn, sól og jafnvel mætti helst kvarta yfir hitanum. Leikurinn var mikil skemmtun og endaði þannig að Selfyssingar unnu 2-0, eftir að hafa í tvígang bjargað á línu og einnig misnotuðu Selfyssingar vítaspyrnu.
Leikurinn byrjaði þó rólega og voru liðin að þreifa á hvort öðru og greinilega gagnkvæm virðing. Fyrsta færi leiksins kom á 14. mínútu, er Kristján Óli Sigurðsson vann boltann gaf á Sævar Þór Gíslason og hann var tekinn niður inn í teig og réttilega dæmt víti. Henning Jónasson fór á punktinn, en negldi boltanum í þverslánna. Mínútu seinna skoruðu Haukar en markið réttilega dæmt af vegna brots.
Á 20. mínútu átti Kristján Óli skot yfir eftir ágætis sókn. Mínútu seinna gaf Jón Sveinsons boltann inn á Andra Frey Björnsson og góður kross frá honum var illa misnotaður af Sævari Þór. Á 24. mínútu átti tók Kristján Óli aukaspyrnu yfir mark Haukamanna. En á 26. mínútu átti Haukamaðurinn Hilmar Rafn Emilsson skot frá vítateig sem Jóhann Ólafur Sigurðsson varði ævintýralega. Í næstu sókn átti Ásgeir Börkur Ásgeirsson góðan sprett upp kantinn og kom með fyrirgjöf inn í teig, þar var brotið á Kristjáni Óla, góður dómari leiksins notaði hagnaðarregluna og Sævar Þór fylgdi á eftir og hamraði boltanum í netið með vinstri. Staðan orðin 1-0 fyrir Selfoss.
Á 36. mínútu átti Boban Jovic skot rétt framhjá eftir góða sókn. Mínútu seinna var Boban svo fluttur rotaður af velli og keyrður burtu með sjúkrabíl, en meiðslin ekki alvarleg samkvæmt síðustu fréttum. Á 39. mínútu fékk Viðar Örn Kjartansson sendingu inn fyrir, Atli Jónasson í marki Hauka las leikinn vel kom út á móti og pressaði Viðar Örn. Boltinn rúllaði svo rétt framhjá stöng Haukamarksins. Fyrri hálfleikur jafn, en Selfyssingar yfir 1-0 og nokkuð sanngjarnt.
Haukar byrjuðu mun betur í seinni hálfleik og þegar tíu mínútur voru búnar bjargaði fyrirliði Selfyssinga á línu eftir bylmingsskot frá Ásgeiri Þór Ingólfssyni. Tveimur mínútum seinna átti Edilon Hreinsson skot í hliðarnetið á marki Selfyssinga. Haukar áttu leikinn fyrsta korterið og ljóst að hálfleiksræða Andra Marteinssonar virkaði vel á þá. En á 61. mínútu komust þrír Selfyssingar í gegn og aðeins Þórhallur Dan var til varnar, en Þórhallur er eldri en tvævetur og las sendingu frá Ásgeiri Ásgeirssyni og hirti boltann.
Á 65. mínútu átti Hilmar Geir Eiðsson gott skot úr aukaspyrnu en það fór rétt framhjá. Tveimur mínútum seinna átti Hilmar Geir góðan skalla, sem Jóhann Ólafur í marki Selfoss varði vel. Eftir þetta færi róaðist leikurinn aðeins og næsta færi kom á 79. mínútu er Óli Jón Kristinsson skaut yfir frá vítapunkti. Mínútu seinna átti Selfyssingurinn Ásgeir Ásgeirsson góða sendingu inn á Sævar Þór, hann tók tvo á en skot hans endaði í hliðarnetinu. Á 83. mínútu fékk Viðar Örn boltann á hægri kanti, hann tók boltann niður og tók í leiðinni Þórhall Dan á. Viðar Örn var kominn einn í gegn og hann kann restina upp á tíu og átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Atla í marki Hauka.
Staðan orðin 2-0 og eftir þetta drápu Selfyssingar leikinn niður og ekkert markvert gerðist. Leikurinn einfaldlega fjaraði út við annað mark Selfyssinga. Nokkuð sanngjarn sigur Selfyssinga staðreynd, en fyrst og fremst góðum fótboltaleik lokið. Bæði lið spiluðu fótbolta allan tíman og var þetta örugglega einn af bestu leikjum fyrstu deildar í sumar.
Ummæli eftir leik:
Jón Sveinsson fyrirliði Selfyssinga:
“Þetta var fyrst og fremst vinnusigur, við spiluðum nákvæmlega eins og við lögðum leikinn upp. Þetta var jafn leikur tveggja góðra liða. Bæði lið fengu sín færi og liðin þekkja hvort annað vel og gagnkvæm virðing ríkir þeirra á milli. Fyrri leikur liðana var líka mjög góður knattspyrnuleikur, enda leikir tveggja vel spilandi liða. Mér fannst við hafa þetta í hendi okkar en þurftum samt að hafa mikið fyrir sigrinum. Nú er mjög erfiður leikur framundan og ef hægt er tala um sjö stiga leik þá er þetta hann. Við mætum tilbúnir í Garðabæinn og ég hvet sem flesta til að mæta á leikinn."
Þórhallur Dan Jóhannsson fyrirliði Hauka:
,,Við vorum alveg inn í leiknum allan tíman, en þeir voru mjög klókir. Selfyssingar gerðu góð mörk í þessum leik og eiga það fyllilega skilið að vera á þeim stað sem þeir eru, þeir hafa verið mjög stabílir í sínum leik. Það voru frábærar aðstæður til að spila fótbolta í kvöld. Maður er svo langt frá því að vera heiladauður eftir leikinn, ég held ég hafi skallað boltann einu sinni í leiknum og það er eitthvað annað en í sumum leikjum í þessari deild."
Aðspurður um seinna markið þar sem Viðar Örn fór illa með hann: ,,Þetta var virkilega vel gert hjá stráknum, ég var búinn að vera með hann allan leikinn en svo tekur hann mig einu sinni og nýtir færið 100%. Þetta gera bara góðir framherjar, ef þessi strákur heldur áfram á rettu brautinni verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni. Eins og staðan er í dag vona ég að Selfoss fari upp, þeir eiga það skilið og ég held þeir séu tilbúnir í það.
Sævar Þór Gíslason skoraði sitt 12. mark í deildinni í kvöld og heldur efsta sæti yfir markahæstu menn og er þar tveimur mörkum á undan Atla “800” Heimissyni.
,,Þetta var virkilega sætur sigur og alltaf gaman að spila á móti gamla félaga mínum, Þórhalli Dan. Sérstaklega er þó gaman að hann hefur ekki náð að stoppa mig í sumar og er ég búinn að setja þrjú á hann. Þó svo hann sé farinn að eldast, eins og menn eru að tala um, þá er hann alltaf jafn fallegur."
KA 2 - 1 Njarðvík:
0-1 Aron Smárason (30)
1-1 Arnar Már Guðjónsson (43)
2-1 Elmar Dan Sigþórsson (81)
KA-menn náðu að fylgja eftir góðum sigri frá því í síðustu umferð gegn Haukum með því að leggja Njarðvík á Akureyri nú undir kvöld.
Upphafsmínúturnar voru fremur rólegar og var lítið um marktilraunir á báða bóga. KA voru heldur sterkari aðilinn. En á 30. mínútu komust gestirnir í Njarðvík yfir þvert gegn gangi leiksins. Alexander Magnússon átti þá góðan sprett upp kantinn vinstra megin og gaf fyrir þar sem Aron Már Smárason kom á ferðinni og skallaði boltann af krafti í netið. Eftir markið sótt KA menn en meira að marki Njarðvíkur. En eftir markið virtist eins og Njarðvíkingar ætluðu sér að halda fengnum hlut.
Allt útlit var fyrir að Njarðvíkingar myndi leiða leikinn er liðin gengu til búningsherbergja en Skagamennirnir tveir í liði KA, Andri Júlíusson og Arnar Már Guðjónsson voru á öðru máli. Andri lagði boltann snyrtilega á Arnar Má eftir að hafa fengið langa sendingu úr vörninni og Arnar tók eina snertingu og þrumaði boltanum ofarlega í stöng og inn óverjandi fyrir Ingvar Jónsson í marki Njarðvíkur. Sannkallað draumamark hjá Arnari sem hefur verið í fantaformi í síðustu leikjum fyrir KA. Og staðan því 1-1 í leikhléi.
Síðari hálfleikur var mjög bragðdaufur. KA voru hinsvegar alltaf skrefinu á undan Njarðvíkingum og voru líklegri til að skora.
Það var síðan á 81. mínútu sem sigurmarkið kom. Njarðvíkingum gekk þá illa að koma boltanum burt eftir horn KA manna og boltinn barst til Dean Martin sem átti laglega fyrirgjöf á fyrirliða KA, Elmar Dan Sigþórsson sem skallaði boltann framhjá Ingvari Jónssyni í markinu og heimamenn komnir með forystuna. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og lokatölur því 2-1 KA í vil.
Ummæli eftir leik:
Andri Júlíusson leikmaður KA
,,Við vitum allir að við getum spilað betur, en flott að ná þessum sigri sem er okkar annar í röð. Sterkt að ná stigum þegar við spilum ekkert rosalega vel, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik, það var mikilvægt að fá þessa þrumu frá Arnari Má og svo fannst mér við miklu betri í seinni hálfleik og ég var handviss um að við myndum skora og vinna sem varð svo raunin sem betur fer," sagði þessi hressi Skagamaður sem er á láni hjá KA-mönnum út tímabilið en þetta var hans fyrsti leikur á Akureyrarvellinum í sumar.
,,Það var bara gaman að spila hérna, komst lítið í takt við leikinn í fyrri hálfleik, en ákvað að rífa mig upp í þeim seinni og hann var skárri, eins og hjá öllu liðinu," hélt hann áfram og hrósaði stuðningsmönnunum. ,,Ég var vel sáttur með Vini Sagga, þetta er skemmtilegur hópur sem leggur sig alla í þetta, skemmtilegir strákar sem að hafa greinilega mætt á einhverja Skagaleiki því þeir voru með lagið mitt á hreinu og það var gaman að vera tekinn svona vel inn og ég hlakka til að heyra í þeim í næsta leik á Siglufirði."
,,Næsti leikur er á móti KS/Leiftri, sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og koma væntanlega vel stemmdir en svo lengi sem að við spilum okkar leik þá hef ég engar áhyggjur því að við skorum alltaf mörk og þá er bara að halda hreinu, meira spáum við ekki í, tökum einn leik fyrir í einu."
Fótbolti.net, Akureyri - Aðalsteinn Halldórsson.
Athugasemdir