Hér að neðan má sjá umfjallanir um leik Njarðvíkur og Hauka og leik KS/Leifturs og KA í fyrstu deildinni í kvöld.
Mark á loka mínútunum tryggði Njarðvík sigur:
Njarðvík 2- 1 Haukar:
1-0 Rafn Markús Vilbergsson
1-1 Hilmar Ran Emilsson
2-1 Marko Moravcic
Það var afar fáir áhorfendur mættir til leiks þegar leikur Njarðvíkur og Hauka var flautaður á, eða rétt rúmlega 30 manns. Það voru því ekki margir sem sáu fyrsta færi leiksins en það átti Aron Már Smárason. Hann fékk boltann á lofti inn í teig einn á móti Atla Jónassyni en skot hans nokkuð hátt yfir mark gestana.
Gestirnir voru vart með í fyrri hálfleik og Njarðvíkingar sóttu mun meira í fyrri hálfleik með góðan vind í bakið. Kristinn Örn Agnarsson átti hörkuskot langt fyrir utan teig en Atli þurfti að hafa sig allan við til að verja boltann í horn, Albert Högni Arasson fyrrum leikmaður og fyrirliða Hauka tók hornspyrnuna sem endaði hjá Kristni sem átti skalla en Atli varði vel en þrátt fyrir að skalli Kristins hafi farið beint á Atla gerði hann afar vel með því að verja boltann.
Mínútu síðar slapp Aron Már einn innfyrir en Atli sem hélt Haukum gjörsamlega á floti í fyrri hálfleik kom vel út á móti og varði skot Arons vel.
Lítið sem ekkert spil var hjá Haukum í fyrri hálfleik og héldu heimamenn boltanum nokkuð vel, eftir þessar fjörugu mínútur í byrjun leiks hægði örlítið á leiknum. En það var aftur á móti eftir hálftíma leik sem heimamenn komust yfir. Eftir tilraun Þórhalls Dan að tækla boltann var Rafn Markús Vilbergsson undan í boltann og var því kominn einn á móti Atla, Rafn gerði vel og skaut í nærhornið framhjá Atla. Staðan orðin 1-0, fyllilega sanngjarnt.
Þremur mínútum síðar áttu Haukar fyrsta skot á markið, en eftir að Marko Valdimar Stefánsson hafi brotið á framherja Hauka, Hilmari Emilssyni rétt fyrir utan teig vinstri megin tók Edilon Hreinsson aukaspyrnuna, vel útfærð spyrna Edilons var aftur á móti varin vel af Ingvari Jónssyni í marki Njarðvíkur en þetta var í eina skiptið í fyrri hálfleik sem reyndi virkilega á Ingvar.
Á 37.mínútu var Óli Jón Kristinsson varnarmaður Hauka stál heppinn að vera ekki vísað af velli eftir að hár bolti frá varnarmanni Njarðvíkur fór yfir Óla Jón en hann misreiknaði boltann og fékk boltann í hendina, hvort um var að ræða óviljaverk eða ekki, ætlar undiritaður ekki að staðfesta, en eitt er þó víst að Óli Jón var virkilega heppinn að fá einungis að líta gula spjaldið frá Marinó Stein Þorsteinssyni sem dæmdi þó leikinn af stakri prýði. En hefði Óli Jón ekki handsamað boltann þá hefði sóknarmaður Njarðvíkur verið kominn einn í gegn.
Kristinn Örn átti skömmu síðar skalla rétt framhjá eftir aukaspyrnu frá Alexander Magnússyni.
Í næstu sókn áttu Njarðvíkingar besta færi fyrri hálfleiks, en eftir tvær mislukaðar tilraunir til að ná skoti að marki barst boltinn á lofti til fyrirliða Njarðvíkur, Guðna Erlendssonar sem átti skalla inn í markteig Hauka en á eitthvern ótrúleganhátt varði Atli.
Síðasta færi fyrri hálfleiks áttu heimamenn, en þá átti Alexander Magnússon skalla eftir aukaspyrnu frá Marko Valdimari en Alexander hitti boltann ekki nægilega vel og fór því boltinn framhjá, en hann var í fínu færi.
Fyrri hálfleikurinn var spilaður í meira en 50 mínútur þar sem leikmenn beggja liða þurftu að yfirgefa völlinn vegna meiðsla, Kristinn Björnsson fór af velli vegna meiðsla á fæti en hann lá í nokkrar mínútur á vellinum sárkvalinn. Eftir hálftíma leik þurfti Daniel Jones leikmaður Hauka að fara af velli eftir að hafa fengið verulega gott og mikið höfuðhögg og stór sá á honum eftir leik.
Í seinni hálfleik hafði bætt meira í vindinn og sóttu Haukamenn mun meira í seinni hálfleik, en þór er vart að varast það að það þurfti lítið til hjá Haukum að sæka mun meira í seinni hálfleik en í sá fyrri enda áttu Haukamenn einugis eitt færi í þeim fyrri.
Fyrsta færi Hauka kom ekki fyrr en á 70.mínútu en þá hafði Hilmar Emilsson prjónað sig framhjá fjórum varnarmönnum Njarðvíkur og var kominn inn í teig þeirra en heimamenn sóttu að vonum mikið á honum og náði Hilmar því ekki nægilega góðu skoti, en skot hans fór framhjá markinu.
Næsta færi Hauka kom á 78.mínútu og upp úr því kom mark. Hilmar Rafn skoraði þar sitt fyrsta mark fyrir Hauka í deildinni í sumar en þessi mikli markaskorari liðsins hefur verið mikið meiddur í sumar og undanfarin ár. Eftir að brotið hafi verið á Úlfari Hrafni Pálssyni út við endalínu hægri megin tók varamaðurinn Jónmundur Grétarsson aukaspyrnuna sem varnarmaður Njarðvíkinga hreinsaði frá en einungis út í teig þar sem Hilmar Rafn var og lagði hann boltann snyrtilega í fjær, Staðan orðin 1-1.
Eftir jöfnunarmarkið bjuggust flestir við því að gestirnir gerðu út um leikinn og kæmust yfir en raunin varð önnur, Njarðvíkingar sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni tóku sig til og byrjaðu að sækja í fyrsta sinn í seinni hálfleik. Marko Moravic kom inn á sem varamaður á 57.mínútu og hann var gríðarlega sterkur í loka kaflanum. Á 83.mínútu pressaði Marko á Atla eftir að skalli Þórhalls hafi verið of laus til baka en Atli náði að sparka í boltann en beint til heimamanna sem keyrðu á gestina, en að lokum náðu Haukar að hreinsa frá.
Á 85.mínútu átti Marko síðan skalla rétt yfir eftir sendingu frá Guðna Erlendssyni. En í næstu sókn skoraði Marko sigurmark leiksins, nú eftir fyrirgjöf frá Alberti Högna. Marko var aleinn á fjær stöng og skaut boltanum nokkuð auðveldlega í markið hjá Haukum. Varnarmenn Hauka vildu fá dæmda rangstöðu en ekki varð þeim að ósk sinni.
Haukamenn reyndu að jafna metin undir lokin en vörn Njarðvíkingana hélt þetta út og síðasta færi leiksins var Njarðvíkingana, en þá slapp Marko einn innfyrir en Atli varði enn og aftur vel en boltinn barst út í teig á Aron Má en Atli varði það af miklu öryggi.
Þetta var eins og fyrr segir síðasta færi leiksins og fóru því Njarðvíkingar með mikilvægan sigur að hólmi, 2-1. Með sigrinum komust Njarðvíkingar uppfyrir Leikni og eru því komnir í 10.sætið með 14 stig. Haukar eru enn sem fyrr í 4.sætinu en dragast með hverjum tap leiknum fjær efstu liðunum og fikra sig nær liðunum í miðjunni. En næsta lið, KA eru einungis stigi á eftir Haukum.
Ummæli eftir leik:
Ingvar Jónsson markvörður Njarðvíkinga:
,,Þetta léttir pressunni aðeins af okkur í bili, en nú er það bara að halda áfram á sömu braut, 8 stig í síðustu 5 leikjum eru mikil framför frá því sem áður hafði verið. Þetta var okkar lang besti leikur í sumar að mínu mati, Loksins kraftur í leikmönnum til að klára heilan leik. Sigurinn var fyllilega skilinn að mínu mati, fengum nokkur dauðafæri í fyrri hálfleiknum en Atli var að verja mjög vel. Vindurinn setti svip sinn á þennan leik en þetta var bara baráttu leikur frá byrjun til enda.
Fótbolti.net, Njarðvík - Arnar Daði Arnarsson.
Heppnin ekki með KS/Leiftri:
KS/Leiftur 0 - 0 KA
Pínu gola var í Siglufirði í kvöld þegar nágrannaslagur KS/Leiftur-KA fór fram og var hópur fólks mætt á völlinn.
Heimamenn í KS/Leiftri byrjuðu betur og strax á 2. mínútu fékk Ragnar Hauksson boltann utan við teig lék á einn varnarmann og náði góðu skoti en Sandor í marki KA varði vel frá honum barst boltinn á Oliver Jaeger en skot hans var máttlítið. Eftir þetta vöknuðu KA menn til lífsins og áttu nokkrar góðar sóknir.
En á 10. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu, Dean Martin tók hornspyrnuna sem endaði inn á markteig hjá KS/Leiftur og þar varð mikill darraðardans þar sem Heiðar Gunnólfsson bjargaði á línu og barst svo boltinn á Andra Fannar Stefánsson sem skaut boltanum yfir af stuttu færi.
Eftir þetta róaðist leikurinn sem einkenndist af miðjuþófi og hálffærum ekkert markvert gerðist í fyrri hálfleiknum eftir þessar fjörugu upphafsmínútur og fjaraði undan leiknum og því var staðan 0-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur átti eftir að verða fjörugri og byrjuðu heimamenn á sama krafti og þeir byrjuðu þann fyrri. Þórður Birgisson fékk ágætis færi en Sandor varði vel í markinu.
Áfram hélt leikurinn og voru heimamenn sterkari aðilinn. En á 60 mínútu fékk Þórður Birgisson boltann við miðju bogann tók boltann á brjóstkassann og negldi boltann viðstöðulaust og virtist boltinn vera á leiðinni yfir Sandor í markinu en á einhvern óskiljanlegan hátt varði Sandor frábærlega.
KA menn fengu líka sín færi sem olli ekki Þorvaldi Þorsteinssyni í marki KS/Leifturs miklum vandræðum.
Á 70 mínútu fór Ragnar Hauksson útaf og inná kom Christian Hemburg og átti hann eftir að fá færi. Stuttu eftir að hann kom inná fékk hann boltann úti á hægri kanti en fyrsta snerting var ekki nægjanlega góð og fór skot hans því himinhátt yfir úr góðu færi.
Á 75 mínútu var Christian Hemburg síðan aftur á ferðinni en þó komst hann einn innfyrir náði góðu skoti en enn og aftur var Sandor Matus vel á verði í markinu og varði frábærlega.
Eftir þetta gerðist lítið sem ekkert í leiknum og flautaði dómari leiksins Kristinn Jakobsson sem átti mjög góðann leik leikinn af lauk honum með markalausu jafntefli í slagnum um tröllaskaga.
Fótbolti.net, Ólafsfirði - Kristófer og Ingimar.
Athugasemdir