Þórsarar unnu Akureyrarslaginn
Fjórir leikir fóru fram í tuttugustu umferðinni í fyrstu deild karla í kvöld. Toppbaráttan er ennþá í algleymingi eftir að bæði Selfoss og Stjarnan unnu í kvöld. KSL/Leiftur féll eftir tap gegn Selfyssingum, Þór sigraði KA í grannaslag á Akureyri og Leiknismenn unnu mikilvægan sigur í botnbaráttunni.
Á laugardag munu Fjarðabyggð og Víkingur Ólafsvík mætast í 20.umferðinni en síðasti leikurinn er síðan á milli Njarðvíkinga og ÍBV. Þeim leik var frestað til 16.september þar sem Ingvar Jónsson markvörður Njarðvíkinga er í U21 árs landsliðinu sem hélt til Austurríkis í dag.
Smellið hér til að skoða stöðuna í deildinni
KS/Leiftur féll er Selfoss styrkti stöðu sína
Selfoss 3-1 KS/Leiftur:
1-0 Dusan Ivkovic
1-1 Grétar Sveinsson
2-1 Kristján Óli Sigurðsson
3-1 Sævar Þór Gíslason (víti)
Selfoss og KS-Leiftur áttust við á Selfossvelli í frábæru fótboltaveðri í kvöld. Fyrir leikinn var ljóst að þetta yrði mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Selfoss þurfti sigur til að halda sér í öðru sæti deildarinnar og KSL þurfti sigur til að eiga möguleika á að bjarga sér frá falli.
Á fyrstu mínútu leiksins fengu Selfyssingar horn og góð spyrna Andra Freyrs rataði á Dusan sem setti boltann í netið og staðan orðin 1-0 fyrir Selfoss og norðanmenn varla mættir til leiks. Eftir 11 mínútna leik slapp Sævar Þór í fyrsta sinn í gegnum vörn KSL, eins og hann átti eftir að gera nokkrum sinnum í leiknum, en Þorri markmaður norðanmanna lokaði markinu alveg og tók skot Sævars.
Mínútu seinna var Gretar Örn að sleppa í gegn en varnarmaður Selfyssinga Sigurður Eyberg, bjargaði vel með góðri tæklingu. Mínútu seinna átti Gretar Örn gott skot rétt framhjá Selfossmarkinu. Eftir um 20 mínútna leik lék Viðar Örn vörn norðanmann grátt er hann færði hana til vinstri og fann Sævar hægra megin, en Þorri var vel á verði og greip inn í.
Eftir 33 mínútna leik sendi Sævar Þór góða sendingu á Kristján Óla, en Þorri varði skot hans mjög vel. Mínútu seinna var Sævar aftur á ferðinni og fann nú Viðar Örn vinstra megin við sig, en skot hans fór hárfínt framhjá markvinkli KS-Leifturs.
Þegar um fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum lék Grétar Örn Sveinsson upp kantinn og let vaða rétt fyrir utan teig og markmaður Selfyssinga náði ekki að hald föstu skoti hans og inn fór boltinn. Staðan því 1-1 þegar liðinn heldu til búningsklefa.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, Selfyssingar skoruðu eftir rúmlega mínútu leik. Þá fekk Sævar boltann hægra meginn, prjónaði sig í gegn, sendi boltann fyrir og þar var Kristján Óli mættur með gamla flugskallann og hamraði boltann í netið.
Einkar glæsilegt mark hjá þeim félögum. Þremur mínútum eftir markið slapp Ásgeir Ásgeirs í gegnum vörn KSL, en varnarmaður braut augljóslega á honum inn í teig en ekkert dæmt.
Eftir þetta gerðist lítið markvert, Selfyssingar heldu bolta vel og sköpuðu sér nokkur hálffæri eins og í fyrri hálfleik, nema í þeim seinni voru KSL ekki ógnandi á móti. Á 87. mínútu fékk Sævar dauðafæri er hann slapp í gegnum vörn KSL, en Þorri í marki þeirra varði vel.
Tveimur mínútum seinna fékk Sævar Þór alveg eins færi eftir að hafa leikið á varnarmann, en nú lék hann á Þorra í marki norðanmann, sem sá þann kost vænstan að klippa hann niður. Víti réttilega dæmt, Sævar tók spyrnuna sjálfur og átti ekki í vandræðum með að skora. Staðan því orðin 3-1 fyrir Selfoss.
Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma átti Oliver Jaeger skot í þverslá og var það besta færi KS-Leifturs í seinni hálfleik. Selfyssingar unnu því sannfærandi 3-1 sigur í leiknum, en þeir spiluðu ekki vel í fyrri hálfleik, en risu svo upp í seinni hálfleik og áttu þá leikinn. Siglfirðingar sýndu á köflum ágætis leik, en það var eins og herslumuninn vantaði til að gera tilkall til einhvers út úr leiknum.
Ummæli eftir leik:
Dusan Ivkovic leikmaður Selfoss:
„Þetta var góð hornspyrna hjá Andra og æfð, reyndar fór boltinn í kassan á mér en ekki í höfuð mitt, en mark er mark,” sagði Dusan Ivkovic aðspurður um mark sitt.
„ En eftir markið fannst mér vanta aðeins drápseðlið í okkur til að gera út um leikinn. Heilt yfir var þetta fínn leikur á háu tempói, við ætluðum okkur meira og því fengum við það sem við áttum skilið. Með þessum sigri færumst við skrefi nær og erum strax byrjaðir að einbeita okkur að næsta útileik“
„Þegar kom í seinni hálfleik lögðum við leikinn örlítið öðruvísi upp eftir að hafa lesið þá í fyrri hálfleik. Við vorum ákveðnir í að skora strax og það gekk eftir. En í seinni hálfleik misnotum við samt góð marktækifæri. Við stjórnuðum leiknum og mér fannst markið okkar liggja þarna, það kom full seinnt fyrir minn smekk.“
„Ég er virkilega ánægður með okkar sigur, en í leiðinni er sárt að horfa á eftir mínu gamla félagi niður. Ég óska þeim alls hins besta í framtíðinni.“
„Það er auðvítað æðislegt að spila fyrir 500-600 manns í hverjum heimaleik eins og er hér á Selfossi Við skuldum áhorfendum að spila áfram þann bolta sem við spiluðum í seinni hálfleik,“” sagði Dusan Ivkovic varnarmaður Selfyssinga.
Halldór Orri bjargaði Stjörnunni á elleftu stundu
Víkingur 1-2 Stjarnan:
1-0 Jimmy Höyer ('40, víti)
1-1 Magnús Björgvinsson ('48)
1-2 Halldór Orri Björnsson ('90)
Stjarnan tryggði sér sigur á Víkingum í 1. deildinni í kvöld með marki í uppbótartíma og þar með hélt liðið sér áfram í baráttunni um sæti í Landsbankadeildinni á komandi leiktíð.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og þá sérstaklega fyrri hálfleikurinn þar sem lítið gerðist. Mest spennandi var að fylgjast með stórhættulegum hornspyrnum Garðbæinganna sem voru á annan tuginn og hver annarri hættulegri. Ekkert kom þó út úr þeim enda voru varnarmenn Víkinga og Ingvar Kale vel á verði og björguðu oft þegar hurð skall vel nærri hælum.
Víkingar náðu forystunni í leiknum undir lok fyrri hálfleiks. Egill Atlason átti þá góðan einleik í átt að marki Stjörnumanna og þegar hann var kominn inn í vítateiginn braut Guðni Rúnar Helgason á honum og Hans Scheving dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Víkingar vildu að Guðni fengi brottvísun en Hans var ekki á sama máli og ekkert spjald fór á loft.
Bjarni Þórður Halldórsson markvörður Stjörnunnar brunaði út að hliðarlínu eftir að dómurinn var kveðinn upp og hefur eflaust fengið góð ráð um hvernig verja skyldi frá Gunnari Kristjánssyni sem á sama tíma stillti boltanum upp á vítapunktinn. Bjarni brunaði til baka en á leiðinni skiptu Víkingar um vítaskyttu. Danski bakvörðurin Jimmy Höyer tók þannig spyrnuna, hann skoraði örugglega framhjá Bjarna og staðan orðin 1-0 fyrir Víkingum, þvert gegn gangi leiksins.
Þremur mínútum síðar munaði litlu að Víkingar kæmust í 2-0. Egill Atlason sneri sér þá laglega í vítateignum og þrumaði að marki Stjörnunnar en skot hans fór í þverslá og niður en náði þó aldrei að fara yfir marklínuna og staðan því áfram 1-0 þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikurinn var öllu fjörugri og það voru ekki nema tæpar þrjár mínútur liðnar af honum þegar Stjörnumenn höfðu jafnað metin. Magnús Björgvinsson fékk boltann þá sendann innfyrir vörn Víkinga. Ingvar Kale markvörður Víkings ætlaði á móti honum en hikaði og Magnús náði því boltanum og lagði laglega framhjá Ingvari og í netið. Kristján Vilhjálmsson miðvörður Víkinga var við það að ná boltanum en virtist detta og markið því staðreynd.
Allt benti til þess að leikurinn endaði í jafntefli og með því hefði ÍBV komist upp í Landsbankadeildina enda ljóst að gæti Stjarnan þá ekki náð þeim að stigum. Halldór Orri Björnsson sem var valinn leikmaður 18. umferðar hér á Fótbolta.net var hinsvegar á öðru máli og á lokamínútunni tryggði hann sínum mönnum sigurinn með góðu lágu skoti vinstra megin á markið án þess að Víkingar kæmu neinum vörnum við og sigur Stjörnunnar staðreynd.
Fótbolti.net, Fossvogi - Hafliði Breiðfjörð.
Þórsarar unnu grannaslaginn:
KA 1-3 Þór:
0-1 Andri Júlíusson ('18)
1-1 Ibra Jagne ('79)
1-2 Gísli Páll Helgason ('81)
1-3 Alexander Linta ('84, víti)
Rautt spjald: Elmar Dan Sigþórsson ('83), Andri Júlíusson ('88) báðir úr KA.
Í kvöld tóku KA menn á móti grönnum sínum úr Þór í 20. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Flestir bjuggust við jöfnum og skemmtilegum leik enda nágrannaslagur að bestu gerð. KA menn byrjuðu leikinn betur og á 18. mínútu kom Andri Júlíusson KA mönnum með laglegu marki eftir góðan undirbúning frá Dean Martin. Allt virtist benda til sigurs KA manna, en gestirnir úr þorpinu voru ekki sammála því og með þremur mörkum frá Ibra Jagne, Gísla Pál og Alexander Linta á síðustu 11 mínútum leiksins tryggðu Þórsurum öll þrjú stigin í kvöld.
Þórsarar byrjuðu leikinn betur og strax á 9. mínútu dró til tíðinda þegar brotið var á einum leikmanni Þórs innan vítateigs og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Vítaspyrnuna tók Hreinn Hringsson en spyrnan var ekki nægilega góð og Sandor Matus markvörður KA gerði sér lítið fyrir og varði knöttinn í stöngina og út aftur þar sem KA menn náðu að bægja hættunni frá. Þórsarar voru sterkari á fyrstu mínúturnar og á 16. mínútu átti Atli Sigurjónsson gott skot inn í vítateig KA manna en skotið fór rétt framhjá markinu.
Tveimur mínútum síðar tók Dean Martin á góðan sprett á hægri kanti og komst framhjá Alexander Linta. Er Dean var komin að endamörkum gaf hann góða fyrirgjöf þar sem Andri Júlíusson var óvaldaður inn í teig og skaut viðstöðulausu skoti að marki Þórsara, gott skot sem Árni átti enga möguleika á að verja og KA menn því komnir 1-0 yfir. Þórsarar voru óheppnir að jafna ekki metin á 31. mínútu þegar Ibra Jagne skallaði knöttinn rétt yfir mark KA manna eftir góða hornspyrnu frá Atla Sigurjónssonar. Mínútu síðar áttu KA menn fína skyndisókn sem endaði með skoti frá Andra Júlíussyni, gott skot en Árni Skaptason gerði vel og varði í horn. Þórsarar voru óheppnir á 39. mínútu þegar lúmskt skot frá Hreini Hringssyni endaði í stönginni. Þrátt fyrir ágætis sóknir frá báðum liðum náði hvorugt liðið að skora og þar með fóru KA menn með eins mark forystu í hálfleik.
KA menn byrjuðu seinni hálfleikinn betur en Þórsarar og strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks var Andri Júlíusson óheppinn að bæta ekki við öðru marki KA er hann átti gott skot að marki Þórs eftir góðan undirbúning frá Dean Martin, en því miður fyrir KA menn var Árni vel staðsettur og varði skot Andra. Þórsarar reyndu hvað sem þeir gátu að jafna metin og áttu nokkur ágætis hálffæri, hins vegar var Dean Martin ávallt ógnandi á hægri kanti og Alexander Linta átti í nokkrum vandræðum með Dean.
Á 73. mínútu átti Arnar Már Guðjónsson góðan sprett rétt fyrir utan vítateig Þórs sem endaði með góðu skoti af 18. metra færi en enn og aftur var Árni Skaptason vel staðsettur og varði vel. Á 79. mínútu brutu Þórsarar ísinn þegar Sigurður Marínó Kristjánsson átti laglegan sprett á hægri kanti, þvældi þrjá KA menn, er hann var kominn að endamörkum lagði hann knöttin á Ibra Jagne sem potaði knettinum yfir línuna, 1-1. Við þetta jöfnunarmark tvíefldust Þórsarar og strax tveimur mínútum síðar komust þeir yfir eftir góða skyndisókn sem endaði á að Atli Sigurjónsson gaf góða sendingu á Gísla Pál Helgason sem kláraði færið sitt mjög vel og þórsarar því komnir yfir 1-2.
Mótlætið virtist fara illa í KA menn og á 83. mínútu dró heldur betur til tíðinda. Þórsarar áttu ágætis sókn sem endaði með fyrirgjöf sem ætluð var á Hrein Hringsson en Sandor greip vel. Hins vegar þegar Hreinn sá að Sandor Matus var með knöttinn ýtti hann aðeins á Elmar Dan sem lenti á Sandor. Elmar Dan var mjög ósáttur við þeatta athæfi Hreins og hrinti Hreini Hringssyni strax niður á jörðina. Að launum fékk Elmar Dan rauða spjaldið og dæmd var vítaspyrna á KA menn þar sem knötturinn var enn í leik.
Á vítapunktinn steig Alexander Linta, spyrnan hans var örugg og Sandor Matus átti littla möguleika á að verja þessa kröftugu spyrnu Linta. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka misstu KA menn annan leikmann þegar Andra Júlíussyni var vikið af velli eftir tveggja fóta tæklingu á Hrein Hringssyni á miðjum velli. Eftir að hafa misst tvo leikmenn að velli náðu KA menn ekki að svara fyrir sig og verðskuldaður sigur Þórsara í höfn.
Ummæli vikunnar:
Hreinn Hringsson fyrirliði Þórs var að vonum ánægður með sigurinn og stigin þrjú. ,, Já,ég er sáttur með þrjú stig, er mjög ánægður. Var alveg á rassgatinu sjálfur, klúðraði víti og átti skot í stöng en strákarnir komu og sáu um þetta sjálfir. Frábært. Í sjálfu sér spilaðist leikurinn ekki eins og við vildum. Þó svo að við værum undir fannst með þeir ekki vera að gera neitt. Við vorum mikið með boltann en vorum þó kannski ekki að skapa okkur nógu góð færi. Áttum skot í stöng og þeir áttu kannski eitt skot að marki og það var mark. Svo bara tókum við þá á úthaldinu, völtuðum yfir þá síðustu 15 mínúturnar, þeir voru bara sprungnir það er ekkert flóknara en það."
,,,Þeir létu náttúrlega mótlætið hlaupa með sig í gönur, ekkert flóknara en það. Mjög fínt að vinna annan leikinn enda töpuðum við hinum á 93. mínútu. Maður býr að þessu fram að næsta Powerade móti. Þetta er alltaf gamla góða klisjan, það kemur alltaf maður í manns stað. Við erum með fullt af efnilegum strákum í liðinu, orðið efnilegur merkir náttúrlega að þú ert ekki orðinn nógu góður en getur þó orðið góður. Þessir strákar eru að fatta það núna og eru að stíga mjög vel upp, þetta er mjög flott”.
Með framhaldið sagði Hreinn: ,, Bara að sigla skútunni heim og klára þessa tvo leiki sem eftir eru. Markmiðið er að gera betur en í fyrra. Við misstum náttúrlega 5 eða 6 leikmenn í fyrra á fínum aldrei 28-30 ára. Við vissum að þetta tímabil yrði alltaf erfitt, en við erum að byggja upp og það er mjög erfitt þegar 5 og 6 leikmenn hætta alltaf á hverju ári. Gerum betur á næsta ári."
Elmar Dan Sigþórsson fyrirliði KA var að vonum svekktur í leikslok ,, Það sást alveg að við áttum ekki skilið að komast eitt núll yfir, en samt sem áður gott að ná því. En eftir að hafa komist yfir vorum við bara algjörir farþegar og sorglegt að við skyldum ekki ná okkur í gang miða við hversu hátt spennustigið var fyrir leik. Þannig að ég er frekar svekktur. Við fáum náttúrlega á okkur mark sem var mjög svekkjandi, sérstaklega á þessum tímapunkti og síðan fylgir annað í kjölfarið. Þriðja marki fannst mér reyndar vera óttarlegt djók, en þetta átti að vera klárlega aukaspyrna þegar hann hrindir mér og síðan missti ég bara einbeitinguna og gerði eitthvað vitlaust, en hann leikur þetta töluvert með en algjörlega rétt."
,,Leikurinn spilaðist langt frá því sem við ætluðum okkur. Við ætluðum að halda boltanum töluvert betur og stjórna leiknum algjörlega. Við vissum að þeir myndu kýla og það væri það eina sem þeir myndu gera. Þannig að okkar prógram klikkaði algjörlega. Við verðum náttúrlega tveimur manni færri næsta leik, en það kemur maður í manns stað og vonandi sýna þeir sitt rétta andlit. Það komur tveir ungir inn í kvöld sem algjörlega áttu að gera betur miðað við það sem þeir geta gert. Þannig að þeir bara standa sig betur næst."
Fótbolti.net, Akureyri - Sölmundur Karl Pálsson.
Leiknismenn unnu mikilvægan sigur á andlausum Haukamönnum
Haukar 0-1 Leiknir:
0-1 Jakob Spangsberg ('16)
Það var frábært fótboltaveður í Hafnarfirðinum í dag þegar Leiknismenn komu í heimsókn á Ásvelli. Leiknismenn i harðri fallbaráttu og því mikilvægt að ná stigi eða jafnvel stigum.
Leiknismenn byrjuðu leikinn á því að skora á 16.mínútu, en þar var að verki Jakob Spangsberg, en hann átti skot fyrir utan teig sem Amir Mehica réði ekki við. Gestirnir voru töluvert hungraðri fyrstu minúturnar og ekki að sjá hvort liðið var neðar á töflunni.
Á 28.mínútu átti Jakob síðan fína tilraun til að skora sitt annað mark í leiknum, en hann náði að snúa sér við í vítateig Hauka, en skot hans yfir mark heimamanna.
Stuttu síðar tók Andri Marteinsson þjálfari Hauka, Marco Kirsch leikmann Hauka af velli og inn á fyrir hann kom Ásgeir Þór Ingólfsson. Eftir skiptinguna hresstust heimamenn verulega og byrjuðu að sækja af krafti án þess að skapa sér færi. Ekkert markvert gerðist síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik og staðan því þegar flautað var til hlés, 0-1 gestunum í vil.
Fyrsta færi seinni hálfleiks áttu heimamenn, eftir að brotið hafi verið á Hilmari Rafni Emilssyni út á kanti, gaf Edilon Hreinsson fyrirgjöf beint á Óla Jón Kristinsson sem náði skalla að marki Leiknis, en yfir fór boltinn.
Stuttu síðar björguðu Haukar hinsvegar á línu, eftir hornspyrnu frá Tómasi Michael Reynissyni.
Á 55.mínútu átti síðan Jónmundur Grétarsson bakfallsspyrnu eftir fyrirgjöf frá varamanninum, Ásgeiri Erni Ingólfssyni, en bakfallsspyrna Jónmundar laus og því ekkert mál fyrir Val Gunnarsson að handsama boltann.
Lítið gerðist næstu mínúturnar, en á 70.mínútu fengu Haukar dæmda aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Leiknismanna. Davíð Ellertsson lét vaða að marki Leiknis, hann var ekki langt frá því að jafna en skot hans hafnaði í þverslánni og síðan yfir.
Á 79.mínútu fengu gestirnir frábært færi til að gera útum leikinn, en Jakob Spangsberg átti þá fyrirgjöf frá vinstri inn á nærstöng þar sem Einar Örn Einarsson kom á fljúgandi siglingu en náði ekki að stýra skotinu nægilega vel og því endaði boltinn framhjá marki heimamanna.
Síðustu mínútur leiksins einkenndust af baráttu en hvorug liðin náðu að skapa sér marktækifæri og loka staðan því 0-1 Leiknismönnum í vil. Með sigrinum styrktu Leiknismenn stöðu sína í deildinni.
Fótbolti.net, Hafnarfirði - Arnar Daði Arnarsson.
Athugasemdir