HK 0 - 1 Haukar:
0-1 Darri Tryggvason ('12)
0-1 Darri Tryggvason ('12)
Í dag á Kópavogsvelli mættust HK og Haukar í úrslitaleik Íslandsmótsins í 4.flokki karla. Bæði lið voru fyrir leikinn taplaus í sumar. HK sigruðu A-riðil en þeir sigruðu þar alla leikina nema tvo og gerðu jafntefli í þeim leikjum. Haukar hinsvegar fóru með sigur af hólmi í öllum leikjum sínum í B-riðli.
Um síðustu helgi var síðan leikið í tveimur fjöggura liða riðlum, þar sem sigurvegari hvors riðils komst í úrslitaleikinn. HK sigruðu sína leiki en þeir léku gegn Fjölni, Víking og Ægi/Hamar. Haukar gerðu slíkt hið sama og sigruðu Þór, Völsung og Breiðablik.
Það var vel mætt á Kópavogsvöllinn og flott veður og því kjörin aðstaða fyrir þá ungu knattspyrnudrengi sem voru komnir alla leið í úrslitaleikinn til að láta ljós sitt skína.
Leikurinn byrjaði heldur rólega fyrstu mínúturnar, en fyrsta markið í leiknum kom á 12.mínútum. Þá skoraði Darri Tryggvason leikmaður Hauka uppúr hornspyrnu, en boltinn datt fyrir fætur Darra sem var einn og óvaldaður inn í teig. Hann gerði vel og skaut að marki HK og óverjandi fyrir Árna Helgason í marki HK en hann átti góðan leik í dag.
Og nú fóru hlutirnir að gerast, Magnús Þór Gunnarsson sem var að öllum ólöstuðum besti maður vallarins í dag varði stórkostlega skot frá Ívari Erni Jónssyni.
Mínútu síðar fékk Guðjón Geir Geirsson leikmaður Hauka langan bolta inn í teig og var boltinn kominn að endalínu en á eitthvern ótrúlegan hátt náði Guðjón að skjóta að marki HK en boltinn í þverslánna og yfir.
Næsta færi áttu Kópavogsmenn, Magnús Benediktsson átti þá gott skot að marki Hauka en yfir fór boltinn. Þetta var síðasta marktækifæri fyrri hálfleiksins og því staðan 1-0 í hálfleik. Bæði lið spiluðu góðan fótbolta og reyndu að sækja.
Fyrsta færi seinni hálfleiksins átti Guðjón Geir Geirsson, en þá átti hann skot að marki HK en rétt yfir.
Nokkrum mínútum síðar komst Orri Ómarsson leikmaður HK í fínt skotfæri en skotið hans himinhátt yfir.
Á 46.mínútu, eða 11.mínútu seinni hálfleiks snéri Guðjón Geir vel á varnarmann HK en átti laust en samt sem áður hnitmiðað skot í fjær hornið sem virtist hættulítið en Árni í marki HK náði á síðustu stundu að teygja sig í boltann.
Á næstu mínútum sóttu HK en án komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Hauka, það var síðan á 55.mínútu sem Haukar áttu eina af fjölmörgu skyndisóknum sínum, en þá slapp Aron Jóhann Pétursson fyrirliði Hauka einn innfyrir. Árni í marki HK gerði gríðarlega vel og kom vel út á móti og lokaði vel á Aron sem varð að játa sig sigraðan því Árni varði skotið gríðarlega vel.
Í næstu sókn áttu HK tvær marktilraunir sem varnarmaður Hauka kastaði sér fyrir og boltinn fór í horn. Upp úr horninu átti Orri Ómarsson síðan skalla að marki Hauka sem Magnús Þór varði afar vel.
Eftir tæpan klukkutíma leik snéri Arnar Aðalgeirsson á varnarmann HK og átti skot að marki HK sem Árni varði mjög vel. Hann náði ekki að halda boltanum og boltinn barst til Arons sem tók skot að marki HK úr þröngu færi sem varnarmaður HK náði að komast fyrir og hreinsa frá.
Þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum slapp Sigurður Guðmundsson leikmaður Hauka innfyrir en Egill Örn Þórarinsson aðstoðardómari 2 flaggaði þá rangstöðu og því lítið annað í stöðunni fyrir Sigurð að stoppa ferð sína að marki HK og koma sér aftur í varnarstöðu en þarna hefði hann getað gert útum leikinn.
Síðustu tíu mínútur leiksins voru lengi að líða hjá Haukum því þær voru algjörlega í eign HK sem sóttu gríðarlega mikið undir lokin í von um að jafna leikinn en það var Haukum til ánægju að Magnús Þór markvörður þeirra var í banastuði á milli stanganna.
Til að mynda varði Magnús Þór stórkostlega þegar Ásgeir Marteinsson átti skot að marki Hauka inn í teig. Þetta var síðasta færi leiksins og því 1-0 sigur Hauka staðreynd, en þetta er í fyrsta sinn sem Haukar verða Íslandsmeistarar í knattspyrnu.
Það vakti athygli hjá þeim fjölmörgu áhorfendum sem mættu á leikinn að allir leikmenn HK sem hófu leikinn voru búnir að aflita á sér hárið, eitthvað sem truflaði fréttaritarann en þetta reddaðist allt á endanum.
Markmenn liðanna áttu góðan leik báðir tveir og vert að fylgjast með þeim báðum í framtíðinni. Í liði Íslandsmeistarana er hægt að taka nokkra leikmenn út sem stóðu sig afar vel en Gunnar Örvar Stefánsson átti flottan leik í miðverðinum og hélt vörninni saman. Á miðjunni átti Þórður Jóhannsson og Aron Jóhann Pétursson einnig góðan leik og Guðjón Geir Geirsson var sprækur fram á við og kom sér oft í ákjósanleg færi.
Í liði HK var Ásgeir Marteinsson sprækur og átti fína spretti í fyrri hálfleik sem og Orri Ómarsson sem var sterkur í loftinu og átti þá ófáa skallaboltana í leiknum enda stór og stæðilegur leikmaður þar á ferð.
Við á Fótbolti.net óskum Haukum til hamingju með fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í knattspyrnu.
Viðtal við fyrirliða Hauka, Aron Jóhann Pétursson:
,,Þetta er alveg frábær stund," sagði Aron Jóhann Pétursson nýkringdur Íslandsmeistari í 4.flokki við Fótbolta.net strax að leik loknum.
,,Það var gott að komast yfir svona snemma leiks, við sóttum vel á þá í fyrri hálfleik og það gekk mjög vel hjá okkur að gera það. Síðan bökkum við heldur mikið í seinni hálfleik en héldum þessu sem er fyrir öllu," sagði hann, en var þetta ekki mikið stress undir lokin þegar sóknir HK fóru að þyngjast ? ,, Jú, þetta tók allavegana á taugarnar."
En var þetta stefnan hjá flokknum í vetur?
,, Við erum búnir að stefna að þessu síðan í byrjun vetrar. Þetta er mjög góður hópur, samheldnin er frábær og virkilega vel spilandi fótboltalið," sagði Aron.
Þjálfari 4.flokks Hauka er Freyr Sverrisson sem hefur tekið við þeim ófáum titlunum og hefur einnig verið að þjálfa yngri landslið Íslands með góðum orðstýr, Freyr ákvað að hefja þjálfun hjá Haukum fyrir síðasta tímabil eftir að hafa verið að þjálfa hjá Njarðvík í mörg ár. Það tók því Frey einungis tvö ár að koma með fyrsta Íslandsmeistaratitilinn á Ásvelli.
,,Hann er ábyggilega sá allra besti þjálfari sem maður gæti fengið sem ungur fótboltamaður, hann er með tilfinningarnar í þessu og allan pakkann.
Stefnan hjá okkur er síðan að bæta okkur, þetta verður bara betra og betra hjá okkur á næstu árum vonandi," sagði Aron að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir