
Salih Heimir Porca er tekinn við þjálfun kvennaliðs Hauka sem leikur í 1. deildinni og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í gær. Þetta staðfesti hann sjálfur í samtali við Fótbolta.net í dag en hann segist ætla sér stóra hluti með liðið og hefur þegar hafið viðræður við landsliðskonur um að ganga í raðir félagsins.
,,Þetta gerðist mjög hratt, þau buðu mér í viðræður og við vorum sammála um allt sem ég og þeir vildu gera og niðurstaðan var að ég tæki við liðinu," sagði Salih Heimir Porca í samtali við Fótbolta.net í dag en hann stýrði Keflavík í sumar og hætti með liðið á miðju tímabili.
,,Ég þekki til Hauka því ég var að þjálfa þarna fyrir tveimur árum og kannast við fólkið og allt hjá félaginu. Ég eignaðist ágætis vini þarna og hélt sambandi við þau eftir að ég fór frá þeim."
Porca mun taka við þjálfun meistara- og 2. flokks hjá Haukum og honum til aðstoðar verður Kjartan Einarsson sem var með honum hjá Keflavík og Breiðablik en hann tekur við 2. flokknum.
,,Mér líst vel á þetta, þeir eru orðnir þreyttir á að vera í 1. deildinni og ætla að styrkja liðið verulega. Mér líst vel á þetta allt saman og ákvað því að kýla á þetta. Ég tel að það sé engin spurning miðað við það sem við erum að gera að við munum fara beint upp í Landsbankadeildina. Annars hefði ég ekki farið í þetta."
Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðskona var lánuð frá Haukum til Breiðabliks á síðari hluta nýliðinnar leiktíðar en gengur nú til baka þar sem hún getur losnað undan samningi þar sem liðið komst ekki í Landsbankadeildina. Heimir vonast til að halda henni.
,,Sara er Haukastúlka og persónulega segir hún að hún hafi ekkert að gera í 1.deildina. En við ætlum að gera margt svo ég hef komið á viðræðum við hana og foreldra hennar. Hún spilaði í 1. deildinni og var í landsliðinu og það truflar hana ekki. Ég tel að það séu jafnar líkur á að hún verði áfram hjá okkur eða fari í eitt af stóru liðunum í kvennaboltanum. Það kemur í ljós þegar hún kemur heim frá Frakklandi. Ákvörðunin er hennar."
Sara er þó ekki eina landsliðskonan sem hann gerir sér vonir um að hafa í röðum Hauka á komandi tímabili því hann staðfesti að hann hafi rætt við nokkrar þó hann hafi ekki nefnt nein nöfn.
,,Ég ætla að reyna að gera allt með þetta Haukalið. Við erum þegar farin að vinna í leikmannamálum og ætlum að styrkja okkur verulega. Við erum að reyna að fá landsliðskonur úr úrvalsdeildinni til okkar. Við ætlum okkur stóra hluti. Ég er í viðræðum við 6-7 leikmenn úr úrvalsdeildinni sem eru á samningum sem eru að renna út."
Athugasemdir