Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 25. nóvember 2008 08:30
Hafliði Breiðfjörð
Margrét Lára: Aldrei að vita nema maður taki fram skautana
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitli með Val í haust.
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitli með Val í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli.
Í leik með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Margrét Lára er bæði Íþróttamaður ársins 2007 og knattspyrnukona ársins 2007.
Margrét Lára er bæði Íþróttamaður ársins 2007 og knattspyrnukona ársins 2007.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir gekk í dag í raðir sænska félagsins Linköping og gerði eins árs samning við félagið. Við ræddum við hana um félagaskiptin í dag og hún sagðist hafa fengið fyrirspurnir frá fjölda liða úr fimm löndum en valdi Linköpings sem endaði í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð. Hún segir að draumur sé að rætast hjá sér við þetta.

Linköping
Þjálfari: Magnus Wikman
Heimavöllur: Folkungavallen
Áhorfendaaðstaða: 8.000
Tímabil í sænsku úrvalsdeildinni: 8 (1998, 2000, 2002, 2004, 2005-?)
Sæti í deildinni 2008: 2, 2007: 6, 2006: 3, 2005: 4
Vefsíða: www.linkopingfc.com
,,Jú það má segja það. Ég hef alltaf stefnt af því að verða atvinnumaður í fótbolta og komast að hjá einu besta liði í Evrópu og ég tel mig vera að ná því og því má segja að draumurinn sé að rætast,” sagði Margrét Lára í samtali við Fótbolta.net í dag.

Aldrei að vita nema maður taki fram skautana
Linköping endaði sem fyrr segir í öðru sæti sænsku deildarinnar á nýliðinni leikgíð og það þýðir að liðið mun leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Auk þess komst liðið í úrslit sænska bikarsins og ljóst að þarna fer gríðarlega sterkt lið í einni sterkustu kvennadeild heims. Margrét Lára skoðaði aðstæður hjá félaginu fyrr í mánuðinum og líkaði vel við.

,,Þegar ég fór þarna út í byrjun mánaðrinns leist mér roslaega vel á allar aðstæður. vetraraðstaðan þarna úti er svipuð og hérna heima þar sem æft er bæði inni á gverigrasi og úti. síðan er sumaraðstaðan mjög góð þar sem liðið æfir á toppgrasi,” sagði hún.

,,Á Íslandi eru aðstæðurnar frábærar og það má segja að ég sé að fara í svipaðan pakka hvað það varðar. Þetta er stórt og flott félag sem er með eitt stærsta besta íshokkí karla lið í Evrópu þannig að það er aldrei að vita nema maður taki fram skautana,” bætti hún við og hló.

Mikill metnaður í þessu félagi
Margrét Lára hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína og ekki bara hér á landi enda hefur hún verið markahæsti leikmaðurinn í Evrópukeppninni félagsliða tímabilin 2005-2006 og aftur 2007-2008 auk þess að skora mikið með landsliði. Fjöldi liða sýndi henni áhuga nú í haust en hvað voru þau mörg?

,,Ég veit ekki nákvæmlega hversu mörg félög höfðu áhuga á mér en ég hafði möguleika á að fara til Bandaríkjanna, Ítalíu, Þýskalands, Danmerkur og svo Svíþjóðar,” sagði Margrét Lára. ,,Það er mikill heiður fyrir mig að fá fyrirspurn frá þessum liðum en ég fann ég það fljótt að Linköping væri það lið sem mig langaði hvað mest í og þegar ég fór út og kíkti á aðstæður þá var þetta aldrei spurning í mínum huga,” sagði hún.

,,Það voru fyrst og fremst aðstæður og það umhverfi sem þeir hafa upp á að bjóða sem varð til þess að ég valdi Linköping. Í liðinu eru flestir leikmenn atvinnumenn og eiga því kost á að æfa sem slíkir sem eru forréttindi. Síðan er mikill metnaður í þessu félagi og það stefnir hátt. Liðið er að fara í fyrsta skipti í Evrópukeppni á næsta ári og það verður án efa spennandi verkefni að taka þátt í.”

Kominn tími á að taka nýjar áskoranir
Margrét Lára spilaði i fjögur ár hjá Val, öll árin undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur sem hafði áður þjálfað hana hjá ÍBV. Elísabet er líka farin frá Val og mun þjálfa Kristianstad í sænsku deildinni á komandi leiktíð, en kom aldrei til greina að fara þangað?

,,Nei í rauninni ekki. Elísabet er frábær þjálfari og ég er ekki í vafa um að hún eigi ekki eftir að gera stórgóða hluti með Kristianstad. Hún hefur þjálfað mig í rúm 5 ár og gert frábæra hluti fyrir mig."

,,Hins vegar tel ég að tími sé kominn á að breyta til og taka nýjar áskoranir og þar á meðal kynnast nýjum leikmönnum og þjálfara. Það er þó aldrei að vita nema ég og Elísabet eigum eftir að vinna saman aftur í framtíðinni,”
sagði hún.

Á eftir að sakna Freysa og stelpnanna sárt
Eftir fjögur ár hjá Val þar sem hún hefur verið markadrottning öll árin yfirgefur hún nú félagið eftir að hafa unnið sinn þriðja Íslandsmeistaratitil á þessum fjórum árum með félaginu. Hún segir erfitt að fara frá félaginu.

,,Já engin spurning,” sagði hún. ,,Það verður gríðarlega sárt að kveðja félagið og stelpurnar. Ég er orðin mikill Valsari og fyrir mér er þessi Valshópur alveg einstakur. Ég á eftir að sakna stelpnanna og Freysa þjálfara sárt."

,,Hins vegar tel ég mig vera að taka mikilvægt skref til að öðlast nýja reynslu og verða betri leikmaður. Valur er og verður alltaf stórveldi í kvennafótboltanum og ég fylgist spennt með þeim á komandi leiktíð og styð þær heilshugar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum stuðningsmönnum, stjórnamönnum og þjálfurunum Vals fyrir 4 frábær ár.”

Athugasemdir
banner
banner
banner