Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   þri 19. maí 2009 06:00
Hafliði Breiðfjörð
Álfubikarinn í beinni á Stöð 2 Sport 2 í júní
Evrópumeistarar Spánar taka þátt  í Álfubikarnum.
Evrópumeistarar Spánar taka þátt í Álfubikarnum.
Mynd: Getty Images
Stöð 2 Sport 2 hefur tryggt sér sýningaréttinn á Álfubikarnum – einni sterkustu knattspyrnukeppni heims.

Í Álfubikarnum (FIFA Confederations Cup) mæta til leiks meistarar sex heimsálfa, auk sjálfra heimsmeistaranna og gestgjafanna en að þessu sinni fer keppnin fram í Suður-Afríku og stendur yfir dagana 14.-28. júní.

Þessi kærkomna viðbót styrkir enn dagskrá Stöðvar 2 Sport 2 og tryggir áskrifendum stöðvarinnar frábæran bolta allt árið um kring.

Keppnin verður með hefðbundnu sniði, hefst með tveimur undanriðlum sem síðan fara í útsláttarkeppni:

A-riðill:
Spánn – Evrópumeistarar
Írak – Asíumeistarar
Nýja-Sjáland – Eyjaálfumeistarar
Suður-Afríka - Gestgjafar

B-riðill:
Ítalía - Heimsmeistarar
Brasilía – S-Ameríkumeistarar
Bandaríkin – Ameríkumeistarar
Egyptaland – Afríkumeistarar

Opnunarleikur mótsins fer fram í Jóhannesarborg sunnudaginn 14. júní kl. 14 en þar mæta gestgjafarnir Suður-Afríka Asíumeisturunum Írak og síðar sama dag kl. 18.30 fer fram annar leikur mótsins þar sem mætast Eyjaálfumeistara Nýja-Sjálands og Evrópumeistara Spánar.

Á meðan undankeppnin stendur yfir fara fram tveir leikir á dag – alltaf klukkan 14 og 18.30. Undanúrslitin hefjast 24. júní og sjálfur úrslitaleikurinn fer fram í Jóhannesarborg sunnudaginn 28. júní klukkan 18.30.

Álfubikarkeppnin hefur frá 2005 verið haldin á fjögurra ára fresti, ári á undan Heimsmeistarakeppni, og fór fyrst fram árið 1992 en var þá haldin af Sádí-Aröbum og gekk undir nafninu King Fahd Cup.

Keppnin hefur verið haldin alls sjö sinnum og hafa Frakkland og Brasilía unnið hana oftast eða tvisvar sinnum. Brasilía er núverandi Álfubikarmeistari , sigraði keppnina í Þýskalandi 2005, og hefur því titil að verja. Aðrar þjóðir sem unnið hafa Álfubikarinn eru Argentína sem sigruðu fyrstu keppni, Danmörk sem sigraði keppnina 1995 og Mexíkó.

Allir leikir mótsins verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og er búist við afar sterkri keppni enda mæta til leiks þrjár afar sterkar þjóðir, Brasilía, Ítalía og Spánn auk þess sem talið er að gestgjafarnir, Bandaríkjamenn og jafnvel Egyptar geti komið skemmtilega á óvart.

Athugasemdir
banner
banner