Liverpool berst við spænsku risana um Wharton - Nkunku orðaður við Liverpool - Rodrygo í enska boltann?
   fös 05. júní 2009 22:55
Magnús Már Einarsson
1.deild umfjöllun: Stöngin út hjá KA í Mosfellsbænum
Paul Clapson með boltann í leiknum í kvöld.
Paul Clapson með boltann í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
David Disztl og Magnús Einarsson eigast við.
David Disztl og Magnús Einarsson eigast við.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Guðmundur Óli Steingrímsson með boltann.
Guðmundur Óli Steingrímsson með boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Afturelding 0 - 0 KA
Rautt spjald: Baldur Þórólfsson, Afturelding

Afturelding og KA gerðu markalaust jafntefli í fyrstu deild karla á Varmárvelli í kvöld. Leikurinn var afar tíðindalítill í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari voru leikmenn liðanna nær því að skora. KA átti tvö stangarskot og Kevin Walsh fékk dauðafæri fyrir heimamenn.

Í fyrri hálfleiknum urðu bæði lið fyrir því að missa leikmann af velli. Paul Clapson, framherji Aftureldingar, meiddist á ökkla og var borinn af velli og Dean Martin spilandi þjálfari KA meiddist aftan í læri og varð að fara af velli.

Andri Fannar Stefánsson átti bestu tilraun KA í fyrri hálfleiknum en Kjartan Páll Þórarinsson varði í horn. Rannver Sigurjónsson fékk besta færi heimamanna en hann skaut yfir eftir skyndisókn.

Í síðari hálfleiknum varði Kjartan Páll vel frá Guðmundi Óla Steingrímssyni áður en Mosfellingar fengu besta færi leiksins. Gestur Ingi Harðarson sendi þá fyrir á Kevin Walsh sem var einn gegn Sandor Matus í markinu en skot hans fór framhjá úr dauðafæri.

Eftir þetta tóku KA-menn öll völd og pressuðu stíft. Orri Gústafsson, sem hafði komið inn á fyrir Dean Martin, fékk ágætis færi en skot hans fór í stöngina. Stöngin var aftur fyrir KA-mönnum nokkrum mínútum síðar en Norbert Farkas átti þá þrumuskot í stöng og út eftir fyrirgjöf frá hægri.

Á 83.mínútu fékk Baldur Þórólfsson leikmaður Aftureldingar sitt annað gula spjald og þar með rautt hjá Hans Scheving dómara. Hans átti nokkra undarega dóma í kvöld og bæði lið voru nokkuð pirruð yfir frammistöðunni hjá honum.

Mörkin létu hins vegar á sér standa í Mosfellsbænum og lokatölur 0-0. Afturelding er með fimm stig í níunda sæti deildarinnar eftir þennan leik en KA er í fimmta sæti með sjö stig.

Ummæli eftir leik:

Ólafur Ólafsson þjálfari Aftureldingar:
,,Þetta var ekki okkar dagur í dag, það er alveg ljóst en við héldum hreinu. Við fengum stigið og við tökum það og einbeitum okkur að næsta leik, ég held að það sé verk að vinna."

,,Við misstum tvo í meiðsli í dag og auðvitað hefur það áhrif á liðið og uppstillingu en það eiga að koma aðrir inn í staðinn, til þess er hópurinn gerður."

,,Við erum að fá alltof mikið af spjöldum. Við erum að brjóta klaufalega af okkur oft á tíðúm og það verðskuldar spjöld en oft á tíðum finnst mér dómararnir ekki vera samkvæmir sjálfum sér og við erum að fá spjöld á okkur þegar að hinir eru að sleppa en svona er fótboltinn."


Dean Martin þjálfari KA:
,,Ég er mjög svekktur. Við rúlluðum yfir þetta lið í dag og spiluðum góðan bolta en gátum ekki sett boltann í markið. Svona er fótboltinn, maður verður að klára færi en varnarvinnan var góð, við fengum ekki mark á okkur."

,,Það er nóg af stigum eftir, það er alltaf erfitt að koma suður en við munum halda áfram að safna stigum."

Athugasemdir
banner