Baleba fer ekki til Man Utd í sumar - Newcastle enn í framherjaleit - Ederson til Galatasaray?
   fös 26. júní 2009 23:18
Hafliði Breiðfjörð
1.deild umfj.: Haukar hvattir áfram af spákonu lögðu Víking
Jökull Elísabetarson og Guðjón Pétur Lýðsson eigast við í kvöld.
Jökull Elísabetarson og Guðjón Pétur Lýðsson eigast við í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjólabuxurnar sem hér má sjá ef rýnt er í myndina töfðu leikinn um stundarfjórðung.
Hjólabuxurnar sem hér má sjá ef rýnt er í myndina töfðu leikinn um stundarfjórðung.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigríður Klingenberg var stuðningsmaður kvöldsins og naut aðstoðar Pacasar. Hér má sjá þau á vellinum í kvöld.
Sigríður Klingenberg var stuðningsmaður kvöldsins og naut aðstoðar Pacasar. Hér má sjá þau á vellinum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Egill Atlason misnotaði nokkur dauðafæri.
Egill Atlason misnotaði nokkur dauðafæri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 1 - 3 Haukar
0-1 Garðar Ingvar Geirsson ('48)
1-1 Þorvaldur Sveinn Sveinsson ('71)
1-2 Hilmar Geir Eiðsson ('80)
1-3 Guðjón Pétur Lýðsson ('83)

Haukar unnu góðan sigur á Víkingum í Fossvoginum í kvöld en öll mörk leiksins voru skoruð í síðari hálfleiknum.

Víkingar mega sjá eftir að hafa misnotað nokkur dauðafæri í leiknum og sitja að leiknum loknum í níunda sæti deildarinnar en Haukar eru á toppnum í bili.

Leikurinn byrjaði alltof seint í kvöld þar sem Magnúsi Þórissyni dómara leiksins mislíkaði klæðnaður Haukanna þremur mínútum fyrir leik. Magnús var að æfa sig fyrir komandi verkefni í Evrópu og hafði sér til fulltyngis tvo aðstoðarmenn á línunum eins og venja er og Erlend Eiríksson sem fjórða dómara.

Hann var ekki sáttur við að litur á hjólabuxum fjögurra leikmanna Hauka var ekki sá sami og á keppnisbuxum og því varð að grípa til ráðstafanna sem töfðu það að leikurinn gæti hafist.

Leikurinn byrjaði þó eftir smá umstang og var nokkuð rólegur lengi framan af fyrri hálfleiknum en í tvígang undir lok hans áttu Víkingar að komast yfir en misnotuðu dauðafæri.

Fyrst var þar að verki framherjinn Egill Atlason sem komst einn gegn Amir Mehica markverði Hauka eftir góðan undirbúning Lewis Ehrlich en Mehica varði vel frá honum.

Þremur mínútum síðar var það Ehrlich sjálfur sem var beint fyrir framan markið en skaut boltanum í Mehica og yfir markið. Staðan þegar flautað var til hálfleiks var því enn markalaus.

Haukar komu svo öflugir til leiks í síðari hálfleik enda ekki að furða, nýr liðsstyrkur hafði borist þeim í stúkuna sem hvatti þá stíft áfram.

Þar var að verki spákonan Sigríður Klingenberg sem var mjög áberandi í stúkunni það sem eftir var af leiknum og naut aðstoðar Pacas úr vinsælum sjónvarpsþáttum á Stöð 2.

Aðeins rúmum tveimur mínútum eftir að flautað var til leiks í síðari hálfleiks var sá stuðningur byrjaður að skila sér því þá skoraði varamaðurinn Garðar Ingvar Geirsson eftir frábæra sendingu frá Hilmari Trausta Arnarssyni innfyrir vörn Víkings.

Þetta þótti spákonunni hinsvegar ekki nóg og heimtaði stærri sigur og um með stuðningshrópum sínum öskraði hún á stærri sigur, ,,2-0, 2-0, 2-0...".

Það munaði ekki litlu að henni yrði að ósk sinni á 55 mínútu þegar Hilmar Trausti slapp einn innfyrir og var að fara að pota í boltann þegar Magnús Þormar markvörður Víkinga náði að teygja sig í boltann með fætinum og koma honum frá.

Næsta mark kom hinsvegar hinum megin á vellinum og hafði átti sér smá forsögu. Egill Atlason slapp þá einn í gegn og ætlaði sér að leika á Amir Mehica og var kominn upp að endamörkum en hafði þá tekið sér of langan tíma og fjórir varnarmenn Hauka stóðu á marklínunni og vörðust skoti hans og spyrntu í átt að hliðarlínu. Þar barst boltinn aftur inn í teig og fór í hendi varnarmanns Hauka og Magnús Þórisson dómari dæmdi aukaspyrnu á vítateigslínunni.

Sigurður Lárusson bróðir landsliðskonunnar Dóru Maríu Lárusdóttur er ungur og mjög efnilegur drengur sem er að koma inn í lið Víkings í sumar. Hann tók aukaspyrnuna beint á kollinn á Þorvaldi Sveini Sveinssyni sem jafnaði metin á 72. mínútu.

Haukar gáfust hinsvegar ekkert upp og það var samstarf bræðra sem kom þeim aftur yfir á 80. mínútu. Varamaðurinn Enok Eiðsson átti þá góða sendingu fyrir markið á Hilmar Geir bróður sinn sem brást ekki bogalistin og kom Hafnfirðingunum yfir í 2-1.

Spákonan hafði reyndar eitthvað misskilið stöðuna í leiknum heimtaði nú að Haukar myndu bæta í og fara í 3-0.

Þremur mínútum síðar kláruðu Haukar svo leikinn með marki Guðjóns Pétur Lýðssonar sem kom til Hauka úr 3. deildinni í vetur og hefur átt mjög góða leiki með liðinu. Garðar sem skoraði fyrsta markið hafði þá kiksað og Ásgeir Þór Ingólfsson sem var fyrir aftan hann og gaf boltann út til hægri á Guðjón Pétur sem skoraði undir Magnús í markinu.

Þremur mínútum fyrir leikslok komst Egill Atlason svo í enn eitt dauðafærið en skaut framhjá markinu og lokastaðan í leiknum því 1-3 fyrir gestina í Haukum sem tylltu sér í toppsæti deildarinnar með sigrinum með jafnmörg stig og Selfoss en betri markatölu. Selfoss á svo leik til góða á morgun.

Rætt verður við þá Leif Garðarsson og Andra Marteinsson þjálfara liðanna í viðtölum hér á Fótbolta.net síðar í kvöld.
Athugasemdir
banner