,,Þetta var rosalega kærkominn sigur. Við áttum slakan dag í síðasta leik og töpuðum þá og þar á undan vörum við búnir að tapa tveimur leikjum á ósanngjarnan hátt. En það er ekkert spurt að því, þetta leggst á sálina á mönnum svo það var mjög mikill sálrænn sigur hérna í dag að geta rifið sig upp og klárað þetta," sagði Andri Marteinsson þjálfari Hauka sem var sæll og glaður eftir 1-3 sigur sinna manna á Víkingi í 1. deildinni í kvöld.
,,Vinnuframlagið var til fyrirmyndar og það er það sem mestu máli skiptir. Ég veit að það er knattspyrnuleg geta í þessu liði. Sem betur fer datt þetta okkar megin sem vill stundum ekki gerast," hélt Andri áfram en hann talaði um sálrænan sigur og sögur hafa gengið af sálfræðiaðstoð í búningsklefanum, við spurðum hann út í það.
,,Reyndar var það ekki fyrir liðið en við erum að vinna með ákveðna leikmenn sem við höfum verið að reyna að aðstoða á þann hátt sem við höfum getað," svaraði Andri.
,,Flestir okkar eigum í bölvuðu basli með einbeitingu en svo eru aðrir sem eru með minna sjálfstraust og það þarf að vinna með það. Við gerum allt til að hafa menn í andlegu standi á meðan þeir eru í líkamlegu standi því það er hrikalegt ástand á hópnum," hélt hann áfram en mikil meiðsli hafa herjað á liðið að undanförnu.
Detta niður eins og trén í Finnlandi
,,Þeir detta niður eins og trén í Finnlandi, maður áttar sig ekki á þessu," sagði hann. ,,Við erum með eina til tvær skiptingar í leik bara út af meiðslum og svo hafa ekki allir skilað sér til baka úr meiðslum ennþá. Þetta er karakter sigur í dag því það er svo auðvelt að falla í þá gryfju að hugsa að það vanti þennan eða hinn, það voru bara þessir ellefu sem byrjuðu inná og 16 sem voru í hóp og þeir kláruðu verkefnið í dag."
Jafnfljótur upp og ég er niður
Leikurinn náði ekki að byrja á réttum tíma í kvöld og orðrómur var um það í stúkunni að það væri útaf skóbúnaði leikmanna Hauka en Andri sagði það ekki rétt og gaf okkur rétta útgáfu af sögunni.
,,Þessir ágætu dómarar eru að fara að dæma UEFA leik svo hér átti allt að vera tip-top. Þegar menn voru komnir í raðirnar og á leiðinni út á völl var sett út á fjóra leikmenn sem voru í hitabuxum því þær voru ekki í samstæðum lit. Það þýddi það að þremur mínútum fyrir leik voru fjórir leikmenn sem myndu ekki spila ef ekki væri hægt að redda þessu. Það sagði dómarinn með berum orðum," sagði Andri en hann var mjög hávær fyrir leikinn og kvartaði yfir uppákomunni sem svo á endanum eitthvað sem aðstoðarmaður hans vissi af.
,,Aðstoðarmaður minn hafði fengið þau skilaboð korteri áður að þetta yrði að vera í lagi en ég vissi það ekki. Því var ég mjög æstur því ég hélt að þetta væri þeirra klúður, en svo kom í ljós að þetta var smá klúður hjá okkur. En ég er jafnfljótur niður og ég er upp svo þetta kláraðist mjög fljótt. Við þurftum að redda þessu og teipa fyrir hitabuxurnar því enginn þeirra hefði fengið að spila í þeim. Tískuvitundin er orðin svo há hjá okkur að það þarf allt að vera í samstæðum litum."
Athugasemdir