Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 13. janúar 2010 22:30
Alexander Freyr Tamimi
Enski bikarinn: Íslendingarnir slógu Liverpool út úr bikarnum
Gylfi Þór með jöfnunarmarkið og Brynjar Björn með góðan undirbúning í seinna markinu
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði jöfnunarmark Reading á 92. mínútu.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði jöfnunarmark Reading á 92. mínútu.
Mynd: Getty Images
Brynjar Björn Gunnarsson undirbjó seinna mark Reading af einskærri snilld.
Brynjar Björn Gunnarsson undirbjó seinna mark Reading af einskærri snilld.
Mynd: Getty Images
Liverpool 1 - 2 Reading
1-0 Ryan Bertrand ('45, sjálfsmark)
1-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('90, víti)
1-2 Shane Long ('100)

Hrakfarir Liverpool á þessu tímabili virðast engan endi ætla að taka en liðið datt í dag úr ensku bikarkeppninni eftir 2-1 tap gegn Reading á Anfield í seinni leik liðanna. Það er óhætt að segja að íslenskir leikmenn Reading hafi átt mikinn heiður í þessum sigri en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrra mark liðsins og Brynjar Björn Gunnarsson átti frábæran undirbúning í því síðara.

Gestirnir sýndu mikið baráttuþrek í fyrri hálfleiknum og áttu tvö sannkölluð dauðafæri sem þeir hefðu hæglega getað nýtt. Það voru þó heimamenn sem komust yfir í uppbótartíma þegar Ryan Bertrand varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Í síðari hálfleik tók Liverpool völdin en öguð vörn Reading hélt þeim nokkurn veginn í skefjum. Færin voru af skornum skammti og benti fátt til þess að fleiri mörk yrðu skoruð. Þegar líða tók á leikinn sóttu gestirnir þó í sig veðrið og var Jobi McAnuff mjög nálægt því að skora eftir glæsilegan einleik sem hófst á eigin vallarhelmingi.

Skömmu síðar fengu Reading dauðafrían skalla en hann fór langt yfir. Venjulegur leiktími var liðinn og benti margt til þess að Liverpool kæmist áfram í næstu umferð.

Þá tók Yossi Benayoun sig til og sýndi gríðarlegt dómgreindarleysi með því að brjóta klaufalega af sér inni í vítateig. Vítaspyrna var réttilega dæmd og á punktinn steig hinn gríðarlega efnilegi Gylfi Þór. Hann sýndi gríðarlega yfirvegun og skoraði örugglega úr spyrnunni og staðan jöfn. Skömmu síðar var venjulegum leiktíma lokið.

Í framlenginguna mættu Reading ferskir og tóku þeir sig til og bættu við glæsilegu marki eftir frábæran undirbúning frá Brynjari Birni Gunnarssyni þegar fimm mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum. Brynjar sýndi áður óþekkta sambatakta og lék laglega á tvo leikmenn Liverpool, klobbaði meðal annars Yossi Benayoun, og kom svo með frábæra fyrirgjöf sem endaði beint á kollinum á Shane Long sem átti auðvelt með að skalla knöttinn í netið. Íslendingarnir heldur betur að láta til sín taka á Anfield og Liverpool í vondum málum.

Rétt áður en fyrri hálfleik framlengingar lauk komst Yossi Benayoun í algert dauðafæri þar sem hann var einn á móti markverði með allan tíma í heiminum til stefnu. Ísraelinn fór þó hrikalega illa að ráði sínu og skaut beint á markvörð Reading og var hættunni bægt frá. Færin gerast varla betri en þetta en ekkert virðist ganga upp hjá rauðliðunum í Bítlaborginni.

Síðari hálfleikur framlengingarinnar var frekar tíðindalítill. Heimamenn sóttu meira en voru þó einstaklega hugmyndasnauðir og sköpuðu sér ekki mörg dauðafæri. David Ngog komst einu sinni í ákjósanlega stöðu en skot hans var slakt og engin hætta.

Grimmdina vantaði einfaldlega í lið Liverpool og staðan var enn 2-1 fyrir Reading þegar flautað var til leiksloka. Liverpool er því dottið úr keppni í FA bikarnum líkt og erkifjendurnir í Manchester United og má segja að þetta undirstriki bara afleitt gengi þeirra á tímabilinu.

Það var ekki að sjá á Reading að liðið sé í botnbaráttu í deild fyrir neðan Liverpool en það voru kannski Liverpool sem létu liðið líta svona vel út með heldur slakri spilamennsku. Vissulega hjálpaði það ekki til að Fernando Torres þurfti að fara út af eftir hálftíma leik og Steven Gerrard í leikhléi en það er engin afsökun, gæðamunurinn á liðunum á samt sem áður að vera það mikill.

Eini titilmöguleiki Liverpool er nú í Evrópudeildinni en miklar breytingar þurfa að eiga sér stað innan herbúða þeirra ef sá titill á að enda í þeirra höndum. Reading er aftur á móti enn í bikarnum og mæta þeir Burnley á heimavelli í næstu umferð. Það verður því boðið á Íslendingaslag á Madejski leikvanginum en óhætt er að segja að Íslendingarnir í liði Reading stóðu sig mjög vel í kvöld.
Athugasemdir
banner