Haukum er spáð 12. sæti af sérfræðingum Fótbolta.net

Góður vinur Zlatan:
,,Þegar ég flutti til Svíþjóðar var hann fyrsti strákurinn sem ég byrjaði að leika mér með, 10 ára gamall. Síðan kom hann yfir til Malmö þegar hann var 13 ára og við fórum upp alla yngri flokkana saman.”
,,Þegar ég flutti til Svíþjóðar var hann fyrsti strákurinn sem ég byrjaði að leika mér með, 10 ára gamall. Síðan kom hann yfir til Malmö þegar hann var 13 ára og við fórum upp alla yngri flokkana saman.”

,,Ég fékk að horfa á Barcelona æfa fimm daga í röð. Ég sat upp í stúku og horfði á þá æfa og þetta er náttúrulega fótboltaklám.”

,,Ef að ég hefði verið heill hefði ég aldrei komið aftur til Íslands án þess að ég geri lítið úr einhverju. Ég tel að ég sé það góður leikmaður að ef að ég væri 100% væri ég ekki í þessari deild, þá væri ég að spila einhversstaðar á Norðurlöndunum.”

Næstum farinn í tyrknesku deildina:
,,Ég kom seint um kvöld á hótelið og talaði við þjálfarann sem sagðist hafa séð mig spila á myndbandi. Hann sagðist þurfa einhvern til að stjórna öftustu línu og ég var orðinn rosa spenntur. Þegar ég mætti á svæðið daginn eftir þá var búið að reka hann og þá var þetta eiginlega búið.''
,,Ég kom seint um kvöld á hótelið og talaði við þjálfarann sem sagðist hafa séð mig spila á myndbandi. Hann sagðist þurfa einhvern til að stjórna öftustu línu og ég var orðinn rosa spenntur. Þegar ég mætti á svæðið daginn eftir þá var búið að reka hann og þá var þetta eiginlega búið.''
Guðmundur Viðar Mete, varnarmaður Hauka, á öðruvísi feril að baki en flestir íslenskir íslenska leikmenn í Pepsi-deildinni. Guðmundur ólst upp í Svíþjóð og lék í úrvalsdeildinni þar í landi áður en hann gekk til liðs við Keflavík árið 2005. Þessi 29 ára gamli leikmaður gekk í raðir Hauka í vetur eftir árs dvöl hjá Val en hann settist niður með Fótbolta.net og ræddi um ferilinn hingað til.

Aldur: 29 ára
Fyrri félög: Malmö, Norrköping, Keflavík og Valur
Landsleikir: U21: 11, U19: 9, U17: 9(1)
,,Ég var í endurhæfingu og var orðinn þreyttur á því að verða úti þegar að ég hafi samband við Kristján Guðmunds sem ég þekkti eftir að hann var unglingaþjálfari hjá Malmö. Ég ákvað í kjölfarið að flytja heim og ég sé ekki eftir því,” sagði Guðmundur sem talar ágætis íslensku þrátt fyrir að hafa búið lengi í Svíþjóð á uppvaxtarárunum.
,,Það er alltaf gert grín að mér hérna. Ég hætti hér í öðrum bekk held ég og var síðan ekki í neinni íslenskukennslu. Ég bjarga mér samt alveg.”
Fyrsti vinurinn í Svíþjóð var Zlatan:
Þegar Guðmundur flutti til Svíþjóðar hitti hann fyrir jafnaldra sinn Zlatan Ibrahimovic og þeir urðu fljótlega góðir vinir. Zlatan hefur getið sér gott orð með stórliðum í Evrópu en Guðmundur hefur þekkt hann lengi.
,,Þegar ég flutti til Svíþjóðar var hann fyrsti strákurinn sem ég byrjaði að leika mér með, 10 ára gamall. Síðan kom hann yfir til Malmö þegar hann var 13 ára og við fórum upp alla yngri flokkana saman.”
,,Maður sá að hann var með tæknina og fótboltagetuna en hann var ekki orðinn jafnstór og aðrir fyrr en hann var 16-17 ára. Hann var veikburða og maður fór inn í líkmann og tók boltann af honum. Eitt sumarið held ég að hann hafi án gríns vaxið um 30 cm. Þá gat hann byrjað að njóta sín með tæknina og hann er mjög sterkur, þess vegna er erfitt að eiga við hann.”
Þrátt fyrir að vera einn sterkasti framherjinn í Evrópu í dag þá mátti Zlatan sætta sig við sæti á varamannabekknum hjá unglingaliðum Malmö.
,,Hann var ekki í byrjunarliðinu þegar að við vorum sænskir meistarar í 2.flokki. Eftir það ár, þegar hann var á öðru ári í öðrum flokk þá fór hann nánast beint upp í aðalliðið. Þetta er fljótt að breytast.”
Fótboltaklám að horfa á æfingar Barcelona:
Guðmundur og Zlatan eru í góðu sambandi og hittast reglulega. Síðast fór Guðmundur í heimsókn til Svíans í janúar síðastliðnum en hann sá þá leik Barcelona og Villareal á Nou Camp.
,,Við erum ágætis vinir og ég reyni að fara út til hans einu sinni á ári þegar að tími gefst og prógrammið hans leyfir. Ég hef farið til allra félaga sem hann hefur verið hjá, Ajax, Juventus, Inter og Barcelona. Það er snilld að geta komist svona nálægt þessu.”
,, Ég fékk að horfa á Barcelona æfa fimm daga í röð. Ég sat upp í stúku og horfði á þá æfa og þetta er náttúrulega fótboltaklám.”
,,Maður hitti nokkra þarna og ég reyni að kippa mér ekki upp við það en þegar að (Lionel) Messi labbaði framhjá þá þurfti maður að smella af mynd.”
Meiðsli komu í veg fyrir áframhald í atvinnumennsku:
Zlatan hefur náð mun lengra í fótboltanum en Guðmundur en sá síðarnefndi hefði líklega getað leikið sjálfur áfram í atvinnumennsku ef af meiðsli hefðu ekki sett strik í reikninginn. Guðmundur hefur verið að glíma við meiðsli á mjöðm frá því árið 2002 og hann hefur aldrei náð að taka heilt tímabil af þeim sökum.
,,Ef að ég hefði verið heill hefði ég aldrei komið aftur til Íslands án þess að ég geri lítið úr einhverju. Ég tel að ég sé það góður leikmaður að ef að ég væri 100% væri ég ekki í þessari deild, þá væri ég að spila einhversstaðar á Norðurlöndunum.”
,,Ef ég fæ ekki að sjá um meiðslin mín og er alltaf á 100% fullu þá koma þessi álagsmeiðsli og þá get ég ekki spilað. Skrokkurinn þarf að vera í lagi, annars getur maður ekki verið að gera þetta af viti,” sagði Guðmundur sem reynir sitt besta til að ná sem flestum leikjum.
,,Ég reyni að teygja og taka smá voltaren. Þetta fylgir fótboltanum því miður. Ég er samt líka heppinn, ég verð þrítugur á næsta ári og það eru margir sem hafa þurft að hætta fyrr út af þessu,” bætti Guðmundur við en hann hefur aldrei íhugað að hætta.
,,Nei ekki beint, ég er með tveggja ára samning og ætla að reyna að klára hann. Ég ætla að reyna að spila eins mikið og ég get í sumar en ef maður nær ekki að spila í sumar þá verður maður að hugsa sinn gang.”
Guðmundur hefur stundum fengið að æfa sjálfur í lyftingarsalnum hjá Haukum á meðan aðrir leikmenn eru á fótboltaæfingu og hann vonast til að ná öllum leikjum liðsins í sumar.
,, Það eru sjúkraþjálfarar sem eru með okkur á lyftingaræfingum og þeir stjórna álaginu. Ég er stundum inni á hjólinu þegar að hinir eru út á gervigrasinu því að það fer ekki vel með bakið og mjaðmagrindina. Ég stefni á að taka alla leiki í sumar.”
Þjálfarinn var rekinn rétt fyrir undirskrift í Tyrklandi:
Þrátt fyrir meiðslin munaði litlu að Guðmundur færi til félags í Tyrklandi árið 2007. Guðmundur á ættir að rekja til Tyrklands og úrvalsdeildarliðið Kasimpasa vildi semja við hann.
,,Pabbi er þaðan og ég þekki til landsins. Ég spilaði Evrópuleik með Keflavík á móti Mydtjylland og stóð mig vel. Það var einhver gaur að öskra á mig þegar að ég labbaði inn í klefa en ég var bandbrjálaður af því að við duttum út. Síðan sagði mér einhver að þessi gaur væri að reyna að ná sambandi við mig og ég fór út aftur.”
,,Gaurinn beið þar eftir mér og sagðist vera með lið í Tyrklandi sem hafði áhuga á mér. Hann var byrjaður að fylgjast með mér í Svíþjóð en síðan hvarf ég bara. Hann spurði mig hvort ég væri sami maðurinn og ég sagði já.”
,,Ég fór síðan út á reynslu en þetta var eiginlega engin reynsla því að ég átti bara að skrifa undir. Ég kom seint um kvöld á hótelið og talaði við þjálfarann sem sagðist hafa séð mig spila á myndbandi. Hann sagðist þurfa einhvern til að stjórna öftustu línu og ég var orðinn rosa spenntur. Þegar ég mætti á svæðið daginn eftir þá var búið að reka hann og þá var þetta eiginlega búið. Það hefði verið gaman að taka einhver ár þarna út en svona er þetta bara.”
Þrátt fyrir að vera ættaður frá Tyrklandi þá kann Guðmundur ekki að tala tyrknesku.
,,Nei, ég kann bara nokkur orð. Ég bjó á Íslandi og pabbi var sjómaður þannig að ég lærði aldrei að tala tyrknesku reiprennandi. Ég hef sjálfur farið 4-5 sinnum til Tyrklands og heimsótt ömmu og afa.”
FH leikurinn mestu vonbrigði lífsins:
Guðmundur samdi ekki í Tyrklandi og ári síðar var hann í liði Keflvíkinga sem barðist við FH um Íslandsmeistaratitilinn.
,,Það versta við það að ég var meiddur í úrslitaleikjunum í lokin og það var hörmulegt að sjá þetta gerast og geta ekki gert neitt. Sérstaklega leikurinn á móti FH, við jöfnuðum í 2-2 en síðan gerast einhver mistök og þeir fá boltann og skora á síðustu mínútu. Það var versta augnablik lífs míns.”
Í fyrra lék Guðmundur með Valsmönnum en gengi liðsins var langt undir væntingum. Guðmundur lék einungis um helming leikja og Valur endaði í áttunda sæti eftir að hafa verið spáð ofarlega.
,,Það gekk ekki nógu vel þar. Við byrjuðum ekki vel en síðan vorum við í þriðja eða fjórða sæti áður en við töpuðum 5-0 fyrir FH. Það gerði eiginlega út um sumarið. Við vorum eiginlega heppnir að við unnum Þrótt á útivelli því að annars hefðum við getað lent í fallbaráttu.”
Síðastliðið haust ákvað Guðmundur að róa á önnur mið. Nokkur félög höfðu samband en að lokum ákvað Guðmundur að semja við nýliða Hauka.
,,Ég var að fara að leita mér að liði og ég fór á fund með Haukum. Ég var búinn að fylgjast aðeins með Haukum í fyrstu deildinni og sá að þetta voru ungir og efnilegir strákar. Ég spjallaði við Andra og leist vel á þetta þannig að ég samdi við þá og þetta verður spennandi.”
Haukar fengu einnig reynslubolta eins og Daða Lárusson og Arnar Bergmann Gunnlaugsson og Guðmundur býst við að það eigi eftir að vega þungt í baráttunni í sumar.
,,Það er mikilvægt að fá reynslubolta inn í svona ungt lið og vera með línu af mönnum sem kunna þetta. Það eru margir efnilegir strákar þarna og þetta er góð blanda.”
,,Þetta verður örugglega erfitt en við gerum okkar besta, við getum ekki gert mikið meira. Markmiðið er að halda okkur uppi, við byrjum í fyrstu umferðunum á móti KR og FH og það er skemmtilegt. Við eigum að líta á þetta þannig að þetta verði skemmtilegt sumar,” sagði Guðmundur að lokum.