Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   fim 06. maí 2010 08:17
Þórður Már Sigfússon
Heimild: Rogalands Avis 
Birkir undir smásjá fjölmargra liða
Getur náð gríðarlega langt, segir þjálfari Viking
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason skoraði stórglæsilegt mark fyrir Viking í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, sem jafnframt var sigurmark liðsins í 1-0 sigri gegn Haugesund.

Hann hefur þar með skoraði þrjú mörk í fimm leikjum það sem af er keppnistímabilinu og er næst markahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að hafa misst af fjórum leikjum vegna meiðsla sem hann hlaut á olnboga fyrir rúmum mánuði.

Góð frammistaða Birkis hefur gert það að verkum að hann er nú undir smásjá fjölmargra liða og segist Egil Östenstad, yfirmaður knattspyrnumála hjá Viking, vera vel meðvitaður um þá staðreynd.

Heimildir Fótbolti.net herma að Íslendingaliðið Reading sé eitt þessarra liða en félagið hefur haft augastað á Birki í nokkur ár.

,,Við vitum að mörg lið eru að fylgjast með honum um þessar mundir en við höfum ekki fengið formlegt fax sem við höfum þurft að svara ennþá,” sagði Östenstad í samtali við Rogalands Avis.

Östenstad segir ennfremur eðlilegt að gera ráð fyrir því að önnur lið fari brátt að sýna honum meiri áhuga og bendir á að hann sé hættulegasti miðjumaður deildarinnar upp við markið.

,,Það eru mjög fáir leikmenn sem hafa hans eiginleika og að auki skemmir aldurinn ekki fyrir.”

Age Hareide, þjálfari Viking og fyrrum landsliðsþjálfari Noregs, hrósar Birki í hástert og segir hann eiga mjög bjarta framtíð fyrir höndum inni á knattspyrnuvellinum.

,,Birkir getur náð gríðarlega langt. Ég hef séð marga unga leikmenn stíga fram á sjónarsviðið og ég get fullyrt hér og nú að Birkir mun verða frábær leikmaður,” sagði Hareide í samtali við Rogalands Avis.

Sjálfur segist Birkir stefna ótrauður að því að komast að hjá liði í sterkari deild í framtíðinni.

,,Mitt helsta markmið er að spila erlendis en núna ætla ég að einbeita mér að því að ná mér sem best af meiðslunum.”

Birkir skoraði sjö mörk í 30 leikjum fyrir Viking á síðasta tímabili og var m.a. valinn leikmaður ársins af blaðamönnum Rogalands Avis. Það styttist óðum í að hann fái að spreyta sig með A-landsliðinu og ef fram heldur sem horfir verður hann vafalaust viðloðandi hópinn sem spilar í undankeppni EM í haust.
banner