Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 18. maí 2010 13:00
Magnús Már Einarsson
Leikm 2.umf: Vil ekki meina að þetta hafi átt að vera rautt spjald
Sævar í baráttu við Baldur Sigurðsson í fyrrakvöld.
Sævar í baráttu við Baldur Sigurðsson í fyrrakvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Sævar fagnar marki sínu gegn Fylki.
Sævar fagnar marki sínu gegn Fylki.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Sævar Þór Gíslason, framherji Selfyssinga, var mjög sprækur í 2-1 útsigri liðsins gegn KR í fyrradag. Sævar fékk vítaspyrnu snemma leiks og lagði síðan upp annað mark Selfyssinga að auki. Hann er leikmaður annarar umferðar hér á Fótbolta.net.

Sævar Þór Gíslason
Aldur: 34 ára
Leikir með Selfossi í efstu deild: 2, 1 mark.
Fyrri félög: ÍR og Fylkir
Landsleikir: 7 með A-landslðinu.
Lið á HM: Brasilía, Argentína, Holland og England
Lið á Englandi: Manchester United
Uppháhald knattspyrnumaður: Ryan Giggs og Lionel Messi
,,Þetta kemur mikið á óvart en þetta er skemmtileg viðurkenning fyrir liðið," sagði Sævar Þór við Fótbolta.net.

,,Þetta er klárlega stærsti sigur Selfoss á Íslandsmóti. Við höfðum trú á þessu allan tímann. Þrátt fyrir að spámenn hafi ekki haft trú á okkur þá höfðum við það sjálfir. Maður reiknaði kannski síst með stigum þarna á þessum velli en maður fann í upphituninni að allir voru einbeittir, við vorum allir tilbúnir í verkefnið og náðum að klára það."

Sævar Þór fékk vítaspyrnu snemma leiks þegar að norski markvörðurinn Lars Ivar Moldskred braut á honum. Lars Ivar fékk að líta rauða spjaldið en Sævari fannst það vera harður dómur.

,,Ég vil ekki meina að þetta hafi átt að vera rautt spjald. Það er alltaf verið að tala um þessa reglu þegar leikmaður er á leið frá marki og ég er klárlega á leið frá markinu. Það er misunandi hvernig dómararnir túlka þetta, stundum er þetta rautt og stundum ekki."

Sævar Þór vildi ekki taka vítaspyrnuna og ætlaði að leyfa miðjumanninum unga Guðmundi Þórarinssyni að spreyta sig. Ingólfur, eldri bróður Guðmundar, tók það ekki í mál og hann tók spyrnuna og skoraði.

,,Það er oft talað um það að sá sem nær í víti eigi ekki að taka víti. Ég sagði Gumma að taka vítið, hann er miklu betri spyrnumaður heldur en bróðir sinn. Ég held að stóri bróðir hafi bara verið að afsanna það að hann hafi ekki verið að horfa á sætar stelpur upp í stúku. Hann vildi sýna sig á vellinum og hann gerði það svo sannarlega og var frábær inni á vellinum eins og allt liðið."

Sævar var einnig sérstaklega ánægður með markvörðinn Jóhann Ólaf Sigurðsson í leiknum í fyrradag.

,,Vatnsgreiddu sérfræðingarnir í sjónvarpinu eins og Ásgeir Börkur nefndi þá, töluðu um að það þyrfti að vera 100% góður markvörður hjá okkur. Ég held að við höfum alveg sýnt að við erum með markmann sem er í úrvalsdeildarklassa. Það hefur ekki verið mikið minnst á hann og hans hlutverk hefur kannski svolítið gleymst en hann hefur verið frábær og hann sýndi heimsklassa markvörslur í KR-leiknum."

,,Hjörtur Hjartarson sem var með okkur síðasta sumar sagði reyndar að hann héti Jóhann Ólafur Tómasson. Liðsstjórinn okkar heitir Tómas en það passar ekki að hann geti verið faðir hans. Jóhann er svo sannarlega Sigurðsson og hann á heiður skilinn fyrir þennan leik eins og allt liðið, ég held að liðið sé menn leiksins."

Stuðningsmenn Selfyssinga stóðu sig einnig vel gegn KR og létu vel í sér heyra í stúkunni.

,,Þetta gerist ekki oft að KR-ingar eru sungnir í kaf í stúkunni. Skjálftastrákarnir og allir sem voru í stúkunni voru frábærir. Þetta er vonandi það sem koma skal í sumar. Það er ekki talað um annað en fótbolta hvar sem maður kemur í bæjarfélaginu."

,,Velgengni fylgir áhugi. Það hefur verið velgengi hér og mikill uppgangur. Það er unnið vel að öllum málum í stjórn og í kringum klúbbinn. Selfossbær er kominn í samstarf með okkur í sambandi við leikdagana og þá er mikil stemning, það má segja að leikdagar séu hátíðardagar. Það er flaggað út um allan bæ hjá fyrirtækjum sem hafa verið mjög dugleg að styrkja okkur. Selfoss er eins og maður upplifði hjá Fylki ein stór fjölskylda."


Sævar Þór hefur eftir tvö síðustu tímabil íhugað að leggja skóna á hilluna en hann ákvað að taka slaginn með Selfyssingum í úrvalsdeildinni.

,,Að upplifa drauminn að vera með Selfossi í úrvalsdeild er eitthvað sem maður bjóst ekki við. Ég ákvað að fara í þetta verkefni og ég sé ekki eftir því," sagði Sævar Þór að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 1.umferðar - Steinþór Freyr Þorsteinsson (Stjarnan)
banner
banner
banner