Jóhannes Karl Guðjónsson er á leið til enska félagsins Huddersfield Town en hann hefur samþykkt tveggja ára samning við félagið. Jóhannes Karl fór út til Englands í fyrradag en hann ætlaði upphaflega að semja við Barnsley.
,,Ég fór út með það fyrir augum að semja við þá. Á síðustu stundu komu Huddersfield inn í þetta og sýndu mjög mikinn metnað í að fá mig. Þegar að ég var búinn að hitta þjálfarann Lee Clark snérist mér alveg hugur," sagði Jóhannes Karl við Fótbolta.net í dag.
,,Huddersfield virkar sem stærri klúbbur en Barnsley þó að þeir séu í deildinni fyrir neðan. Mér leist mjög vel á allt sem þeir eru að fara að gera í framtíðinni og það eru spennandi tímar hjá Huddersfield. Þetta er stór klúbbbur með mikinn metnað og að verður gaman að takast á við þetta verkefni að koma þeim upp um deild."
Auk Barnsley og Huddersfield höfðu fleiri félög áhuga. Jóhannes Karl býr í Manchester en Huddersfield er í um hálftíma fjarlægð og því hentaði félagið vel.
,,Það voru komin fleiri lið inn í myndina og það var til að mynda eitt lið á Suður-Englandi. ég vildi byrja að athuga möguleikana hjá liðunum þarna í kringum svo ég þyrfti ekki að flytja. Þegar Huddersfield kom upp þá var plús að þeir eru ennþá nær Manchester heldur en Barnsley til dæmis. Mér fannst þetta vera mjög góður kostur og ég vildi ekki hanga eftir neinu öðru. Mér leist það vel á þetta að ég vildi klára að ganga frá þessu."
Besti kosturinn í stöðunni:
Huddersfield leikur í þriðju efstu deild á Englandi en liðið tapaði gegn Millwall í vor í umspili um sæti í Championship deildinni. Lee Clark vonar að reynsla Jóhannesar geti hjálpa Huddersfield á næsta tímabili.
,,Liðið hjá þeim er frekar ungt og í mörgum leikjum á síðasta ári voru þeir með meðalaldurinn 22-24 ára. Honum fannst þeim vanta pínu meiri reynslu í liðið. Honum fannst vanta upp á það í þessum úrslitaleik þar sem þeir komust ekki upp. Þó að hann ætli að spila á mjög ungu liði og byggja upp framtíðarlið þá vantaði honum reynslu og sérstaklega inn á miðjunni. Það var ástæðan fyrir því að hann var að sækja mig."
Jóhannes Karl var á mála hjá Burnley á nýliðnu tímabili og því er hann að fara úr ensku úrvalsdeildinni niður um tvær deildir.
,,Auðvitað er svolítið sérstakt að spila eitt tímabil í úrvalsdeildinni og fara síðan niður í League One. Mér líst mjög vel á þetta verkefni hjá þeim. Vonandi fær maður að spila mikið og vonandi eru skemmtilegir tímar framundan. Ég er búinn að spila nokkrum sinnum í úrvalsdeildinni og það er langbest að vera þar en þetta var besti kosturinn í stöðunni hjá mér."
Líklega síðasta félagið á atvinnumannaferlinum:
Jóhannes Karl er þrítugur en hann reiknar með að Huddersfield verði síðasta félagið á atvinnumannaferlinum.
,,Ég myndi reikna með því að ég fari ekki í annað lið eftir þetta. Hvort maður verði lengur þarna kemur í ljós en ég held að maður færi sig ekkert um set eftir þetta. Það er farið að kitla mann að koma heim þannig að það hlýtur að fara að styttast í það," sagði Jóhannes Karl sem vonar að uppeldisfélag hans ÍA verði á meðal þeirra bestu þegar hann kemur heim.
,,Það væri best að Skaginn væri í úrvalsdeild þegar maður kæmi heim," sagði Jóhannes Karl að lokum.