lau 26. júní 2010 11:07
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: Sky 
Liverpool vill fá Deschamps sem stjóra
Didier Deschamps.
Didier Deschamps.
Mynd: Getty Images
Liverpool ætlar að reyna að fá Didier Deschamps til að taka við knattspyrnustjórn liðsins en Rafael Benítez var rekinn frá félaginu fyrr í sumar.

Liverpool mun hafa rætt við Marseille, vinnuveitanda Frakkans, um að fá leyfi til að ræða við þennan 41 árs gamla knattspyrnustjóra sem tryggði liðinu fyrsta titilinn í 18 ár á síðustu leiktíð.

,,Það er satt, Christian Purslow framkvæmdastjóri Liverpool hringdi í mig á fimmtudagsmorgun. Hann talar frönsku mjög vel og er mjög kurteis," sagði Jean-Calude Dassier forseti Marseille.

,,Ég átti von á símtali hans því ég hafði heyrt af áhuga Liverpool á Didier. Hann spurði mig hvort ég myndi leyfa honum að hitta Didier og Jean-Pierre Bernes umboðsmann hans."

,,Ég svaraði að ég myndi aldrei hindra neinn í að hitta neinn. Ég benti honum líka vingjarnlega á að það væri ekki minnsti möguleiki á því að hann fengi þjálfarann okkar. Ekki einu sinni í draumum hans."

,,Við eigum mjög traust samband við Didier. Ég vona að hann skuldbindi sig í annað ár, ég hef ekki áhyggjur. Það er satt líka að Didier er ánægður með að svona stórt evrópskt félag hefur áhuga á sér."

banner
banner
banner