Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 21. júlí 2010 00:52
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun: Hallbera pantaði aflitun á þjálfarann
Valsstúlkur höfðu ærna ástæðu til að fagna í kvöld.
Valsstúlkur höfðu ærna ástæðu til að fagna í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Liliana Martins skallar boltann eftir mikið kraðak í teignum.
Liliana Martins skallar boltann eftir mikið kraðak í teignum.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Dóra María Lárusdóttir og Sara Atladóttir eigast við.
Dóra María Lárusdóttir og Sara Atladóttir eigast við.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
36 sekúndur liðnar og stöðutaflan sýnir þegar 1-0 fyrir Val.
36 sekúndur liðnar og stöðutaflan sýnir þegar 1-0 fyrir Val.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Valur 9-0 FH:
1-0 Katrín Gylfadóttir ('1)
2-0 Kristín Ýr Bjarnadóttir ('19)
3-0 Hallbera Guðný Gísladóttir ('30)
4-0 Hallbera Guðný Gísladóttir ('34)
5-0 Hallbera Guðný Gísladóttir ('37)
6-0 Kristín Ýr Bjarnadóttir ('38)
7-0 Hallbera Guðný Gísladóttir ('57, víti)
8-0 Helga Sjöfn Jóhannesdóttir ('77)
9-0 Björk Gunnarsdóttir ('92)

Kvennalið Vals burstaði FH í 11. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld en þarna endurspeglaðist í úrslitunum staða liðanna í deildinni. Valur með yfirburðarlið á toppi deildarinnar en FH með botninum eftir aðeins einn sigur í allt sumar.

Katrín Jónsdóttir fyrirliði Vals var hvíld í dag og var þess í stað skráð sem læknir á leikskýrslu en það er einmitt starf hennar í daglega lífinu. Silja Þórðardóttir fyrirliði FH var einnig frá keppni og skráð sem aðstoðarþjálfari á leikskýrslu í fjarveru Örnu Steinsen. Hjá FH vantaði einnig Sigrúnu Ellu Einarsdóttur sem er meidd en fleiri eru á meiðslalista Vals, Dagný Brynjarsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir eru lengi frá og Rakel Logadóttir og Andrea Ýr Gústavsdóttir eru einnig meiddar.

Stóru tíðindin í leikmannahópi Vals voru þó þau að Guðný Björk Óðinsdóttir var komin í liðið á láni frá Kristianstad í Svíþjóð og byrjaði á miðri miðjunni í kvöld en hún leikur með liðinu út júlí.

Auðvitað mátti alltaf búast við yfirburðum Vals í kvöld og þær létu strax til sín taka því það var aðeins 21 sekúnda liðin þegar FH vörnin brást og eftir slæm mistök barst boltinn til Katrínar Gylfadóttur sem skoraði með góðu skoti í teignum.

Hallbera Guðný Gísladóttir var valin leikmaður 10. umferðar hér á Fótbolta.net og sagði frá því í viðtali fyrr í dag að þegar hún væri búin að skora fjögur mörk í viðbót yrði þjálfarinn Freyr Alexandersson að aflita á sér hárið. Hún var greinilega staðráðin í að láta það gerast því seinni hlutann af fyrri hálfleiknum kom kafli þar sem hún var allsráðandi.

Hún byrjaði á að leggja upp mark fyrir Kristínu Ýr Bjarnadóttur á 19. mínútu en eftir fylgdu svo þrjú mörk frá henni sjálfri. Hún skoraði þriðja mark Vals á 30. mínútu með góðum bogabolta á markið eftir sendingu Katrínar, fjórða markið fjórum mínútum síðar með þrumuskoti í slá og inn eftir góðan undirbúningar Guðnýjar Bjarkar sem skömmu áður hafði komist í dauðafæri sjálf en skotið framhjá.

Fimmta mark Vals og þriðja mark Hallberu kom svo á 37. mínútu þegar hún lyfti boltanum á fjærhornið og skoraði sitt annað mark með hægri sem er ekki venjulega hennar sterki fótur. Kristín Ýr skallaði svo inn sjötta mark Vals eftir fyrigjöf Thelmu Bjarkar mínútu síðar og leikurinn formlega búinn.

Þrátt fyrir stöðuna í leiknum fengu FH-ingar fín færi en María Björg Ágústsdóttir átti frábæran leik í marki Vals og varði hvað eftir annað frá þeim, þar á meðal fjórum sinnum þar sem framherjar FH komust einir gegn henni og svo úr þrengri færum.

Á 57. mínútu fór boltinn í hönd leikmanns FH og dómarinn gat ekki annað en dæmt vítaspyrnu. Kristín Ýr Bjarnadóttir er vön því að taka vítaspyrnurnar en ákvað þarna að veita liðsfélaga hjálparhönd. Hallbera var komin með þrjú mörk í leiknum og eitt í viðbót myndi tryggja það að Freyr þyrfti að fara í aflitun. Kristín leyfði Hallberu að taka spyrnuna, og hún skoraði örugglega og hljóp til Freys og fagnaði.

Í þessum leik mættust líklega tveir efnilegustu leikmenn landsins. Aldís Kara Lúðvíksdóttir er besti leikmaður FH liðsins þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul og sýndi enn einn góðan leikinn í kvöld. Hún skoraði mark á 59. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu. Hjá Val kom Elín Metta Jensen inná í sínum öðrum leik, þar fer leikmaður sem vílar ekkert fyrir sér þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára í kringum stóru stelpurnar og stóð sig mjög vel.

Síðari hálfleikurinn var ekki eins fjörugur og sá fyrri en Valsstúlkur skildu þó ekki við hann án þess að bæta við tveimur mörkum í viðbót. Fyrst skoraði Helga Sjöfn Jóhannesdóttir með skalla eftir hornspyrnu á 78. mínútu og í uppbótartíma bætti Björk Gunnarsdóttir níunda markinu við.

Lokatölur 9-0 sem er vel sanngjarnt. Valur er með miklu betra fótboltalið en FH en þó var oft á tíðum sem hvorugt liðið væri að sýna sinn besta leik. Varnarleikur Valsliðsins var mjög tæpur oft á tíðum sem sleppur alveg gegn liði eins og FH, en þær eiga mikilvægan leik í undanúrslitum VISA-bikarsins á laugardaginn og þá verður að vera búið að bæta hann ef ekki á að fara illa á móti einu besta sóknarliði landsins.

Menn leiksins: Hallbera Guðný Gísladóttir og María Björg Ágústsdóttir (Valur)
Áhorfendur: 150
Dómari: Ingi Fannar Eiríksson

Valur: María Björg Ágústsdóttir, Embla Sigríður Grétarsdóttir, Pála Marie Einarsdóttir (Þorgerður Elva Magnúsdóttir '81), Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Katrín Gylfadóttir (Thelma Ólafsdóttir '63), Hallbera Guðný Gísladóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir (Elín Metta Jensen '66), Björk Gunnarsdóttir.
Varamenn: Ása Dögg Aðalsteinsdóttir, Heiða Dröfn Antonsdóttir, Guðlaug Rut Þórsdóttir, Sæunn Sif Heiðarsdóttir.

FH: Birna Berg, Berglind Arnardóttir, Ana Rita Andrade Gomes, Sigríður Guðmundsdóttir, Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir (Guðrún Björg Eggertsdóttir '71), Sara Atladóttir, Liliana Martins, Joana Pavao (Halla Marinosdóttir '83), Margrét Sveinsdóttir (Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir '71), Aldís Kara Lúðvíksdóttir, Ástrós Lea Guðlaugsdóttir.
Varamenn: Iona Sjöfn Huntington Williams, Jóhanna Steinþóra Gústavsdóttir, Hildur Egilsdóttir, Hinrika Baldursdóttir.
banner