Newcastle blandar sér í baráttu við Man Utd og Chelsea um Delap - Man City veitir Liverpool samkeppni um Kerkez
   fim 26. ágúst 2010 19:51
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun: Þróttur og ÍA skildu jöfn í Laugardalnum
Gary Martin fagnar eftir að hafa komið Skagamönnum yfir í leiknum.
Gary Martin fagnar eftir að hafa komið Skagamönnum yfir í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Pálsson reynir að ná boltanum af Hirti Hjartarsyni.
Birkir Pálsson reynir að ná boltanum af Hirti Hjartarsyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gary Martin skorar.
Gary Martin skorar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Már Guðjónsson og Hallur Hallsson.
Arnar Már Guðjónsson og Hallur Hallsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Böðvar Guðjónsson stöðvar Ingvar Þór Ólason.
Guðmundur Böðvar Guðjónsson stöðvar Ingvar Þór Ólason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur 2-2 ÍA:
0-1 Gary Martin ('9)
1-1 Hörður Sigurjón Bjarnason ('47)
1-2 Arnar Már Guðjónsson ('84)
2-2 Ingvi Sveinsson ('91)

Þróttur og ÍA gerðu 2-2 jafntefli í eina leik kvöldsins í 1. deild karla í kvöld en leikið var á Valbjarnarvelli í Laugardalnum.

Páll Einarsson þjálfari Þróttar gerði fjórar breytingar frá 3-0 tapi gegn Víkingi í síðustu umferð. Inn komu þeir Oddur Björnsson, Ingvi Sveinsson, Muamer Sadikovic og Ingvar Þór Ólason en út í þeirra stað þeir Birkir Pálsson, Helgi Pétur Magnússon, Erlingur Jack Guðmundsson, Andrés Vilhjálmsson

Þórður Þórðarson þjálfari ÍA gerði tvær breytingar hjá sér. Í stað Heimis Einarssonar og Arons Ýmis Péturssonar sem byrjuðu gegn Njarðvík í 2-1 sigri á Njarðvík komu þeir Ísleifur Örn Guðmundsson og Ragnar Leósson.

Leikurinn var illa sóttur af áhorfendum og eflaust má útskýra .það á einhvern hátt með því að leiktíminn er ekki auðveldur fyrir allt vinnandi fólk, klukkan 18:00 á virkum degi. Um 175 manns létu þó sjá sig og Skagamenn voru betur studdir í stúkunni.

Skagamenn komust yfir á níundu mínútu leiksins og markið var einkar klaufalegt fyrir Þróttara. Eysteinn Pétur Lárusson miðvörður þeirra virtist hafa fullt vald á boltanum þegar Dusan Ivkovic samherji hans í miðri vörn Þróttar fór aftan í hann svo báðir féllu við. Gary Martin framherji Skagamanna var að pressa á þá þegar þetta gerðist og þakkaði pent fyrir sig, hirti boltann og þrumaði í markið, 0-1 fyrir ÍA.

Á 16. mínútu komust Þróttarar nærri því að jafna þegar Ivkovic átti skalla í þverslá eftir hornspyrnu en fjórum mínútum síðar varð Eysteinn Pétur að fara af velli vegna meiðslanna sem hann hlaut við samstuðið sem orsakaði markið. Þróttarinn Hallur Hallsson átti svo gott skot rétt framhjá eftir tæplega hálftíma leik en annars var leikurinn lítið fjörlegur. Andri Geir Alexandersson miðvörður ÍA varð að fara af velli vegna meiðsla á 34. mínútu.

Skagamenn fengu svo eitt færi áður en flautað var til hálfleiks. Hjörtur Júlíus Hjartarson sendi þá góðan bolta inn fyrir vörn Þróttar út til hægri þar sem Gary Martin kom á ferðinni, komst einn gegn Haraldi í markinu en skaut beint á hann. Þetta var á 42. mínútu og meira markvert gerðist ekki svo forystan 0-1 fyrir ÍA í hálfleik.

Þróttarar byrjuðu síðari hálfleikinn með látum og voru slétta mínútu að jafna metin. Halldór Hilmisson fékk boltann út til hægri, lék á varnarmann og sendi fyrir þar sem Hörður Sigurjón Bjarnason kom og setti boltann viðstöðulaust af stuttu færi í markið.

Halldór og Hörður voru hættulegustu menn Þróttar í dag og það helsta sem gerðist fram á við kom í gegnum þá. Halldór átti gott skot á 76. mínútu sem fór rétt framhjá markinu en annars var ekkert mikið að gerast í leiknum frá markinu.

Fimm mínútum síðar féll Andri Júlíusson varamaður ÍA í teignum eftir viðskipti við Hörð og vildi fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt. Þróttarar sóttu meira og meira í sig veðrið meðan leið á leikinn en það voru Skagamenn sem náðu forystunni að nýju.

Þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Gary Martin sendingu út á vítateig Þróttar, sneri laglega á varnarmenn og lék upp að endamörkum þar sem hann sendi út í teiginn á Arnar Már Guðjónsson sem átti auðvelt með að leggja boltann í netið.

Þróttarar jöfnuðu svo þegar klukkan sló 90 mínútur. Hörður tók þá horsnpyrnu sem rataði beint á kollinn á Ingva Sveinssyni sem skoraði með föstum skalla.

Meira var ekki skorað í leiknum og lokastaðan því 2-2.

Maður leiksins: Hörður Sigurjón Bjarnason, Þróttur
Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson
Aðstæður: Svotil logn, 11 stiga hiti og sól og völlurinn leit nokkuð vel út.
Áhorfendur: 175
Gul spjöld: Guðmundur Böðvar Guðjónsson, ÍA ('39), Einar Logi Einarsson, ÍA ('73), Ísleifur Örn guðmundsson, ÍA ('85)

Þróttur: Haraldur Björnsson, Ingvi Sveinsson, Eysteinn Pétur Lárusson (Birkir Pálsson '20), Dusan Ivkovic, Hörður Sigurjón Bjarnason, Hallur Hallsson, Ingvar Þór Ólason (Vilhjálmur Pálmason '81), Halldór Arnar Hilmisson, Oddur Björnsson, Muamer Sadicovic, Guðfinnur Þórir Ómarsson (Erlingur Jack Guðmundsson '69).
Ónotaðir varamenn: Milos Tanasic, Vilhjálmur Pálmason, Kjartan Páll Þórarinsson (m)

ÍA: Páll Gísli Jónsson, Andri Geir Alexandersson (Arnar Már Guðjónsson '34), Ísleifur Örn Guðmundsson, Emil Kristmann Sævarsson, Guðmundur Böðvar Guðjónsson, Einar Logi Einarsson, Ólafur Valur Valdimarsson (Andri Adolphsson '72), Hjörtur Júlíus Hjartarson, Ragnar Leósson (Andri Júlíusson '79), Gary Martin, Ragnar Þór Gunnarsson.
Ónotaðir varamenn: Guðjón Heiðar Sveinsson, Andri Júlíusson, Árni Sær Ólafsson (m).
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
banner
banner