Man Utd ætlar að hreinsa til í leikmannahópnum - Vardy orðaður við Valencia
   mán 20. september 2010 13:37
Alexander Freyr Tamimi
Halldór Orri: Ekki mikill áhugi á að gera Eyjamönnum greiða
Halldór Orri varð fyrir kynþáttafordómum af hálfu stuðningsmanna ÍBV í gær.
Halldór Orri varð fyrir kynþáttafordómum af hálfu stuðningsmanna ÍBV í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Stjarnan og Breiðablik mætast í lokaumferð Pepsi deildarinnar. Ef Blikar vinna verða þeir meistarar.
Stjarnan og Breiðablik mætast í lokaumferð Pepsi deildarinnar. Ef Blikar vinna verða þeir meistarar.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Þeir sömu og níddust á Halldóri Orra í leiknum í gær þurfa að treysta á að hann og félagar í Stjörnunni vinni Blika í lokaumferðinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Þeir sömu og níddust á Halldóri Orra í leiknum í gær þurfa að treysta á að hann og félagar í Stjörnunni vinni Blika í lokaumferðinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Orri Björnsson lenti í leiðindaatviki sem er býsna sjaldséð í íslenskri knattspyrnu þegar Stjarnan mætti ÍBV í Vestmannaeyjum í gær. Halldór Orri varð fyrir miklu aðkasti stuðningsmanna ÍBV sem beittu hann kynþáttafordómum lungan úr leiknum. Það er sérstakt í ljósi þess að Halldór Orri er af sama kynþætti og nánast allir Íslendingar.

„Ég tók mikið eftir þessu, ég var á kantinum í fyrri hálfleik og var þarna við stúkuna nánast allan fyrri hálfleikinn. Það eina sem maður heyrði þarna voru einhver níðingsöskur og einhver köll þarna frá stúkunni. Ég get alveg sagt þér það að þetta voru ekki einhverjir tveir til þrír að kalla, maður var alltaf að heyra þetta frá einhverjum nýjum stöðum í stúkunni,“ sagði Halldór Orri við Fótbolta.net eftir leikinn.

„Þetta setti svolítið svartan blett á Eyjamenn. Ég hef nú alltaf haft mikið álit á Eyjamönnum en þetta setti virkilega svartan blett á ímynd mína gagnvart þeim.“

Halldór Orri segist þó ekki hafa tekið þessi orð mjög nærri sér þó að það hafi vissulega verið leiðinlegt að þurfa að sitja undir þessum níðingsskap.

„Auðvitað hefur þetta engin áhrif á mig, ég tek þetta ekki mikið inn á mig, enda er maður nú ekkert albinói. Þeir voru eitthvað að misskilja það Eyjamennirnir,“ sagði Halldór Orri léttur.

„En auðvitað er þetta leiðinlegt að heyra eitthvað svona allan leikinn, en ég var ekkert að kvarta neitt í dómaranum. Ég var ekkert mikið að spá í þessu í rauninni, ég heyrði það bara þegar dómarinn lét kalla upp í hátalarakerfinu að það ætti að hætta þessum kynþáttafordómum og eitthvað.“

Ölvuðum stuðningsmönnum ÍBV hleypt upp í mat til leikmanna
Halldór Orri kveðst í sjálfu sér ekki vera ósáttur við knattspyrnudeild ÍBV en hann er ósáttur við að þremur ölvuðum stuðningsmönnum Eyjamanna hafi verið hleypt inn þar sem leikmenn Stjörnunnar fengu sér að borða eftir leik. Þar voru þeir með mikil ólæti og áreiti, og þar héldu fordómarnir áfram.

„Það var svosum ekkert sem Knattspyrnudeild ÍBV gat gert í en það eina sem ég set spurningamerki við var að eftir leikinn í matnum var einhverjum þremur fyllibyttum hleypt inn. Þetta voru einhverjir þrír strákar með bjór og alger dólgslæti. Þeir voru hellandi niður súpu og rífandi kjaft við stjórn Stjörnunnar og það endaði með því að þeir héldu áfram að kalla eitthvað svona þegar ég var að labba út úr matnum,“ sagði Halldór Orri.

„Það var mjög skrítið að einhverjum þremur vitleysingum hafi verið hleypt inn í matinn þar sem leikmennirnir eru að fá sér að borða. Ég get sagt þér að það var hátt spennustig þarna eftir leik, en ég skil ekki hvað þeir voru að gera í þessum mat.“

Hefur lítinn áhuga á að gera Eyjamönnum greiða í lokaleiknum
Halldór Orri segist ekki hafa upplifað svona aðkast af hálfu stuðningsmanna andstæðinganna áður.

„Ég hef nú ekki lent í þessu áður, enda er maður nú orðinn vel tanaðri heldur en flestir þessir peyjar eftir spray tanið sem ég fékk hjá ykkur í sumar (sjá hér), ég er nú ekki alveg staðalímynd albinóa,“ bætti hann við hlæjandi.

Stjarnan mætir Breiðablik í seinasta leik tímabilsins í Garðabænum, en ef Blikar vinna leikinn verða þeir meistarar. Eyjamenn þurfa að treysta á að Stjarnan nái að stríða Blikum í þeim leik en Halldór segist ekki hafa neinn áhuga á því að gera Eyjamönnum greiða.

„Við eigum Blika þarna í síðasta leik en maður hefur nú svosum ekki mikinn áhuga á því að vera að gera Eyjamönnum einhvern greiða eftir framkomu stuðningsmanna þeirra í gær. Ef FH-ingar hefðu ekki líka möguleika á titlinum hefði maður voðalega lítinn áhuga á að spila þennan leik. En auðvitað gerir maður sitt besta, maður vill ekkert sjá Blikana taka við titli hérna í Garðabænum,“ sagði hann að lokum.