þri 28. september 2010 08:54
Gunnar Gunnarsson
Heimild: Soccernet 
Dirk Kuyt: Torres kemur Liverpool á sigurbraut á nýjan leik
Dirk Kuyt vonast til að Liverpool hrökkvi í gírinn í næstu leikjum.
Dirk Kuyt vonast til að Liverpool hrökkvi í gírinn í næstu leikjum.
Mynd: Getty Images
Fernando Torres skoraði gegn West Brom. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðuna í næsta deildarleik gegn Birmingham. Óbilgjörn gagnrýni?
Fernando Torres skoraði gegn West Brom. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðuna í næsta deildarleik gegn Birmingham. Óbilgjörn gagnrýni?
Mynd: Getty Images
Dirk Kuyt sóknarmaður Liverpool vísar á bug þeim ásökunum að Fernando Torres sé ekki með hugann við efnið og telur þann spænska hafa mikilvægu hlutverki að gegna þó hann skori ekki endilega mörk í tonnavís.

Torres lagði upp bæði mörkin um liðna helgi þegar Liverpool gerði 2-2 jafntefli á móti Sunderland ásamt því að fiska víta- og aukaspyrnuna sem Steven Gerrard skoraði úr gegn Manchester United á Old Trafford þegar liðið beið ósigur 3-2.

Hvað sem því líður, þá hefur Torres aðeins skorað eitt mark fyrir Liverpool á tímabilinu til þessa en það var sigurmarkið gegn West Brom á Anfield. Sumir vilja meina að það sé farið að gæta pirrings hjá Spánverjanum og tíðar vangaveltur birtast í fréttum að spænski landsliðsmaðurinn sé óánægður hjá félaginu og hafi hug á að róa á önnur mið. Dirk Kuyt er þessu öllu ósammála.

,,Allir búast við mörkum frá Fernando en hann hefur upp á svo margt annað að bjóða. Á móti Sunderland þá lagði hann bæði mörkin upp fyrir okkur," sagði hollenski Dirk Kuyt máli sínu til stuðnings en hann sneri aftur eftir meiðsli á öxl öllu fyrr en reiknað hafði verið með.

,,Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið þó hann sé ekki endilega að skora mörk. Ég er hins vegar sannfærður að mörkin fari að koma hjá honum. Hann hefur ekkert breyst í skapi. Þegar þú ert framherji og sú tegund af framherja eins og Torres er, þá viltu eiga þátt í mörkunum. En ég held að allir hafi séð hversu ánægður hann var að hafa getað lagt upp mörkin tvö um helgina," sagði Kuyt og bætti við.

,,Þegar þú ert einn besti framherji heims þá hafa allir auga með þér þannig að ef menn sjá minnsta möguleika til að gagnrýna hann þá stökkva þeir á það tækifæri. Og ef okkur tekst ekki að vinna leiki, þá er hann ósáttur, ég er ekki glaður og liðið er heldur ekki ánægt. En við vitum það öll að í næstu viku gæti Torres skorað þrennu og þá munu hlutirnir breytast til betri vegar," sagði sá hollenski.

Kuyt, vonast til að vera valinn í lið Liverpool sem mætir hans gamla félagi, Utrecht, á fimmtudaginn í Evrópu-deildinni. Hann viðurkennir þó fúslega að þeir rauðklæddu þurfi að finna sinn rétta takt eftir verstu byrjun í 18 ár í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool hefur hlotið 6 stig úr jafnmörgum leikjum.

,,Við erum ekki búnir að finna fjölina okkar ennþá, ef svo væri þá hefðum við unnið alla þessa leiki. Við vinnum að þessu takmarki baki brotnu og því miður tókst okkur ekki að landa sigri gegn Sunderland en við getum ekki beðið eftir næsta leik til að grípa tækifærið og ná að sigra," sagði Kuyt og hélt áfram.

,,Við, líkt og aðra leikmenn dreymir um að sigra í hverjum leik og berjast um titla en eins og staðan er hjá félaginu í dag þá verða menn að vera þolinmóðir. Þegar þú klæðist Liverpool treyjunni þá eru væntingarnar alltaf gríðarlegar og þess er krafist að við vinnum alla leiki. Ef við töpum eða gerum jafntefli þá er fólk óánægt og við erum akkúrat í þeirri stöðu í augnablikinu," sagði Kuyt og horfir raunsær á hlutina.

,,Hlutirnir koma til með breytast vegna þess að gæðin eru til staðar og þetta er aðeins tímaspursmál. Við viljum allir vinna og ég er fullviss um að okkur takist það ef við höldum áfram okkar öfluga vinnuframlagi. Það er morgunljóst að við verðum að tryggja að við náum í stig gegn Blackpool áður en við förum í landsleikjahléið," sagði Kuyt að lokum.
banner
banner
banner