Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 22. október 2010 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: The National 
Umboðsmaður Rooney fær slæma dóma hjá Andy Cole
Paul Stretford, Wayne Rooney, Coleen eiginkona hans og Sir Alex Ferguson er leikmaðurinn gekk til liðs við Man Utd árið 2004.
Paul Stretford, Wayne Rooney, Coleen eiginkona hans og Sir Alex Ferguson er leikmaðurinn gekk til liðs við Man Utd árið 2004.
Mynd: Getty Images
Andy Cole í leik með Newcastle United.
Andy Cole í leik með Newcastle United.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmaður Manchester United fyrir utan verslun félagsins á Old Trafford en mynd af Rooney prýðir hana.
Stuðningsmaður Manchester United fyrir utan verslun félagsins á Old Trafford en mynd af Rooney prýðir hana.
Mynd: Getty Images
Andy Cole fagnar marki með Newcastle.
Andy Cole fagnar marki með Newcastle.
Mynd: Getty Images
Andy Cole fyrrverandi framherji Manchester United ritaði pistil í dagblaðið National frá Abu Dhabi í gær þar sem hann útskýrði ástæðu þeirrar stöðu sem er komin upp í máli Wayne Rooney.

Cole vill kenna Paul Stretford fyrrverandi umboðsmanni sínum um stöðu mála en Stretford er í dag umboðsmaður Rooney. Hér að neðan má lesa pistilinn eftir Cole.


Umboðsmaður Rooney og hvernig hann kom fram við mig

Paul Stretford umboðsmaður Wayne Rooney er lykilatriði í því sem gengur á hjá besta leikmanni Manchester United þessa stundina. Þegar Sir Alex Ferguson talaði um leikmenn sem eru með umboðsmenn í vasanum var því beint að Stretford.

Og ég veit það betur en nokkur annar hvernig Stretford er því hann var umboðsmaðurinn minn. ég var stærsta nafnið hjá honum í langan tíma, sá sem trygggði honum alvöru peningaupphæðir.

Þessi fyrrverandi ryksugusölumaður var svotil nýkominn í fótboltann þegar Scott Sellars, liðsfélagi minn hjá Newcastle United, sagði mér að það væri maður sem ég þyrfti að hitta.

Ég var nýkominn til Newcastle og sagði Scott að ég hefði ekki áhuga á umboðsmanni. Hann var ákveðinn og hrósaði Stretford hástert, sagði að það skaðaði ekki að hitta hann.

Svo ég hitti hann og hann virtist í lagi. Á fyrsta fundinum sagði Stretford mér að ef ég semdi við hann þá þyrfti ég aldrei að vinna aftur eftir fótboltann. Hann sagði mér að semja í ár og ef mér líkaði ekki við það þá gæti ég gengið frá því. Hann sagði mér að hann væri alltaf með hugann við leikmennina sína, ég samdi.

Lífið gekk vel hjá mér hjá Newcastle þar til ég lenti upp á kant við Kevin Keegan, stjórann. Við vorum að fara að spila gegn Wimbledon í deildabikarnum. Ég var að fíflast á æfingu. Það var kalt og ég var búinn á því eftir leikinn á laugardeginum.

,,Hvað er að, finnst þér ekki gaman á æfingunni?" spurði Keegan.

,,Ef ég á að vera heiðarlegur, nei," svaraði ég.

,,Ef ekki þá gætirðu alveg eins drullað þér í burtu," svaraði stjórinn.

Svo ég var bara eins og ég er, fór inn og kom ekki út. Hann hélt líklega að ég myndi koma aftur en þekkti ekki karakterinn minn.

Kevin sá að ég var að fara og spurði mig hvað ég væri að gera. Ég svaraði ég væri bara að fara eftir skipunum.

Ég fór suður til unnustu minnar í Brixton í London og sagði henni hvað hafði gerst. Hún spurði mig hvort þetta væri satt og brást illa við. Ég endaði á að rífast við hana þar til hún róaðist aðeins og sá mína hlið."

Newcastle tapaði gegn Wimbledon þetta kvöld, stuðningsmennirnir og fjölmiðlarnir voru að velta því fyrir sér afhverju ég var ekki með. Keegan svaraði spurningunum með því að segja að ég hafi yfirgefið félagið.

Sagan fór víða og ég ákvað að mæta ekki á æfingu daginn eftir. Þá hringdi Stretford.

,,Hvað ertu að gera?" spurði hann.

,,Hvað meinarðu, hvað er ég að gera?" svaraði ég.

,,Þú getur ekki bara labbað út."

,,Ég gerði það sem mér var sagt að gera."

,,Jæja, þú verður að koma þér þangað á morgun."


Ég fór aftur þangað en þetta varð aldrei eins fyrir mig hjá Newcastle.

Stretford hófst handa við að vinna og kom með Manchester United. Hann varð stór hluti af lífi mínu. Hann reddaði mér bresku meti í félagaskiptum til United árið 1995. Áður en ég fór sagði Sellars mér að Stretford væri frábær svo framarlega sem ég væri að skapa honum peninga. Ég mundi það síðar.

Ég flutti til Manchester og var í húsi Stretford þar sem hann tók mig inn í fjölskylduna. Mér fannst þetta frábær gestrisni, en ég komst svo að því síðar að hann hafði dregið leigu frá tekjum mínum.

Umnboðsmaðurinn minn hafði áhrif í öllu mínu lífi. Hann bauð mér á fjölskyldusamkomur og stjórnaði því sem ég sagði í fjölmiðlum.

Hann hataði það að einhver nálgaðist mig, alveg eins og hann gerir með Wayne. Hann var mjög ráðríkur en ég leyfði honum það því ég hélt að hann væri með mína hagsmuni í huga.

Hann sagði fréttamönnum að þeir mættu ekki spyrja ákveðinna spurninga og útvegaði auglýsingasamninga. Hann gaf mér ráðgjöf í öllu sem ég gerði. Ég skapaði honum svo mikla peninga að hann varð ríkur maður, en mér var sama því mér fannst hann vera góður umboðsmaður og vinur.

En Stretford leit greinilega á mig sem umboðsmann og ekkert meira, því um leið og ég hætti að skapa honum tekjur, þá heyrði ég ekkert frá honum. Ég átti von á miklu betra frá honum. Hann var lítill umboðsmaður þegar hann fékk mig en notaði nafn mitt til að draga að sér aðra leikmenn.

Stretford lét vinskap ekki stjórna hugarfari sínu í þessu heldur peninga. Ég var ekki eini leikmaðurinn sem hætti að heyra í honum þegar ég hafði gert mitt. Fólk talar ekki vel um hann. Ég hef hitt hann nokkrum sinnum síðan þá og hann hefur ekki fengið meira en uml frá mér.

Það eru margir að spá í hvað er að gerast með Rooney sem stendur, en Stretford mun vera nálægt öllum ákvörðunum. Hann mun hafa plön fyrir Rooney innan og utan vallar.

Ég væri hissa ef hann hefði ekki athugað möguleikana. Hann fær eitthvað út úr því að gera stóra samninga. Og fá þá sinn peningalega hlut.

Ég reddaði honum mörgum samningum og hann elskaði það allt. Og það myndi gefa honum mikla ánægju ef hann gæti gert Wayne Rooney að launahæsta leikmanninum í fótboltanum.
banner