Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mán 11. apríl 2011 10:30
Elvar Geir Magnússon
Garðar Örn: Veltur á því hvað KSÍ vill gera með mig
Garðar Örn Hinriksson
Garðar Örn Hinriksson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Garðar Örn Hinriksson fótboltadómari tók flautuna úr hillunni síðasta föstudag eftir 20 mánaða hlé. Garðar Örn var einn allra besti dómari landsins þegar hann ákvað að hætta á sínum tíma en stefnir á að mæta aftur til leiks í sumar.

Garðar dæmdi Álftanes - Skallagrímur í Lengjubikarnum á föstudag en fyrrnefnda liðið vann 3-0 sigur. Hann gaf eitt rautt spjald í leiknum og þótti dæma vel. Rætt var við Garðar í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu á laugardaginn.

„Þetta gekk ágætlega. Þetta var furðuleg tilfinning og það tók mann nokkrar sekúndur að átta sig á því að vera kominn aftur með flautuna í kjaftinn. En þetta var bara gaman," segir Garðar sem vill ekki gefa út stórar yfirlýsingar um endurkomana.

„Við skulum sjá til hvað gerist. Þetta var bara fyrsti leikurinn, maður er að koma sér af stað. Ég hef bara æft í rúman hálfan mánuð svo ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar og þurfa síðan að taka þær allar til baka seinna."

Fáum við að sjá hann aftur í úrvalsdeildinni á komandi tímabili? „Auðvitað er það sem manni langar til en þetta er ekki í mínum höndum. Þetta er bara spurningin um það hvað KSÍ vill gera við mig og hvað ég fæ hjá þeim. Ég sætti mig við það sem ég fæ, ég get ekki verið að fara fram á eitthvað. Ég hætti og kem aftur," segir Garðar.

„Formið er orðið allt í lagi. Það er ekki enn 100% en þetta lítur allt betur og betur út. Það er vonandi að maður geti gengið aftur á rauða dregli dómarana."

Breytingar hafa orðið á dómarakerfinu og dómarar eru ekki lengur flokkaðir opinberlega. Garðar getur því tæknilega farið beint aftur að dæma í efstu deild. Margir telja að sú verði raunin þar sem tveir af reynslumestu dómurunum, Einar Örn Daníelsson og Jóhannes Valgeirsson, eru ekki lengur í bransanum.

„Vissulega eru möguleikar en þetta er í höndum Gylfa Orra og félaga. Ef ég mun ekki fá leiki í efstu deild þá er það bara þannig," segir Garðar sem lítur alls ekki neikvæðum augum að dæma í neðri deildum.

„Það er oft skemmtilegast að fara út á land að dæma og flest utanbæjarliðin eru í neðri deildunum. Mér finnst alltaf skemmtilegast að fara á litlu staðina að dæma."
banner
banner
banner