Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 19. apríl 2011 11:26
Elvar Geir Magnússon
ÍBV fær tvo lánsmenn frá Crewe (Staðfest)
Jordan Connerton og Kelvin Mellor.
Jordan Connerton og Kelvin Mellor.
Mynd: Eyjafréttir.is
Þeir Jordan Connerton og Kelvin Mellor hafa fengið grænt ljós á að ganga til liðs við ÍBV á lánssamningi frá Crewe Alexandra sem leikur í D-deildinni á Englandi.

Báðir eru þeir í kringum tvítugt, Connerton er sóknarmaður en Mellor getur bæði spilað í vörninni og á miðju.

Þeir æfðu með Eyjamönnum í æfingaferð á Spáni á dögunum. Samkvæmt heimasíðu Crewe er ráðgert að þeir snúi aftur til Englands í júlí.

Dario Gradi, knattspyrnustjóri Crewe, segir að báðir leikmenn séu mjög hæfileikaríkir en þurfi að öðlast sjálfstraust. Hann vonast til að Eyjadvölin bæti úr því.

Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV, segir að það séu fleiri járn í eldinum og er mjög bjartsýnn á að liðið bæti við sig sóknarmanni áður en flautað verður til leiks í Pepsi-deildinni.

„Við erum að reyna að vanda okkur eðlilega. Við erum ekki að fara að taka eitthvað bara til að taka það," segir Trausti. „Það eru þreyfingar í gangi og í raun sama staða og hefur verið í nokkra daga."

Meðal leikmanna sem ÍBV er að skoða er sænskur sóknarmaður en auk þess er félagið að horfa til Austurríkis og annarra landa í Skandinavíu. ÍBV á fyrsta leik gegn Fram á Hásteinsvelli eftir tæpar tvær vikur.
banner