Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mið 04. maí 2011 15:30
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 1. umferð: Körfuboltinn heldur í mér snerpunni
Orri Freyr Hjaltalín (Grindavík)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri í leiknum gegn Fylki í Kórnum.
Orri í leiknum gegn Fylki í Kórnum.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Ég er búinn að vera hérna í átta ár og okkur er alltaf spáð ströggli. Það er ekkert nýtt af nálinni hérna í Grindavík," segir Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur. Orri er leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolta.net fyrir frammistöðuna í 3-2 sigrinum á Fylki.

Orri var drifkraftur Grindavíkurliðsins sem lenti undir 2-0. Hann skoraði sjálfur og minnkaði muninn í 2-1 rétt fyrir hálfleik en Grindavík skoraði svo tvívegis í seinni hálfleik í leiknum sem fram fór í Kórnum í Kópavogi eins og frægt er.

„Við komum engan veginn nægilega tilbúnir í fyrri hálfleikinn og spiluðum mjög illa fyrstu 20 - 25 mínúturnar. Svo fór þetta að ganga betur og þetta mark rétt fyrir hlé kom okkur aðeins á bragðið. Mér fannst við spila vel í seinni hálfleik og það var ekki ósanngjarnt að við skildum vinna þetta,"

„Við höfum oftast verið óskrifað blað í byrjun móts enda fengið liðsstyrkinn okkar nokkuð seint. Til dæmis var þessi Skoti að koma til okkar í dag. En hinir allir komu tiltölulega snemma og mér finnst vera komið betra lúkk á liðið en hefur verið á þessum tíma undanfarin ár."

Hefur bætt á sig sex kílóum
Mikið hefur verið rætt um hvaðan mörk Grindavíkur eigi að koma fyrst Gilles Mbang Ondo fór til Noregs eftir síðasta tímabil. Liðið gerði sér lítið fyrir og setti þrjú í fyrsta leik. „Menn bara aðlagast nýjum aðstæðum og ég hef engar áhyggjur af einhverri markaþurrð hjá okkur. Við höfum fullt af mönnum sem geta vel skorað þó þeir hafi ekki verið að gera það í fyrra," segir Orri.

Hann er í flottu standi enda æft vel aukalega í vetur í gegnum körfuboltann. „Ég veit ekki hvort ég megi segja það en ég hef verið að spila með ÍG í körfunni hérna. Það hefur verið mitt auka. Maður hefur verið duglegri í gymminu og búinn að bæta einhverjum sex kílóum á mig síðan í fyrra," segir Orri sem þykir fínn körfuboltamaður.

ÍG vann sér inn sæti í 1. deild í vetur. „Körfuboltinn heldur í manni snerpunni og er feykilega góð viðbótaræfing fyrir fótboltann finnst mér. Maður er ekki mikið að æfa körfubolta en spilar þessa leiki og þetta er hrikalega gaman. Mér finnst þessar íþróttir bara passa vel saman," segir Orri.

Grindavík mætir Valsmönnum í næsta leik en Hlíðarendaliðið hefur verið á miklu flugi. Orri þekkir þjálfara liðsins vel síðan hann lék undir hans stjórn hjá Þór á Akureyri. „Ég var undir stjórn Kristjáns (Guðmundssona) í fjögur ár og þekki hann ljómandi vel. Þessi árangur hjá þeim kemur mér ekki á óvart. Við mætum óhræddir í þann leik og stefnum á að taka þrjú stig," segir Orri Freyr Hjaltalín.
banner
banner
banner