Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 07. júní 2011 22:46
Elvar Geir Magnússon
Umfjöllun: KR-ingar sprungu út eftir að Hannes varði víti
KR 2 - 0 FH
1-0 Viktor Bjarki Arnarsson ('70)
2-0 Baldur Sigurðsson ('88)

KR-ingar sögðu í kvöld upp áskrift FH-inga að þremur stigum í Frostaskjólinu. KR vann 2-0 sigur með mörkum Viktors Bjarka Arnarssonar og Baldurs Sigurðssonar.

Markalaust var í hálfleik. Eftir jafnræði í upphafi tóku FH-ingar meiri völd á vellinum og virtist mark frá gestunum liggja í loftinu. KR hélt út til hálfleiks og það skipti sköpum.

FH átti að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Bjarna Guðjónssonar innan teigs en ekkert var dæmt. Örfáum mínútum síðar benti Þóroddur Hjaltalín Jr. þó á punktinn. Skúli Jón Friðgeirsson braut á Guðmundi Sævarssyni.

Matthías Vilhjálmsson steig á punktinn en Hannes Þór Halldórsson í marki KR las hann eins og opna bók og varði. Við þessa vörslu umturnaðist leikurinn og KR vaknaði úr værum blundi.

Einnig hjálpaði innkoma Gunnars Arnar Jónssonar mikið en hann kom inn fyrir Guðjón Baldvinsson sem var gjörsamlega týndur eins og hann hefur verið í nánast allt sumar. Kjartan Henry Finnbogason færðist þá á toppinn.

Mark Viktors Bjarka lá í loftinu. Hann klúðraði tveimur frábærum færum áður en hann náði að brjóta ísinn. KR-ingar voru eftir það líklegri til að bæta við en gestirnir að minnka muninn og Baldur Sigurðsson innsiglaði sigurinn eftir góða rispu frá Guðmundi Reyni Gunnarssyni.

Rosalega sterkur sigur hjá KR sem er komið með fjögurra stiga forystu. Eftir sigur sem þennan er ekki hægt að segja annað en smá meistaraþefur sé farinn að gera vart við sig í Frostaskjólinu. FH-ingar halda áfram að valda vonbrigðum og lykilmenn að leika undir getu.

Það er ekki oft sem svona auðvelt er að velja mann leiksins. Hannes í markinu breytti leiknum með vörslu sinni. Auk hennar var hann öruggur í öllum sínum aðgerðum og varði nokkrum sinnum mjög vel frá FH-ingum í góðum færum. Hannes hefur reynst gulls ígildi fyrir KR.

KR: Hannes Þór Halldórsson (m); Dofri Snorrason (46 Magnús Már Lúðvíksson), Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Skúli Jón Friðgeirsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson; Bjarni Guðjónsson (f), Baldur Sigurðsson, Viktor Bjarki Arnarsson; Kjartan Henry Finnbogason, Óskar Örn Hauksson (79 Ásgeir Örn Ólafsson), Guðjón Baldvinsson (61 Gunnar Örn Jónsson).

FH: Gunnleifur Gunnleifsson (m); Guðmundur Sævarsson, Pétur Viðarsson, Tommy Nielsen, Viktor Örn Guðmundsson; Björn Daníel Sverrisson, Hólmar Örn Rúnarsson (75 Ásgeir Gunnar Ásgeirsson), Matthías Vilhjálmsson (f); Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson (86 Einar Karl Ingvarsson), Hannes Þ. Sigurðsson.

Maður leiksins: Hannes Þór Halldórsson, KR.
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr., í besta falli sæmilegur.
Áhorfendur: 2.500.



93 mín Þóroddur Hjaltalín Jr. hefur flautað til leiksloka. Engin stig sem FH-ingar fengu í Vesturbænum í kvöld. Forysta KR í deildinni orðin fjögur stig.

Twitter: Stefán Árni Pálsson
Þvílíkar hraðabreytingar hjá Guðmundi Reyni #KR

88 mín MARK! KR-ingar að klára þetta. Guðmundur Reynir Gunnarsson geystist upp vinstri kantinn og stakk Einar Karl af. Einar nýkominn inn sem varamaður en átti ekkert í Guðmund Reyni. Guðmundur gaf svo fyrir þar sem smalinn Baldur Sigurðsson kom á siglingunni og skoraði af stuttu færi. ,,2-0 fyrir stórveldið" syngja stuðningsmenn KR.

85 mín Einar Karl Ingvarsson kemur inn sem varamaður fyrir Atla Viðar Björnsson. KR-klúbburinn velur Hannes Þór Halldórsson mann leiksins. Vítavarsla hans ansi hreint mikilvæg.

Twitter: Þórður Helgi Þórðarson
Einn besti leikur sumarsins segir logi! Þetta er með þvi leðinlegra sem með hef seð! Hannes er buinn að skemma þetta fh lið.

78 mín Óskar Örn Hauksson að sleppa einn í gegn en ákveður svo að stinga sér til sunds og reyna að fá víti. Þóroddur Hjaltalín Jr. dæmir ekkert, réttilega. Viktor Bjarki farinn af vell og inn kom Ásgeir Örn Ólafsson.

75 mín Hólmar Örn Rúnarsson farinn af velli hjá FH og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kom inn sem varamaður.

Twitter: Sindri Snær Jensson
Má ekki gleymast að ég spáði 1-0 KR og er að vinna mér inn máltíð frá Dóra og Hauk. Þetta fer svona

73 mín KR-ingar óheppnir að vera ekki komnir tveimur mörkum yfir. Hafa átt tvær gríðarlega hættulegar tilraunir. Gunnleifur varði fyrst naumlega í horn eftir aukaspyrnu og Baldur Sigurðsson átti svo skot sem Gunnleifur varði einnig.

70 mín MARK! KR-ingar verið mun sterkari síðustu mínútur og þeir uppskera hér mark! Viktor Bjarki skoraði en hann hafði gert sig líklegan í tvígang fyrir markið og meðal annars bjargaði Gunnleifur í markinu þegar hann slapp einn í gegn. Allt er þegar þrennt er og hann skoraði eftir að Kjartan Henry lagði boltann snyrtilega á hann, Viktor með hnitmiðað skot.

Twitter: Guðmundur Karl
Þessi vítaspyrna var aldrei að fara inn... allt of stutt tilhlaup og lesið eins og símaskráin... #aulaskapur

62 mín Kjartan Henry í hörkuskallafæri en hitti ekki markið!

61 mín Guðjón Baldvinsson heldur áfram að eiga arfadapra leiki. Er farinn af velli. Inn kom Gunnar Örn Jónsson og Kjartan Henry Finnbogason færðist upp á topp.

58 mín Hannes ver víti!! Þarna fengu FH-ingar vítaspyrnu. Skúli Jón Friðgeirsson var dæmdur brotlegur eftir að Guðmundur Sævarsson féll í teignum. Á punktinn fór Matthías Vilhjálmsson en Hannes varði vítaspyrnu hans! Þetta gæti kveikt í KR-ingum!

55 mín FH átti klárlega að fá vítaspyrnu. Boltinn í hendina á Bjarna Guðjónssyni en hvorki Þóroddur Hjaltalín dómari né Áskell Þór Gíslason aðstoðardómari sáu þetta. Heimir Guðjónsson ekki sáttur og uppsker áminningu fyrir mótmæli.

50 mín Hitti Valsmennina Halldór Kristinn Halldórsson og Hauk Pál Sigurðsson í hálfleik og þeir spá því að við fáum mörk í þennan seinni hálfleik. Halldór sagði að þetta færi 2-1 en Haukur er handviss um 1-1 jafntefli.

47 mín Seinni hálfleikur farinn af stað. KR með skiptingu í hálfleik. Dofri tekinn af velli og Magnús Már Lúðvíksson inn fyrir hann. Það var ævintýraferð að fara á salernið í hálfleik og röðin eins og á B5 á góðu laugardagskvöldi.

Háfleikur Staðan jöfn í hálfleik. Markalaust því miður. Vonandi lagast það í seinni hálfleik.

42 mín Grétar Sigfinnur að taka glæsileg en hæg skæri. Í annað sinn í sumar sem hann tekur skærin en hann gerði það einnig gegn Þór á þessum sama velli. Mætti gera þetta oftar.

Twitter: Henry Birgir Gunnarsson, blaðamaður á Fréttablaðinu
Ingó Sig mættur í Vesturbæinn. Hann situr FH-megin. #hræddur?

37 mín FH átti aukaspyrnu á þokkalega hættulegum stað. Viktor Örn Guðmundsson tók spyrnuna sem leit vel út þar til Hannes Þór greip boltann auðveldlega.

31 mín Atli Guðnason að fara illa með Dofra Snorrason, komst í skotfæri en skot hans dapurt og Hannes ver. Dofri búinn að vera í basli hérna fyrsta hálftímann.

29 mín Hannes Þ. Sigurðsson þurfti að skipta um treyju. Ekki til önnur númer 30 svo hann fékk treyju númer 16. Það er númer Jóns Ragnars Jónssonar sem er því ólíklega að fara að koma inn sem varamaður í kvöld.

Twitter: Tómas Meyer, viðtalssérfræðingur á Stöð 2 Sport
FH-ingar komnir með undirtökin og nú fara mörkin að láta sjá sig!

24 mín Besta færi leiksins til þessa. Atli Guðnason FH-ingur fékk boltann óvænt og náði fínu skoti en Hannes Þór Halldórsson varði vel. Stuttu síðar átti Atli Viðar Björnsson skot en aftur varði Hannes.

17 mín Staðan enn markalaus. Tommy Nielsen, varnarmaður FH, hefur nokkrum sinnum reynt langar spyrnur fram en sparkað útaf við mikinn fögnuð KR-megin í stúkunni.

8 mín Hannes Þ. Sigurðsson með fyrstu skottilraun FH-inga en boltinn fór naumlega yfir. Leikurinn lofar nokkuð góðu miðað við fyrstu mínúturnar þó ekkert teljandi færi hafi komið.

3 mín Óskar Örn Hauksson með líflega byrjun, bæði búinn að eiga hættulega fyrirgjöf og fyrsta skot leiksins. Gunnleifur Gunnleifsson markvörður FH er í skærustu markmannstreyju heims.

1 mín Leikurinn er hafinn. FH-ingar sækja í átt að KR-heimilinu í fyrri hálfleik.

20:00 Leikmenn ganga inn á völlinn á meðan 'Heyr mína bæn' hljómar. Stór hluti vallargesta eru ekki alveg að kveikja á því að þeir eiga að syngja með heldur standa þeir bara og klappa.

19:53 KR-ljónið og Peppi Pepsi-kall báðir á vellinum. Halda ákveðinni fjarlægð sín á milli en hlakka til að sjá hvað gerist þegar þeir hittast.

19:45 Tónlistin á KR-vellinum er vel svæfandi. ,,Leikmennirnir vilja heyra þessi lög, svona er tónlistarsmekkurinn hjá liðinu," segir Grímur vallarþulur.

19:39 Bjarni Fel er mættur í blaðamannastúkuna og er búinn að fá sér bakkelsi og kaffi með mjólk. Allt eins og það á að vera á KR-vellinum.

19:36 Athygli vekur að fjórði dómarinn hitar vel upp með dómaratríóinu. Greinilegt að hann ætlar ekki að togna við að lyfta skiptinga-skiltinu í kvöld. Fjórði dómari er kjötiðnaðarmaðurinn Örvar Sær Gíslason, tvífari fjölmiðlamannsins Benedikts Bóasar Hinrikssonar.

19:28 Rúnar Kristinsson er duglegur að skipta leikjum milli Dofra Snorrasonar og Magnúsar Más Lúðvíkssonar í hægri bakverðinum. Dofri byrjar í dag.

19:25 Það er tvær breytingar á byrjunarliði FH frá síðasta deildarleik þar sem liðið vann 3-0 sigur á Stjörnunni. Gunnar Kristjánsson er meiddur og kemur Atli Viðar inn. Við fáum því Atla og Hannes saman í sókninni sem er hressandi. Ólafur Páll Snorrason er enn á meiðslalistanum. Hin breytingin er að Tommy Nielsen kemur inn fyrir Frey Bjarnason. Fyrsti byrjunarliðsleikur Tommy í sumar.

19:19 Endilega verið með! Hashtagið #fotbolti á Twitter og valdar færslur verða birtar hér í þessari textalýsingu.

19:15 Hér að neðan má sjá liðin í kvöld:

Byrjunarlið KR: Hannes Þór Halldórsson (m); Dofri Snorrason, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Skúli Jón Friðgeirsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson; Bjarni Guðjónsson (f), Baldur Sigurðsson, Viktor Bjarki Arnarsson; Kjartan Henry Finnbogason, Óskar Örn Hauksson, Guðjón Baldvinsson.

(Varamenn: KR: Ásgeir Örn Ólafsson, Gunnar Þór Gunnarsson, Gunnar Örn Jónsson, Aron Bjarki Jósepsson, Magnús Már Lúðvíksson, Atli Jónasson (m), Jordao Diogo)

Byrjunarlið FH: Gunnleifur Gunnleifsson (m); Guðmundur Sævarsson, Pétur Viðarsson, Tommy Nielsen, Viktor Örn Guðmundsson; Björn Daníel Sverrisson, Hólmar Örn Rúnarsson, Matthías Vilhjálmsson (f); Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson, Hannes Þ. Sigurðsson.

(Varamenn FH: Freyr Bjarnason, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Gunnar Sigurðsson (m), Jón Ragnar Jónsson, Einar Karl Ingvarsson, Hákon Atli Hallfreðsson, Emil Pálsson)

19:00 Gott kvöld! Það er komið að stórleik hér á KR-vellinum þar sem heimamenn taka á móti FH. El Clasico Íslands eins og einn góður maður sagði og ég held að ég taki bara undir það með honum. KR er á toppi Pepsi-deildarinnar með fjórtán stig, sex stigum meira en FH sem hefur leikið einum leik færra.

18:57 Akureyringurinn Þóroddur Hjaltalín Jr. er dómari í kvöld en hann dæmir fyrir Þór.

18:55 Leikurinn átti upphaflega að vera á dagskrá í gær en var, eins og aðrir leikir 7. umferðar, færður vegna landsleiksins við Dani sem fram fór á laugardag.

Þetta er 51. deildarleikur þessara félaga. FH-ingar hafa sigrað í 26 af 50 deildarleikjum, KR í 13 en 11 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 80-61 FH í hag. (heimild: vefskrá KR)

Þrír í leikmannahópi FH hafa leikið með báðum félögum í efstu deild. Markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson lék með KR árin 1998 og 1999 og Bjarki Gunnlaugsson árin 1999 og 2003-06. Gunnar Kristjánsson lék 118 leiki með KR en hann var lánaður til FH í fyrra
og skipti yfir til Hafnfirðinganna í vetur.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
banner
banner
banner
banner
banner