Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 11. júlí 2011 09:00
Fótbolti.net
Yfirlýsing frá Leikni: Ákvörðun tekin með sorg í hjarta
,,Á fundi með stjórn knattspyrnudeildar var Sigursteinn inntur eftir því hvort hann vildi stíga til hliðar og einbeita sér að bata sínum, en hann sagði að það yrði ákvörðun stjórnarinnar ef svo væri. Sú ákvörðun hefur nú verið tekin með hag félagsins fyrir brjósti."

Ofangreind orð eru meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu sem knattspyrnufélagið Leiknir sendi frá sér seint í gærkvöldi. Þjálfaraskipti hafa orðið hjá félaginu en Zoran Miljkovic er að taka við af Sigursteini Gíslasyni.

Sigursteini var sagt upp störfum líkt og Garðari Gunnari Ásgeirssyni sem tók tímabundið við þjálfun Leiknis eftir að Sigursteinn greindist með krabbamein snemma sumars.

Leiknir hefur enn ekki unnið leik það sem af er Íslandsmóti og er árangurinn langt undir þeim markmiðum sem sett voru fyrir tímabilið. Liðið er í fallsæti í 1. deildinni.

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Leiknis í heild sinni.



Yfirlýsing frá Leikni varðandi þjálfaraskipti:

Stjórn knattspyrnudeildar Leiknis hefur ákveðið að enda samstarfið við Sigurstein Gíslason. Stjórnin vil þakka Sigursteini fyrir vel unnið starf á þeim tíma sem hann þjálfaði liðið, en sá tími hefur verið ánægjulegur og jákvætt skref í uppbyggingu félagsins.

Ástæðan fyrir því að samstarfinu er slitið á þessum tímapunkti er engu að síður sú að árangurinn í sumar hefur verið langt fyrir neðan væntingar og langt undir þeim markmiðum sem sett voru fyrir tímabilið. Sigursteinn Gíslason væri öllu jafna rétti maðurinn til að snúa skútunni við en í ljósi aðstæðna teljum við hag klúbbsins betur borgið undir stjórn nýs þjálfara.

Á fundi með stjórn knattspyrnudeildar var Sigursteinn inntur eftir því hvort hann vildi stíga til hliðar og einbeita sér að bata sínum, en hann sagði að það yrði ákvörðun stjórnarinnar ef svo væri. Sú ákvörðun hefur nú verið tekin með hag félagsins fyrir brjósti.

Við gerum okkur ljóst að þessi ákvörðun kann að falla í grýttan jarðveg en Sigursteinn hefur eðlilega ekki getað einbeitt sér að þjálfun liðsins í sumar og því varð að taka þessu erfiðu ákvörðun. Það er með sorg í hjarta sem ákvörðunin er tekin og vil stjórn Leiknis óska Steina góðs gengis í baráttunni sem framundan er.

Stjórnin vil einnig þakka Garðari Gunnari Ásgeirssyni fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins á erfiðum tíma, en hann stýrði liðinu í fjarveru Sigursteins.
banner
banner
banner