Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 24. ágúst 2011 12:48
Elvar Geir Magnússon
Formaður landsliðsnefndar: Hefur ekki verið gripið í taumana
,,Við stöndum illa að vígi, ég skal viðurkenna það," segir Jón Gunnlaugsson, formaður landsliðsnefndar Íslands. Íslenska landsliðið hefur aldrei verið neðar á styrkleikalista FIFA en það situr í 124. sæti.

Jón vill ekki staðfesta að það verði þjálfaraskipti að lokinni þessari undankeppni en segir að farið verði yfir málin og sá kostur að fá erlendan þjálfara skoðaður eins og hver annar.

Hér að neðan má sjá viðtal við Jón.



Viltu tjá þig um stöðu Íslands á þessum FIFA-lista?
Nei ég vil lítið tjá mig um hana. Mér finnst þessi umræða vera vitlaus og það er allt í lagi. Hún má bara vera svoleiðis.

Ákveðið þið í landsliðsnefnd með ráðningu landsliðsþjálfara?
Við ákveðum ekki hver er ráðinn en komum að því.

Getur þú staðfest að það verði þjálfaraskipti að lokinni þessari undankeppni?
Nei, ég get ekki staðfest það.

En er á einhvern hátt verið að grípa í taumana vegna niðursveiflu Íslands á listanum?
Nei það hefur ekki verið gripið í taumana. Við reynum bara að búa eins vel að landsliðinu og hægt er. Við erum með þjálfara sem á að vinna úr því. En erum við ekki alltaf að spila við sterkari þjóðir en við sjálfir? Er það ekki vandamálið?

Þú heldur að vandamálið liggi í því?
Nei ég er bara að spyrja þig.

Það er spurning...
Það hefur enginn velt því fyrir sér.

Svo þér finnst ekkert að þessum úrslitum sem Ísland hefur verið að ná?
Jú ég er ekki hrifinn af úrslitunum, það er öllt önnur saga í sjálfu sér. En ef þú ert að spila á móti liði sem er númer níu á listanum eins og Noregur til dæmis síðast. Er einhver munur þar á?

Eigum við þá að fara að spila frekar við þessi smáríki sem eru kringum okkur á listanum?
Gerir ekki Brasilía það alltaf? Ég er bara að velta þessu fyrir mér. Ég er ekkert ánægður með stöðuna, það er langt í frá. En ef við tökum síðasta landsleik okkar sem var gegn Ungverjum. Eru þeir ekki númer 40-50, hvar finnst þér ásættanlegt að vera?

Finnst þér að Ísland eigi að tapa 4-0 fyrir Ungverjalandi?
Eru þeir ekki númer 40-50 á listanum? Ég er ekki ánægður með 4-0 tap, ég er bara að velta því fyrir mér út frá hverju þið skoðið þetta. Ég er ekkert að leggja dóm á stöðu okkar gagnvart þessum þjóðum í sjálfu sér.

Færeyjar eru þrettán sætum fyrir ofan okkur...
Af hverju eru Færeyjar þrettán sætum fyrir ofan okkur? Eigum við ekki að spila bara tíu sinnum við Færeyjar?

Finnst þér Ólafur Jóhannesson hafa hlotið ósanngjarna gagnrýni?
Var ég að segja það? Þú segir að það sé ekki eðlilegt að tapa 4-0 fyrir Ungverjum og ég er sammála þér í því. Af hverju hækka England og Holland á listanum, þeir voru ekkert að spila núna?

Því liðin fyrir ofan voru að tapa og misstu stig
Jú jú. Ég sá í Fréttablaðinu um daginn lista fyrir þjóðirnar sem við höfum verið að spila við þann tíma sem Óli hefur verið. Taktu svo tíu ár aftur í tímann og veltu fyrir þér stöðuna á sömu þjóðunum. Við vorum að spila við mjög svipaðar þjóðir. Það er alltaf verið að tala um árangurinn hjá Gauja (Guðjóni Þórðarsyni) sem var ágætur og allt í lagi með það. Hann náði jafntefli við Frakklandi og tapi á móti Frakklandi, svo tapaði hann mjög illa á móti Rúmeníu og Írlandi en það minnist enginn á það. En við stöndum illa að vígi, ég skal viðurkenna það.

Finnst þér áhugi almennings á íslenska landsliðinu ekki í það mikilli lægð að það þurfi að hafa áhyggjur af því?
Það má til sanns vegar færa að um leið og árangurinn stendur á sér þá minnkar áhuginn. Það er alveg sama í hvaða grein það er. Það gefur auga leið. Við leggjum allt í þetta sem við getum og svo verðum við bara að taka afstöðu til hlutanna þegar að því er komið. Það fer nú að styttast í að það þurfi að taka afstöðu því riðillinn fer að verða búinn.

Eruð þið byrjaðir að skoða þjálfaramálin eða gerið þið það ekki fyrr en undankeppninni er lokið?
Það er byrjað að velta þessu öllu saman fyrir sér. Menn hafa ekki viljað tjá sig mikið um þetta og því hafa menn mikið verið að geta í eyðurnar. Það eru alltaf sögur í gangi og þeim hefur ekki fækkað eftir að fjölmiðlunum hefur fjölgað. Þetta er eitthvað sem við þurfum að lifa með en það er langt í frá að ég sé eitthvað ánægður með árangurinn, það má ekki túlka það þannig.

En þú ert á því að það sé verið að ofmeta þennan lista?
Ég hef verið á því alla tíð. Ég held að stóra vandamálið sé það að í flestum tilfellum erum við að spila við sterkari þjóðir en við erum sjálfir. Ef við ætlum að spila við Færeyjar fjórum sinnum á ári þá vinnum við kannski þrjá af fjórum og þá færum við upp. Færeyjar vilja samt ekki spila við okkur á meðan þeir eru fyrir ofan okkur. Það hefur hjálpað okkur undanfarin ár að við höfum unnið eina og eina þjóð sem hefur skipt máli, við unnum Tékka fyrir ekki mörgum árum og fleiri þjóðir. Það vegur minna í dag en það gerði. Við bara vonum það besta, við verðum að gera það. Ég er samt ekki bjartsýnn á að við verðum ofarlega á listanum í framtíðinni alveg sama hvað gerist. Því miður.

Sú umræða að fá erlendan landsliðsþjálfara verður sífellt háværari. Er það eitthvað sem kemur til greina?
Mér finnst það alveg eins koma til greina en menn verða að velta fyrir sér með peninga. Þeir kosta mikið. Ég hef enga trú á öðru en að það verði skoðað eins og annað í þessu dæmi.

Nú erum við að fá upp efnilega leikmenn, er ekki mikilvægt að hlúa vel að þeim?
Ég held að það sé engin ástæða til að ætla annað en að það verði búið vel að þeim í framtíðinni. Ég held að það sé ekki málið sem þetta snýst um. Það hafa orðið hellings framfarir hjá okkur á undanförnum árum en það hafa orðið meiri framfarir í flestum öðrum löndum. Umhverfið er að breytast rosalega í þessu. Það eru miklir peningar komnir inn í þetta í öllum löndum, ekki bara hjá okkur. Maður sér það bara þegar maður kemur á þessa staði, þetta hefur gjörbreyst og ekki síst hjá litlu þjóðunum. Ég er búinn að vera það lengi í þessu.

Nú hefur maður heyrt gagnrýni á að það vanti skýrari stefnu varðandi landsliðin okkar og hvernig tengingin er frá yngstu landsliðunum og alveg upp í A-landsliðið. Talað um að landsliðin þurfi að spila sömu taktík eins og til dæmis Spánverjar hafa verið að gera. Er þetta ekki eitthvað sem er ábótavant?
Þetta er ábyggilega hlutur sem má skoða. En ég held að ef þú kannar þetta betur þá fengir þú örugglega aðra sýn á þetta. En þetta er vissulega eitthvað sem má kanna, ég er ekki að loka það. Þetta hefur byggst á þeim þjálfurum sem eru að vinna þarna hverju sinni. Þetta er bara rannsóknarefni fyrir ykkur að skoða ofan í kjölinn. Það finnst mér.
banner
banner