Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 30. ágúst 2011 23:52
Alexander Freyr Tamimi
Umfjöllun: Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn
Stjarnan 3 – 0 Afturelding
1-0 Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (´48, víti)
2-0 Ashley Bares (´88)
3-0 Inga Birna Friðjónsdóttir (´92)

Stjarnan vann í dag sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu knattspyrnudeildarinnar þegar liðið mætti Aftureldingu í Pepsi deild kvenna. Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Stjarnan að skora þrjú mörk í þeim seinni og tryggja sér sannfærandi sigur, en þær voru mun betri aðilinn í leiknum.

Leikurinn byrjaði rólega en á 8. mínútu hefðu Stjörnustúlkur getað komist yfir þegar Harpa Þorsteinsdóttir fékk dauðafæri. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir átti þá frábæra fyrirgjöf á Hörpu sem var alein inni í teignum en Jacqueline Des Jardins í marki Aftureldingar varði meistaralega í horn.

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og heimastúlkur pressuðu vel að marki gestanna. Þeim tókst þó ekki að nýta sér yfirburðina fyrstu 20 mínúturnar til að koma inn marki, enda má með sanni segja að vörn Aftureldingar hafi verið öguð og skipulögð og gefið fá færi á sér.

Fyrri hálfleikurinn var í raun ekki mikið fyrir augað. Stjarnan réði lögum og lofum en var ekki að nýta sér það sem skyldi. Þær virkuðu hálf hugmyndasnauðar fram á við og gekk illa að brjóta vörn Aftureldingar á bak aftur. Oft negldu þær boltanum bara fram og hann endaði aftur fyrir endamörk.

Utan við tvö skot frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Eddu Maríu Birgisdóttur sem fóru yfir markið, og einn skalla frá Önnu Björk Kristjánsdóttur eftir aukaspyrnu, fengu þær í raun engin teljandi færi í fyrri hálfleik og var staðan enn 0-0 þegar flautað var til leikhlés.

Það dró hins vegar til tíðinda snemma í seinni hálfleik þegar Stjarnan fékk vítaspyrnu, en þá var brotið á Hörpu Þorsteinsdóttur. Spyrnuna tók Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skoraði af gríðarlegu öryggi í vinstra hornið og staðan 1-0 fyrir heimastúlkur.

Stjörnustúlkur ætluðu greinilega ekki að hanga á þessu eina marki og héldu áfram að pressa. Þær fengu nokkur ágæt færi og þá sérstaklega á 65. mínútu þegar Inga Birna Friðjónsdóttir hirti boltann af varnarmanni og komst í gott skotfæri, en Jacqueline varði vel frá henni.

Stjarnan hélt áfram að skjóta en boltarnir fóru yfirleitt á Jacqueline í markinu, sem var örugg á milli stanganna. Hún fékk nóg að gera en náði oftast að halda boltunum sem komu að henni.

Í raun stefndi allt í að leiknum myndi ljúka með 1-0 sigri Stjörnunnar, Afturelding var lítið með boltann og komust varla inn á vallarhelming heimastúlkna. Markamaskínan Ashley Bares var hins vegar ekki á þeim buxunum að láta þetta gott heita og skoraði hún annað markið undir lokin með stórglæsilegu skoti utan teigs. Óverjandi fyrir góðan markvörð Aftureldingar og sigur Stjörnunnar og Íslandsmeistaratitill gulltryggður.

Þær ákváðu þó að láta kné fylgja kviði og í uppbótartíma bætti Inga Birna Friðjónsdóttir við þriðja markinu og innsiglaði flott tímabil hjá Stjörnunni. Skömmu síðar var flautað til leiksloka og Íslandsmeistaratitillinn staðreynd þrátt fyrir að enn séu tvær umferðir eftir.

Liðið er með 45 stig á toppi deildarinnar en Valur er í 2. sætinu með 38 stig og geta þær því ekki náð þeim. Stjarnan hefur unnið þrettán leiki í röð í deildinni, eða alla leiki síðan þær töpuðu gegn Val í 3. umferðinni. Þær eru því vel að þessum titli komnar eftir frábært sumar.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Ása Dögg Aðalsteinsdóttir (M), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (F), Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir, Inga Birna Friðjónsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Edda María Birgisdóttir, Eyrún Guðmundsdóttir, Ashley Bares, Írunn Þorbjörg Aradóttir.

Byrjunarlið Aftureldingar: > Jacqueline T Des Jardins (M), Halldóra Þóra Birgisdóttir, Lára Kristín Pedersen, Guðný Lena Jónsdóttir, Sesselja Líf Valgeirsdóttir, Kristín Tryggvadóttir, Sandra Dögg Björgvinsdóttir, Vaila Barsley (F), Carla Lee, Hrefna Huld Jóhannesdóttir, Íris Dóra Snorradóttir.

Gul spjöld: Inga Birna Friðjónsdóttir (Stjarnan), Vaila Barsley (Afturelding)
banner
banner
banner