Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 22. janúar 2012 20:07
Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor í viðræðum við lið Thierry Henry og Marquez
Er þessa stundina í samningaviðræðum í Osló
Guðlaugur Victor Pálsson leikmaður U21 árs landsliðs Íslands er hugsanlega á leið í bandarísku deildina en hann er nú í Osló í viðræðum við bandaríska félagið New York Red Bulls sem Thierry Henry og Rafael Marques leika með. Hann staðfesti þetta í spjalli við Fótbolta.net í kvöld

,,Ég er ekki búinn að semja, ég er í samningaviðræðum," sagði Guðlaugur Victor við Fótbolta.net í kvöld.

,,Íþróttastjórinn hjá New York Red Bulls (Erik Solér) er Norðmaður og hann flaug mér yfir í morgun og ég er í samningaviðræðum við þá núna. Þetta er komið meira en hálfa leið," bætti hann við.

Guðlaugur Victor lék í yngri flokkum með Fjölni og Fylki hér á landi en fór þaðan til AGF í Danmörku áður en hann fór ti Liverpool og fór svo til Skotlands þar sem hann var þar til fyrr í janúar þegar hann var leystur undan samningi hjá Hibernian.

,,Þetta kom upp þannig að gamli þjálfarinn minn hjá AGF vinnur fyrir Red Bull um allan heim og hann sagði þeim frá mér fyrir löngu síðan. Þeir eru búnir að vera að fylgjast með mér. Nú þegar ég er félagslaus var svo hringt í mig."

Guðlaugur Victor sagðist ekki vera að skoða aðra möguleika á meðan hann er í viðræðum við bandaríska félagið. ,,Þetta er það sem mig langar mest og ég vona að þetta fari í gegn. Henry og Rafael Marquez eru í þessu liði, auðvitað er þetta mjög spennandi."

Guðlaugur Victor sem er tvítugur hefur leikið níu leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og 13 fyrir U19 og U17 ára liðin.

Auk Henry og Marquez hafa leikmenn eins og Roberto Donadoni, Lothar Matthäus, Youri Djorkaeff og Juan Pablo Angel leikið með New York Red Bulls á ferli sínum.

Flestir leikmenn liðsins í dag eru frá Bandaríkjunum en þó eru einnig Norðurlandabúar í liðinu. Þar má nefna hinn finnska Teemu Tainio fyrrum leikmann Tottenham og Sunderland og norska varnarmanninn Jan Gunnar Solli.

Þjálfari New York Red Bulls er Hans Backe frá Svíþjóð en hann var aðstoðarmaður Sven-Goran Eriksson þegar hann stýrði Manchester City á sínum tíma sem og landsliði Mexíkó.
banner
banner