fim 26. janúar 2012 10:15
Logi Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur
Logi Ólafsson
Logi Ólafsson
Logi Ólafsson og Sigursteinn Gíslason.
Logi Ólafsson og Sigursteinn Gíslason.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Sigursteinn í leik með Skagamönnum.
Sigursteinn í leik með Skagamönnum.
Mynd: Eiríkur Jónsson
Nú hefur besti maðurinn verið tekinn af velli – Í maí síðastliðnum bárust þær sorgarfréttir að Steini Gísla væri haldinn ólæknandi og illvígum sjúkdómi, sem leiddi hann til dauða í byrjun árs. Með Steina yfirgefur þessa jarðvist einn besti sonum íslenskrar knattspyrnu. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum vel. Fyrstu kynnin voru er ég tók að mér þjálfun meistaraflokks ÍA 1995 – fyrnasterkt lið og Steini einn af lykilmönnum liðsins. Fyrir þetta tímabil bauðst honum að gerast atvinnumaður í Svíþjóð, en afþakkaði boðið og fyrir það var ég honum afar þakklátur. Með þessu sýndi Steini enn einu sinni heilindi og fórnfýsi fyrir lið sitt.

Ég get með sanni sagt að Steini Gísla er einn allra klókasti og úrræðabesti leikmaður sem ég hef þjálfað. Hann var hugsuður inni á vellinum, sá leikinn fram í tímann, eins og góðum skákmanni sæmir, en á yngri árum þótti hann afburða hæfileikaríkur á sviði skáklistar. Hann var fjölhæfur og gat spilað hvaða stöðu sem var á vellinum og leysti það af stakri snilld. Steini var harður í horn að taka þótt ekki væri hann heljarmenni að burðum. Hann fór af afli í allar tæklingar og ekki síst af klókindum og hafði yfirleitt betur. Steini var ekki síst sterkur félagslega í hópnum. Léttleiki hans og kátína hleypti oft af stað skemmtilegheitum í klefanum sem og á ferðalögum. Glettinn var hann, fyndinn og meinstríðinn og ekki má gleyma allskyns gátum sem hann lagði fyrir hópinn. Það er óhætt að fullyrða að Steini var draumur hvers þjálfara þar töluðu hæfileikar og hæfni sínu máli.

Að vísu var liður í undirbúningi fyrir stórleiki að dvelja á hóteli. Í slíkum tilfellum var sendur sérstakur matseðill á hótelið og Steina leist ekki á þetta nútíma íþróttafæði, hann var matvandur og fann meðal annars út að pasta væri óhollt og lét mig vita af því. Í einu tilviki lékum við gegn Shelbourne frá Írlandi og í síðust máltíð fyrir leikinn tók ég eftir því að hann borðaði ekki neitt. Ég kallaði hann til mín og spurði hverju það sætti að hann snerti ekki á matnum. Svarið var einfalt: “Þetta er hundvont helvíti“. Niðurstaðan var sú að ég sendi hann upp á herbergi og ég sagði honum að panta af matseðli hótelsins því eitthvað þurfti hann að borða. Aðspurður sagðist hann hafa fengið sér nautasteik og franskar. Það var ekki að sjá að það hefði áhrif á frammistöðu hans í leiknum.

Tímabilinu 1995 lauk með Íslandsmeistaratitli og góðum árangri í Evrópukeppni og mjög skemmtilegt tímabil var að baki. Í kjölfarið tók ég við landsliði Íslands og var Steini sjálfsagður í þann hóp og sem endranær var hann frábær félagi í þeim hópi. Í landsliðinu sýndi hann hversu góður hann var innan um atvinnumenn Íslands á þeim tíma. Hann lék fjölda landsleikja fyrir Ísland og var ávallt landi og þjóð til sóma. Að knattspyrnuferlinum loknum hóf hann þjálfun og í því starfi nýttist leikskilningur hans vel. Um mitt tímabil 2007 tók ég við þjálfun meistaraflokks KR og var Steini minn aðstoðarmaður út tímabilið 2008. Það var gott að hafa við hlið sér sigursælasta leikmann íslenskrar knattspyrnu og ekki síst góðan dreng. Það kom fljótt í ljós að Steini bjó yfir góðum eiginleikum sem þjálfari. Hæfni hans í mannlegum samskiptum var eindæmum góð. Ástríða hans fyrir leiknum smitaði út frá sér. Ávallt var stemning og gleði í kringum hann. Ber árangur Leiknis þess glögg merki það var unun að fylgjast með leik liðsins sem endurspeglaði þjálfarann og má segja að handbragð hans hafi verið áþreifanlegt. Hann var hugmyndaríkur, góður leibeinandi og glöggur. Ég var í daglegu sambandi við hann um langt skeið og þegar við hittumst spurði ég gjarnan „hvernig ertu“? í merkingunni hvernig hefur þú það? Steini svaraði að bragði undantekningalítið „ég, bara lítill og ljótur“ og sýnir það hversu mikill humoristi hann var.

Hann var gleðimaður þegar það átti við og yfirleitt hrókur alls fagnaðar og söng hvert dægurlagið á fætur öðru af mikilli innlifun án þess að klikka á textanum. Það er hægt að fullyrða að hvar sem borið er niður í lífi þessa frábæra drengs að nærvera hans hafði góð áhrif fólk. Það var ánægjulegt og heillandi að fylgjast með Steina, Önnu og börnum þau lifðu skemmtilegu lífi og studdu vel við bakið áhvort öðru í leik og starfi. Samheldni þeirra var til eftirbreytni. þessi yndislegu og fallegu börn voru augasteinar föður síns og er missir þeirra og Önnu mikill.

Ég votta Önnu, börnum og aðstandendum mína dýpstu samúð.
Logi Ólafsson

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner
banner
banner