Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 26. janúar 2012 13:00
Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Viðurkenndur afbragðsmaður
Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sigursteinn Gíslason í leik með KR.
Sigursteinn Gíslason í leik með KR.
Mynd: Eiríkur Jónsson
Það er með miklum söknuði sem við félagarnir setjum á blað nokkur orð til minningar um öðlinginn Sigurstein Gíslason, sem fulltrúar andstæðinga hans á knattspyrnuvellinum.

Sigursteinn var einstaklega farsæll leikmaður og lyfti ófáum bikurunum sem sá sigurvegari sem lengi verður munað eftir. Það sem stendur þó upp úr varðandi þennan merka mann er, að þrátt fyrir alla velgengnina heyrði maður aldrei nokkurn mann tala um hann af afbrýðissemi eða öfund eins og svo oft vill því miður verða um menn sem njóta velgengni. Menn ræddu alltaf um hann af virðingu og aðdáun og gera það enn. Segir það mikið um þá minningu sem hann skilur eftir sig í hjörtum og hugum íslenskra knattspyrnuáhugamanna. Hann náði sínum árangri á heiðarlegan hátt og með þeim aðferðum sem gæða knattspyrnumenn og íþróttina sjálfa sóma og umræðan um hann markast af því.

Sigursteinn var grjótharður keppnismaður og mikill jaxl, en þrátt fyrir það var hann prúðmenni á velli. Út frá samtölum hans og leiðbeiningum til samherjanna inni á vellinum, sem einkenndust af hreinræktaðri hvatningu til góðra verka, skynjuðu svo allir sem heyrðu, að hann var leiðtogi af Guðs náð, sem smitaði í sífellu út frá sér ákefð og sigurvilja.

Margir mótherja Sigursteins í gegnum tíðina geta sagt þá sögu að hafa verið tæklaðir duglega af honum af fullri hörku. Stuttu seinna, þegar tækifæri gafst til, fékk sá hinn sami hins vegar oftar en ekki að heyra í léttum tón, yfir öxlina á sér:
„Hvað segirðu? Ertu ekki alveg í lagi, eftir tæklinguna þarna áðan?“

Hann var sem sagt grimmur mótherji og gaf hvergi eftir en það var aldrei hægt að tengja það við neina illsku eða æði. Hann var einfaldlega að gera það sem hann þurfti til að auka líkurnar á að vinna leikinn.

Í gegnum tíðina hafa líklega fáir leikmenn búið við jafn miklar vinsældir og virðingu mótherja sinna og Sigursteinn. Velgengni og sigrar stigu honum aldrei til höfuðs og kom hann fram við alla sem jafningja sína. Þrátt fyrir gríðarlega keppni inni á vellinum var hann sá léttasti og líflegasti þegar menn voru sestir inn í kaffi að leik loknum og áhuginn, ástríðan og einlægnin skinu þar undantekningarlaust úr öllu hans fasi, hvort sem það var eftir sigur, jafntefli eða tap. Ódrepandi sigurvilji, prúðmennska, leikgleði, fáguð boltameðferð og einstakur leikstíll, sem einkenndist af því að gera hlutina á einfaldan og skilvirkan hátt og af fullri einbeitingu, sáu hins vegar til þess að hann ávann sér virðingu allra sinna andstæðinga úti á velli.

Það er eitt aðalsmerki framúrskarandi leikmanna eins og Sigursteins að þegar þeir framkvæma hlutina, virðast þeir lítið þurfa að hafa fyrir þeim. Í minningunni man maður varla eftir því hafa séð hann blása úr nös, heldur bar hann sig alltaf eins, frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þetta er einkenni þeirra leikmanna sem búa yfir afburða leikskilningi og eyða ekki orkunni án þess að tilgangur og hugsun búi að baki. Það var eins og hann kynni einfaldlega leikinn og skildi hann og skynjaði betur en flestir aðrir. Enda kom í ljós eftir að hann hætti að spila að hann var efni í afburða þjálfara.

Þrátt fyrir að Sigursteinn gerði hlutina yfirleitt á einfaldan hátt, sáust þó við og við tilþrif sem minntu á að hann bjó yfir meiri snilli en hlutverk hans í bakverðinum gerði kröfur til, frá degi til dags. Atvik í frægum leik skagamanna gegn Feyenoord á Laugardalsvelli kemur þar upp í hugann. Vörn Feyenoord hafði þá á sér orð fyrir alræmda rangstöðutaktík, með hinn vígalega John De Wolf í stjórnunarhlutverki. Sigursteinn fékk boltann nálægt miðlínu og líkt og um flóðbylgju væri að ræða, stormaði fjögurra manna varnarlína hollensku meistaranna á ógnarhraða fram völlinn, tilbúin að veiða allar hugsanlegar sendingar á framherja skagaliðsins í rangstöðu. Þetta gerðist af það miklum hraða, krafti og öryggi að hrifningarkliður fór um stúkuna. Sigursteinn sýndi þarna magnaða yfirvegun og leitaði rólegur að hárrétta augnablikinu áður en hann sendi boltann eldsnöggt inn fyrir vörnina, á sjálfan sig og sprettaði í gegn. Hollenski landsliðsmarkvörðurinn Ed De Goey kunni því miður sitt fag og var mættur, eftir örvæntingarfullan sprett, til að hreinsa upp og skriðtækla boltann út af. Það var þó algjörlega á síðustu stundu. Duldist það engum vallargesta að hann prísaði sig sælan að hafa komist vel frá þessu úthlaupi sínu og fólkið í stúkunni ærðist af hrifningu yfir þessari snilldar tilraun og útsjónarsemi Sigursteins. Þetta augnablik, eitt og sér, var klárlega aðgöngumiðans virði og er frábært dæmi um hversu klókur og úrræðagóður knattspyrnumaður hann var.

Annar okkar, sem þetta skrifum, á sterka minningu af Sigursteini frá því fyrir nokkrum árum er KR vann 0-2 sigur á Grindavíkurvelli í síðustu umferð Íslandsmótsins, en með tapi hefði KR fallið úr úrvalsdeildinni. Sigursteini var þakkað fyrir leikinn og óskað til hamingju með að hafa bjargað sér frá falli, sem er tilfinning sem fáir þekkja betur en menn þar á bæ. Steini tók utan um mótherja sinn, gekk með hann að stúkunni þar sem KR-ingar fögnuðu sínum mönnum og sagði:
„Þetta fólk á ekki skilið að falla, maður. Sjáðu ástríðuna".

Við viljum nota tækifærið og senda fjölskyldu og ættingjum Sigursteins, öllum vinum og vandamönnum hans, sem og þeim sem voru svo heppnir að kynnast honum á svipaðan hátt og við í gegnum knattspyrnuna, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Knattspyrnuheimurinn á Íslandi býr við mikinn missi en minningin um sigurvegarann, en fyrst og fremst hinn viðurkennda afbragðsmann, Sigurstein Gíslason, mun lifa um ókomna tíð.

Óli Stefán Flóventsson og Eysteinn Hauksson.

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner
banner
banner