Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 28. mars 2012 12:00
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
121. sætið er ekki ásættanlegt
Sam Tillen
Sam Tillen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Samkvæmt nýjustu tölum er Ísland í 121.sæti á heimslista FIFA og eins ótrúlegt og það má virðast jafnvel lægra á listanum en Færeyjar. Þrátt fyrir að Íslendingar telji aðeins í kringum 320.000 manns ætti þetta ekki að vera viðunandi staða. Teymi Guðjóns Þórðar heyrir fortíðinni til, styggjandi stóru strákana og nálægt því að komast á stórmót. Epískri baráttu gegn Frakklandi með ævintýralegu marki Framarans Rikka Daða hefur verið skipt út fyrir sívaxandi vonbrigði og tap gegn Liechtenstein, já Liechtenstein! Ég er ekki Íslendingur en samt fer ástandið í taugarnar á mér, svo hver sá sem hefur dropa af víkíngablóði í æðum ætti að vera gríðarlega ósáttur með stöðuna. Hvernig gat Ísland sokkið svo djúpt?

Ég vonast eftir nýrri dögun með ferskum hópi hæfileikaríkra leikmanna. Gylfi, Kolbein, Jóhann Berg og Aron Einar eiga framtíðina fyrir sér og geta skapað eitthvað stórkostlegt saman á næstu tíu árum eða svo. Íslendingar hafa fengið nýjan þjálfara með mikla alþjóðlega reynslu og þátttöku í ófáum stórleikjum á bakinu. Hann skilur Norrænan hugsunarhátt og ætti að vera fullkominn maður í starfið.

Síðan ég kom hingað til lands 2008 hef ég fylgst með gangi mála hjá landsliðinu og reynt að mæta á Laugardalsvöll o.s.frv. Frammistaðan hefur stórt á litið verið fátækleg sem leiðir að hræðilegri stöðu á heimslistanum. Ég hef verið hneykslaður yfir því sem mér sýnist jafnan vera almennur skortur á viljastyrk og hvatningu. Í sumum leikjum virðist ekki vera nokkur baráttuvilji eða metnaður til að gera sitt besta en það er það minnsta sem ætlast er til af leikmanni sem fulltrúa nokkurs liðs, að ekki sé talað um sem fulltrúa lands síns. Hugur minn ber mig aftur til Charlotte í mars 2010. Lið, byggt upp af leikmönnum sem nær allir spiluðu á Íslandi, tókst á við Mexíkó fyrir framan rúmlega 65.000 áhorfendur. Fyrrum liðsfélagi minn Jón Guðni Fjóluson var í liðinu sem barðist hetjulega gegn talsvert reynslumeiri andstæðingum. Þessum leikmönnum stóð ekki á sama og þeir lögðu sig alla fram til að tryggja 0-0 jafntefli. Valur Fannar Gíslason var sem íslenskur William Wallace, hendandi sér fyrir skot og leiddi liðið hreint frá borði. Þetta voru ekki þeir leikmenn sem valdir hefðu verið fyrstir til verksins og jafnvel ekki einu sinni í seinni umferð en guð veit að þeir sýndu sko áræðni.

Þessum leikmönnum var gefið tækifæri til að spila og þeir gripu það. Sumir þeirra vissu að þeir myndu kannski ekki spila aftur og gáfu sig því alla í hitanum í Norður- Karólínu.
Margir íslenskir leikmenn spila erlendis og sumir jafnvel í stærstu deildum heimsins. Kannski beinast drifkraftur þeirra, löngun og hæfileikar frekar til liðsins sem þeir eru ráðnir til heldur en landsliðsins. Fjárhagslega séð er þar til mikils meira að vinna og eftir allt eru það frammistaða þín með félagsliðinu og samningurinn sem skaffar þér laun. Það stolt sem felst í að spila fyrir landsliðið virðist skipta minna máli en áður vegna þeirra fjárhæða sem fótboltinn getur aflað. Mín stoltasta stund til þessa var þegar ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að spila fyrir England. Það er hreinn draumur fyrir hvaða enska dreng sem er að tosa ljónin þrjú yfir höfuðið og að ég hafi fengið að gera það fyllir mig gríðarlegu stolti. Bæði mín og fjölskyldu minnar vegna.

Eins og frægt er orðið dró Paul Scholes sig út úr alþjóðlega boltanum aðeins 28 ára. Hann sagði: ,,Allt frá því að ég byrjaði að spila fyrir England hefur mér fundist leikmenn - sérstaklega leikmenn í liðum á borð við Aston Villa – reyna að nota England sem leið til þess að ná til stórliðs. Svo maður spyr sig: eru þeir hér af réttum ástæðum? Mér finnst þeir vera mjög sjálfselskt fólk.”

,,Þetta gerðist þegar ég var í landsliðinu, mér fannst þeir allir vera að reyna að slá í gegn, fá fyrirsagnirnar til að geta hugsað 'Oh, ég mun komast í eitthvað annað félag eftir þetta."

Kannski þessi hugsunarháttur hafi einnig smeygt sér inn í þanka sumra leikmanna íslenska landsliðsins. Kannski sumir þeirra séu aðeins að spila fyrir sjálfan sig og nýti sér landsliðssætið sem þrep í átt að betri samning frekar en að einbeita sér að liðsheildinni.

Auðvitað er margt annað sem spilar inn í. Gjarnan þrýsta framkvæmdastjórar liðsins á leikmenn að missa af vináttuleikjum. Það kom meira að segja fyrir mig í varaliði Chelsea. Segjum t.d. að Owen Coyle kæmi til Grétars Rafns Steinssonar og segði: ,,Ég vil að þú segist vera slasaður fyrir næsta vináttuleik gegn Íslandi, annars finnum við annan í þinn stað....”
Hvað á hann þá að gera?

Hugsanlega sjá leikmenn erlendis líka ferðir með landsliðinu sem tækifæri til að hitta fjölskyldu og vini sem þeir sakna sem allt að því setur leikinn í annað sæti. Svo er það hluti skipulagningar og framkvæmda í þessu öllu saman. Ferðalög víkka sjóndeildarhringinn og með ferðalögum ná leikmenn sér í meiri þekkingu og reynslu en ef aðstæður eru eins og þær sem Roy Keane upplifði - írsku aðstæðurnar voru svo gjörólíkar því sem hann var vanur hjá Manchester- getur það haft áhrif á móral og frammistöðu leikmannsins sem einstaklings og liðsins í heild. Ég elskaði að spila með Englandi enda kom ég heim úr öllum mínum ferðum með þá vissu að ég hafði aukið við þekkingu mina. Ferðirnar voru vel skipulagðar, maður fékk viðbrögð eftir leiki, greiningu á upptökum af leikjunum, góðar æfingar og svo margt annað jákvætt sem hvatti mann til að taka aftur þátt. Næstum eins og aðbúnaður liðanna heima í alþjóðlegu umhverfi. Þetta hugarfar og tilfinningu þarf að skapa í herbúðum íslenska landsliðsins.

Ég er orðinn mikill handknattleiks aðdáandi af veru minni hér. Ég missi aldrei af leik hjá Íslandi. Viðhorf leikmannanna og starfsfólks landsliðsins endurspeglar það sem fótboltaliðið þarf til að ná árangri. Í Guðjón Vali, Óla Stef o.s.frv. á Ísland nokkra af bestu handboltamönnum heims en þeir spila hvorki vegna peninga eða persónulegs ávinnings. Á EM vann norska liðið sér það inn á einum degi sem Íslendingarnir höfðu gert allt mótið. Einstaklingarnir spila fyrir liðsheildina og fyrir stolt þjóðarinnar. Við höfum upplifað frábæran árangur kvennaliðanna í fótbolta og bæði U-21 og U-17 karla tryggðu sér þáttökurétt í Evrópukeppni landsliða. Það er tími til kominn að A - landsliðið taki á sig rögg og gefi landanum eitthvað þess virði að styðja, ekki 121. besta liðið á hnettinum.

Eistland komst í umspil fyrir Evrópumót Landsliða 2012 en ef við berum liðin saman, maður gegn manni, á Ísland klárlega vinninginn. Hæfileikarnir eru til staðar en þeir vinna ekkert nema á borði jafnt sem orði.
Athugasemdir
banner
banner