Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 28. janúar 2004 00:00
Magnús Már Einarsson
Hver er þessi José Antonio Reyes ?
Mynd: Magnús Már Einarsson
Mörgum knattspyrnuáhugamönnum brá í brún í gær þegar að Arsenal staðfesti að hafa keypt José Antonio Reyes frá Sevilla og kaupverðið var um 20 milljónir punda eða meira en Barcelona borgaði fyrir Ronaldinho og litlu minna en Real Madrid borgaði fyrir David Beckham. Upphæðin er einnig sú hæsta sem að Arsenal hefur greitt fyrir leikmann áður. Það vita hinsvegar ekki svo margir hver þessi Reyes er og því ákváðum við að skrifa smá umfjöllun og hér að neðan má sjá hana.

Leikni strákurinn í hvítu skónum:
José Antonio Reyes leikur oftast á vinstri kantinum en getur einnig leikið hægra megin, fyrir aftan framherjana eða í fremstu víglínu. Reyes er með einhverja bestu boltatækni í Evrópu og til marks um það má nefna að frá byrjun La Liga í haust fram að áramótum fengu 22 leikmenn gula spjaldið eftir að hafa brotið á Reyes. Þessi tvítugi strákur spilar oftast í hvítum skóm frá Kelme sem eru sérhannaðir fyrir hann og er guttinn helsta skrautfjöður þessa spænska íþróttavörufyrirtækis.

Staðreyndir um Reyes:
Hér má sjá fimmtán staðreyndir um José Antonio Reyes Calderón.

Fæddur 1. sept, foreldrar, Francisco og Mari og á Reyes einn eldri bróðir sem heitir Jesus.

Kom til Sevilla-liðsins 1994 ellefu ára og spilaði með öllum yngri liðum félagsins.

Hann hætti í yngri flokkunum í þriðja flokki eða 14 ára og fór þá beint í B-lið Sevilla.

Skrifaði undir sinn fyrsta samning við Sevilla 15 ára gamall.

16 ára spilaði hann sinn fyrsta leik með aðalliði Sevilla eða þann 30.januar 2000 á Estadio de la Roareda gegn Real Zaragoza.

Spilaði fyrsta leikinn í byrjunarliði 26 ágúst 2001 gegn Barcelona.

Á fyrsta heila tímabilinu með félaginu lék hann 29 leiki og skoraði 8 mörk (2001/2).

16.september skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir aðallið Sevilla gegn Espanyol á útivelli.

2001/2002 spilar hann með U-19 og U-21 landsliðum Spánverja en hann hafði áður leikið með U-16.

Varð Evrópumeistari með U-21 árs landsliði Spánverja árið 2002 ásamt öðrum efnilegum Spánverjum eins og Fernando Torres (Atletico Madrid) og Andres Iniesta (Barcelona)

Annað heila tímabilið með Sevilla (2002-2003) skoraði Reyes níu mörk í 34 leikjum.

Reyes var valinn í A-landsliðshóp Spánverja í fyrsta sinn 19.ágúst 2003.

Lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Portúgölum 7. sept í Guimares og er það vináttuleikur sem Spánverjar sigra 3-0 og spilar Reyes í 45.mínútur.

10. sept spilaði hann fyrsta leikinn sinn með Spánverjum í undankeppni EM gegn Úkraínu og leikur Reyes 30.mínútur í 2-1 sigri Spánverja á El estadio Martínez valero de Elche.

15 ára skrifaði hann undir samning við spænska íþróttavöruframleiðandann Kelme og endurnýjar þann saming árið 2003 til fimm ára.


Bitinn í punginn af samherja:
Í leik með Sevilla gegn Real Valladolid í nóvember árið 2001 skoraði José Antonio Reyes og þá komst nafn hans í mörg blöð heimsins. Markið sem að hann skoraði var ekki það merkilegt heldur fagnaðarlætin sem fylgdu í kjölfarið. Leikmenn Sevilla lögðust allir ofan á Reyes eins og sjá má hér til hliðar. Það hefur er þó ekkert athugavert við það nema hvað að miðjumaðurinn Francisco Gallardo "beit" í kynfæri Reyes. Þetta mál vakti athygli um alla Evrópu og á Spáni var talað um hneyksli og meðal annars þurfti Gallardo að svara fyrir sig hjá aganefnd spænska knattspyrnusambandsins. Reyes sagði eftir leikinn um þetta neyðarlega atvik "Ég fann fyrir snertingu en áttaði mig ekki á því hvað Gallardo hafði gert fyrr en að ég sá þetta í sjónvarpinu. Það versta við þetta er stríðnin sem að ég mun frá fá liðsfélögum mínum."

Nær Reyes að slá í gegn ?
Stóra spurningin er svo hvort að Reyes nái að slá í gegn á Englandi og í Evrópu með Arsenal en óneitanlega er hann undir pressu sem hæstu kaup Arsenal frá upphafi. Reyes er aðeins tvítugur og það gæti tekið hann tíma að aðlagast lífinu á Englandi, hvort að hann muni passa inn í lið Arsenal verður tíminn svo að leiða í ljós.
Athugasemdir
banner