Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 30. mars 2012 21:00
Hafliði Breiðfjörð
Lengjubikarinn: Afmælisbarnið náði stigi fyrir Selfoss
Víkingur Ó 2 - 2 Selfoss:
1-0 Edin Beslija ('23)
1-1 Ólafur Karl Finsen ('44)
2-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('63)
2-2 Ólafur Karl Finsen ('85)
Rautt spjald: Elías Örn Einarsson, Selfoss ('41)

Afmælisbarnið Ólafur Karl Finsen tryggði Selfossi eitt stig þegar hann jafnaði metin í lokin fyrir liðið gegn Víkingi Ólafsvík í Lengjubikarnum í kvöld. Ólafur Karl sem er tvítugur í dag skoraði bæði mörk Selfoss.

Leikið var í flottu veðri á gervigrasvellinum á Selfossi og það voru Ólafsvíkingar sem komust yfir með marki Edin Beslija á 23. mínútu.

Selfyssingar urðu fyrir áfalli á 41. mínútu þegar Elías Örn Einarsson markvörður þeirra fékk að líta rauða spjaldið fyrir að brjóta á Guðmundi Steini Hafsteinssyni sem var sloppinn í gegn. Elías er líka afmælisbarn í dag en hann er þrítugur og fékk ekki alveg sömu afmælisgjöfina og Ólafur Karl þarna. Hinn 17 ára gamli Gunnar Már Hallgrímsson fór í markið.

Ólafur Karl jafnaði metin fyrir Selfyssinga í lok fyrri hálfleik og staðan í hálfleik því 1-1.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom Ólafsvíkingum svo aftur yfir eftir rúmlega klukkutíma leik og það var svo Ólafur Karl sem jafnaði metin þegar fimm mínútur voru eftir.

Engu munaði að Ingi Rafn Ingibergsson tryggði Selfossi sigur í lokin. Hann tók þá endurtekna hornspyrnu, fékk boltann aftur og þrumaði á markið en Einar Hjörleifsson markmaður Víkinga náði að blaka boltanum yfir þverslánna. Lokastaðan í leiknum því 2-2.


Víkingarnir eru í fjórða sæti riðilsins með átta stig en Selfoss í því sjöunda með fjögur stig en bæði hafa leikið sex af sjö leikjum sínum.
Athugasemdir
banner
banner