Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 02. apríl 2012 19:30
Elvar Geir Magnússon
Skúli Jón: Þeir stefna alltaf á sigur í deildinni
Skúli kynntur til leiks á blaðamannafundi hjá Elfsborg.
Skúli kynntur til leiks á blaðamannafundi hjá Elfsborg.
Mynd: Total Football
Hlutirnir eru fljótir að breytast í fótbolta. Skúli Jón Friðgeirsson varð leikmaður Elfsborg í Svíþjóð nokkrum klukkustundum eftir að hann heyrði af áhuga félagsins. Skúli var staddur í Noregi þar sem hann hafði verið í viðræðum við Sogndal þegar hjólin fóru að snúast.

Skúli var gestur í Boltanum á X-inu FM 97,7 í dag.

„Sogndal sýndi áhuga á mér. Þetta er klúbbur sem er svona upp og niður í Noregi en hefur góða aðstöðu þó bærinn sjálfur sé ekki mjög spennandi. Þetta er sjö þúsund manna pláss lengst inn í firði og erfitt að komast þangað," sagði Skúli sem lýsti aðdragandanum að félagaskiptum sínum frá KR.

„Við fórum á miðvikudag til Noregs og komum til Sogndal á fimmtudagsmorgun. Það var margt sem kom á óvart og félagið er rosalega flott, aðstaðan er góð og mér leist vel á mennina kringum klúbbinn. Þeir voru að reyna að selja mér það að það yrði vel séð um mann. Að því leyti var ég nokkuð spenntur."

„Svo var sest niður og reynt að semja og að því leyti gekk frekar brösuglega. Klúbburinn er lítill og ekki með mjög mikið milli handanna. Það gekk erfiðlega og var bras allan daginn. Við tókum þá ákvörðun að þetta væri ekki að gefa mér nóg til að fara úr þessari góðu stöðu sem ég var í hérna heima."

„Það líður svona korter og þá hringir Rúnar Kristinsson og segir að Elfsborg sé komið inn í þetta og tilbúið að jafna tilboð Sogndal. Svo biðum við í svona klukkutíma og þá er þetta orðið nokkuð ljóst. Ég fékk samningstilboð einum og hálfum tíma eftir að ég talaði við Rúnar sem var allt annars eðlis en það sem var í gangi í Noregi. Það var því ákveðið að segja endanlegt nei við Sogndal og panta flug til Svíþjóðar."

Margfaldað með tíu
„Við komum til Gautaborgar klukkan þrjú á föstudeginum og þar þurfti að keyra þetta í gegn fyrir klukkan sex því félagaskiptaglugginn var að loka. Ég var drifinn í gegnum læknisskoðun og þetta klárað," sagði Skúli en hann segir allt kringum Elfsborg vera mun stærra en hann hefði haldið. Liðið hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra.

„Mér fannst skref upp á við í Sogndal en ég get margfaldað þetta með tíu varðandi Elfsborg. Það eru margir starfsmenn, margir þjálfarar og vel séð um alla. Völlurinn er stór og vel mætt á hann. Ég fór á völlinn um helgina og það var góð upplifun."

Skúli sá Elfsborg vinna Djurgarden í fyrstu umferð deildarinnar.

„Þeir eru orðnir frekar þreyttir á því að þeim er alltaf spáð titlinum þarna en enda svo í öðru eða þriðja sæti. Ég sagði við þjálfarann að ég þekkti þetta mjög vel frá KR! Hann sagði að þeir væru að reyna að tala niður væntingar en þeir stefna alltaf á sigur í deildinni," sagði Skúli en Elfsborg leikur á gervigrasi.

„Helmingur liða í Svíþjóð eða Noregi eru komin á gervigrasi og því er að fjölga. Ég er ekki heillaður af þessari þróun en þeir fá betri fótbolta lengri tíma á ári."

Hafsent til að byrja með
Skúli var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra þar sem hann lék sem miðvörður hjá KR sem varð Íslands- og bikarmeistari. Hann hefur þó í fortíðinni einnig leikið sem bakvörður og kantmaður. Hann reiknar þó með því að vera miðvörður hjá Elfsborg, allavega til að byrja með.

„Til að byrja með held ég að ég sé hafsent. Þeir eru í veseni varðandi þá stöðu og í síðasta leik spilaði miðjumaður þá stöðu vegna meiðsla hjá öðrum. Þeir telja mig vera í leikformi svo ég fæ tækifæri þar. Svo vita þeir að ég get líka spilað hægri bakvörð og þeir munu pottþétt skoða mig þar líka," sagði Skúli.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Skúla þar sem hann tjáir sig meðal annars um velgengni Gylfa Sigurðssonar og Kolbein Sigþórssonar, skotin frá Steven Lennon og hvernig KR gæti fyllt sitt skarð.
Athugasemdir
banner
banner