Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 12. apríl 2012 11:00
Ómar Jóhannsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Að mistakast
Ómar Jóhannsson
Ómar Jóhannsson
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Víkurfréttir
„Mér varð á og þungan dóm ég hlaut, er ég villtist af réttri braut“ þetta söng Jóhann G. Jóhannsson um árið, en ég raulaði þessar línur í huga mér um helgina. Mér varð nefninlega á. Mér tókst að sofa yfir mig á morgunæfingunni síðasta laugardag. Svona fer þegar krakkarnir eru ekki heima til að vekja mann í skrípó klukkan 7.30 um helgar.

Ég hlaut nú kannski ekki svo þungan dóm, en við í liðinu höfum ákveðnar reglur og ef þær eru brotnar borgar maður sekt í svonefndan sektarsjóð. Þessi sjóður rennur svo til góðs málefnis eftir tímabil. Langþreyttir knattspyrnumenn hafa fengið að njóta góðs af honum síðustu ár, þar sem við splæsum í veglegt skemmtikvöld fyrir þá. Það sem var hins vegar öllu verra en sektin voru allir skemmtilegu brandararnir og skotin sem ég fékk beint í æð frá liðsfélögunum. Þess má til gamans geta að lagið hans Jóhanns heitir Traustur vinur, en þegar ég vaknaði loksins og leit á símann var ég ekki með eitt ósvarað símtal frá órólegum liðsfélaga yfir því að ég væri ekki mættur tímanlega á æfingu.

Öllum verða víst á mistök og það á ekki síður við í íþróttum en hverju öðru. Meir að segja bestu leikmenn í heimi í sinni íþrótt gera mistök. Vissulega gera þeir færri mistök en sá lélegasti en þeir gera engu að síður mistök. Á Íslandi stunda þúsundir krakka fótbolta. Flestir af þeim æfa við mjög góðar aðstæður, hafa góða þjálfara og stunda sína íþrótt af áhuga og alúð. Hvernig stendur þá á því að sumir verða miklu betri en aðrir.

Sumir eru heppnir frá náttúrunnar hendi að vera vel skapaðir fyrir sína íþrótt. Aðrir eru svo duglegri að æfa aukalega. Svo er það hugarfarið. Á endanum er það yfirleitt hugarfarið sem sker úr um hverjir ná lengst. Íslendingar eru einmitt mjög vinsæl útflutningsvara í íþróttum vegna hins fræga hugarfars okkar. Í fótboltanum erum við frægir fyrir að vera duglegir og vinnusamir. Bætum við það að sífellt fleiri leikmenn eru að verða tæknilega færari með tilkomu betri aðstöðu og þjálfunar hér á landi. Það er engin tilviljun að við lesum um það annan hvern dag að ungur leikmaður sé að fara í atvinnumennsku.

Þá komum við aftur að mistökunum því eins og ég segi þá gera allir mistök, góðir og slakir leikmenn. Góður leikmaður er hinsvegar ekki hræddur við að gera mistök. Hann hefur alltaf trú á því að næsta sending heppnist, að næsta skot verði mark, að hann vinni næstu tæklingu jafnvel þó að hann hafi klikkað stuttu áður. Lakari leikmaðurinn verður hræddur eftir að hafa gert mistök. Hann hikar við að skjóta eða hættir við sendingu af ótta við að mistakast aftur. Lið eru í auknum mæli að skoða og fara yfir þennan andlega þátt, því oft er það þetta sem sker úr um sigur og tap hjá jöfnum liðum. Hver er sterkari andlega. Ég hef séð marga leikmenn ná langt á hugarfarinu og trúnni á sjálfan sig. Ég hef líka séð leikmenn hafa oftrú á eigin getu og ekki lukkast þess vegna. Ég hef hinsvegar aldrei séð góðan leikmann sem ekki hefur haft trú á sjálfum sér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner